Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig

Nú þegar aðventan er gengin í garð þá verður mér hugsað til jólanna vestur á fjörðum þegar ég var að alast upp. Ég ólst upp í Bolungarvík og eru mínar jólaminningar mér afar kærar. Mamma hefur verið í kirkjukór Bolungarvíkur síðan hún var unglingur, eða í hartnær 55 ár. Ég ólst upp við að sækja messur árið um kring og fannst mér það, og finnst enn, alltaf svo notalegt. Ég beið alltaf eftir aðventukvöldinu þegar allir stóðu upp í lokin og sungu ,, Heims um ból’’. Þá fann maður fyrir hinum sanna jólaanda hríslast um líkama og sál. Þetta var alltaf mikilvæg stund í minni æsku. Það er mikil hefð fyrir aðventukvöldinu í Bolungarvík og var kirkjan alltaf stútfull út úr dyrum. Þar sem mamma var alltaf að syngja á aðfangadagskvöld kl 18:00 með kórnum þá var mér og systur minni gert að aðstoða pabba við matseldina. Ég man að spenningurinn var orðinn svo mikill ,og ég orðinn svo spenntur, að ég fór alltaf út í stofuglugga til að fylgjast með þegar bílarnir byrjuðu að streyma niður Hólsbrekkuna frá kirkjunni. Þá mátti fara að skerpa á sósunni og hræra svo allt yrði tilbúið þegar mamma kæmi heim. Á þessum árum snérust jólin að mestu um gjafir. Ég man ég skrifaði alltaf óskalista fyrir jólin sem voru iðulega tvær A4 síður sem voru þéttskrifaðar, og það báðum megin. Við borðuðum alltaf svínahamborgarahrygg alla mína æsku og hef ég haldið í þær hefðir síðan ég byrjaði sjálfur að búa.

Eftir að ég fór sjálfur að búa þá höfum við alltaf sest að borðum kl 18:00 og beðið prúðbúin við matarborðið og beðið eftir að klukkurnar hringdu í útvarpinu og þulurinn segði ,, útvarp reykjavík, útvarp reykjavík, gleðileg jól. Þá koma jólin í mínum huga. Svo er hlustað á messuna yfir veisluborðinu. Eftir því sem maður eldist meira þá fer maður að skynja hinn raunverulega jólaanda betur en maður gerði. Það er einhver heilagleiki og dulúð yfir jólunum sem erfitt er að útskýra. Þetta er raunveruleg tilfinning sem vonandi sem flestir finna fyrir. Ég hef verið svo lánsamur að hafa fengið að halda kærleiksrík jól alla mína tíð, bæði sem barn og einnig sem foreldri. Fyrir það er ég þakklátur. En það er því miður ekki svo að allir geti haldið gleðileg jól. Jólin eru kvíðavænleg fyrir marga. Margir tengja jólin látnum ástvin, fjárhagsáhyggjum og alls kyns þáttum sem skyggja á gleði jólanna. Við megum ekki gleyma þessu. Svo er fullt af fólki úti í heimi og hérlendis sem eiga hvergi höfði sínu að halla og einnig fullt af fólki sem býr við stríðsástand og ofbeldi. Jólin eru fólki einnig mjög erfið sem búa ein og eiga engan að. Einveran birtist svo sterkt á jólunum og getur níst inn að beini. Svo er nærtækt að horfa til Grindvíkinga á þessum tíma og geta jólin vafalaust verið mörgu því fólki kvíðvænleg. Við verðum að reyna að setja okkur í spor alls þessa fólks. Núna þegar aðventan er gengin í garð þá kemst maður ekki hjá því að sjá fréttir úti í hinum stóra heimi þar sem fólk heldur á látnum börnum sínum eftir skotárásir og hryðjuverk. Maður sér angistina og sorgina í augum þessa fólks. Við verðum að átta okkur á því að þetta eru allt börn Guðs, börnin okkar. Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að öllu þessu ofbeldi sem fólk er beitt. Það kremur í manni hjartað. Ég er löngu hættur að skrifa jólagjafalista og fyrir löngu farin að óska mér allt aðrar gjafir en þær sem ég gerði í minni æsku. Ég hugsa oft til tvöfalda kærleiksboðorðsins ,, elska skaltu náungann eins og sjálfan þig,, . Það er bara hrein og klár staðreynd að við getum ekki lifað í samfélagi án þess að láta okkur annt um náungann. Við erum náunginn. Það sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Við höfum séð mjög greinilega síðustu misseri hvert skortur á kærleika hefur leitt okkur. Nei, jólagjafalistinn minn í ár snýst ekki um flottustu og fínustu pakkana. Jólagjafalistinn minn snýst heldur um að sem flestir geti haldið kærleiksrík jól. Þetta er það sem ég bið algóðan Guð í sífellu um. Ég vil í lokin biðla til allra sem þetta lesa að láta sér náungann sérstaklega varða á aðventu og gefa öllum sem á vegi ykkar verða, og ykkur sjálfum, þannig gjafir. Að láta sér náungann varða. Fólk er að glíma við allsskonar áföll og aðstæður og eitt bros getur gert kraftaverk. Getur dimmu í dagsljós breytt.
Höldum í þá von sem Guð gaf okkur í vöggugjöf. Von um betri heim þar sem ofbeldi og ójöfnuður heyri sögunni til. Breiðum út boðskap kærleika og friðar, hugsum hlýtt til náungans og munum það að það sem getur sigrað hið ílla er einungis hið góða.

Hið góða mun alltaf sigra að lokum. Kærleikurinn. Verðum að trúa því.

Ég vona þess innilega að jólahátíðin verði ykkur öllum hamingjurík og algóður Guð umvefji ykkur örmum sínum með sínum kærleika og hlýju.

Gleðileg jól.
Benedikt Sigurðsson , verkefnastjóri í Vídalínskirkju í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar