Ó, helga nótt – Garðbæskur jólasálmur

Einn hugljúfasti og jólalegasti sálmur okkar Íslendinga er án efa Ó, helga nótt sem margur tónlistarmaðurinn hefur útsett á snilldarlegan hátt á jólum og aðventu. Það er hins vegar ekki á margra vitorði að íslenska útgáfan af sálminum er frá Garðabæ.

Engan skyldi þó undra, því snemma í sálminum kemur skírskotun í Stjörnuna heiðríku.

Ó, helga nótt, þín stjarna blikar blíða.

Að öllu gamni slepptu er forsagan þessi. Um 1960 mátti Garðahreppur fagna nýju upphafi. Kvenfélagskonur höfðu hafið endurreisn Garðakirkju, Garðasókn hafði verið stofnuð að nýju og þéttbýli var að myndast við Silfurtún og Flatir. Ungt fólk hóf landnám í hreppnum og lagði grunnstoðir að samfélaginu. Einn af þessum landnemum var Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sem síðar var bæjarverkfræðingur í Kópavogi. Sigurður var virkur í félagsmálum í Garðabæ, gekk í Rótarýklúbbinn Görðum og tók mikilvirkan þátt í störfum Skógræktarfélags Garðabæjar, svo dæmi séu tekin.

Hrannar Bragi Eyjólfsson

Hann var mikill áhugamaður um söng og var á meðal stofnenda Garðakórsins árið 1965. Kórinn stofnaði áhugafólk um söng og tónlist í Garðahreppi en ári síðar var Garðakirkja endurvígð og séra Bragi Friðriksson kjörinn sóknarprestur. Presturinn og kórfélagarnir lögðu mikinn metnað í kirkjusönginn og tónlistina – t.a.m. æfði kórinn stíft, tók æfingarnar upp á segulband sem kórfélagar hlustuðu síðan á og fóru yfir hvað mætti betur fara.

Sigurður þótti góður og fágaður söngmaður með djúpa bassarödd. Honum var margt til lista lagt og meðal annars þýddi hann fjölda sönglaga og sálma. Margir þeirra eru sungnir víða í kirkjum landsins en einn þeirra er frægastur og það er jólasálmurinn Ó, helga nótt við lag franska tónskáldsins Adolphe Adam. Sálmurinn fjallar um söguna sem jólaguðspjallið segir okkur; fæðingu frelsarans Jesú Krists á heilagri jólanótt.

Ó, helga nótt var frumflutt á Íslandi við aftansöng jóla í Garðakirkju á aðfangadagskvöld árið 1967. Sá flutningur er til á hljóðupptöku sem gott og ljúft er að hlusta á. Við þessa sömu messu sagði séra Bragi í prédikunarstól: „Hið heilaga jólaguðspjall geymir óteljandi margar og fagrar myndir sem sífellt er unun að hugleiða, þá einkum á þessari helgu nótt.“ Síðar bætti hann við:

„Ég hugsa um, hversu sérstakt og dýrmætt þetta kvöld er flestum. Það er sú nótt, sem kallar menn heim í faðm fjölskyldu og ástvina. Þetta kvöld bregður upp mynd bernskujólanna í huga okkar hinna eldri, þegar við nutum blessunar hjá þeim, sem á undan eru farin af þessum heimi. Við kveikjum ljós á leiðum þeirra og þökkum það allt, er þau voru okkur með elsku sinni og umhyggju. Samtímis viljum við búa börnum okkar og niðjum sömu blessun, svo að einnig megi hjá þeim minning vaka um heilög jól í heimaranni. Þetta eina kvöld, jólanóttin, hefur vissulega verið íslenskri þjóð heilög um aldir.
Það er sem hið heilaga jólaguðspjall helgi öll þau bönd, sem tengja ættingja og ástvini og valda því að við þráum að vera í þeim hópi, heima á jólum.“

Þessi litla frásögn er snar og skemmtilegur þáttur í sögu jóla í Garðabæ. Þetta framlag Sigurðar Björnssonar til jólahelgihalds Íslendinga er eitthvað sem Garðbæingar geta verið stoltir af og yljað sér við á heilagri jólanótt.

Ó, helga nótt – Garðbæskur jólasálmur

Ó helga nótt, þín stjarna blikar blíða,
Þá barnið Jesús fæddist hér á jörð.
Í dauða myrkrum daprar þjóðir stríða,
uns Drottinn birtist sinni barna hjörð.
Nú glæstar vonir gleðja hrjáar þjóðir
því Guðlegt ljós af háum himni skín.
Föllum á kné.
nú fagna himins englar,
Frá barnsins jötu blessun streymir,
blítt og hljótt til þín.
Ó helga nótt, ó heilaga nótt.

Vort trúar ljós, það veginn okkur vísi,
hjá vöggu Hans við stöndum hræð og klökk
Og kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi,
er koma vilja hér í bæn og þökk.
Nú konungurinn Kristur Drottinn fæddist
hann kallar oss í bróður bæn til sín.
Föllum á kné,
nú fagna himins englar,
hjá lágum stalli lífsins kyndill,
ljóma, fagurt skín.
Ó helga nótt, Ó heilaga nótt.

Gleðileg jól kæru Garðbæingar með von um að kyrrlát stjarna kvöldsins öllum lýsi á þessari helgu nótt í faðmi fjölskyldu og ástvina.

Hrannar Bragi Eyjólfsson

Sigurður Björnsson (1929-2014) samdi textann Ó, helga nótt við lag eftir Adolpe Adam. Sigurður var á meðal stofnfélaga Garðakórsins árið 1965.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar