297 börn fengu boð um leikskóladvöl

Garðabær hefur lokið leikskólainnritun aprílmánaðar, en alls fengu 297 börn boð um leikskóladvöl sem hefst á nýju skólaári í haust. Þar með er svokallaðri „stórri innritun“ lokið nú í vor en leikskólabörn eru innrituð allt árið eftir því sem pláss losna. Yngstu börnin sem hafa nú fengið boð um leikskólapláss eru fædd í júlí 2023.

Alls fengu 165 börn fædd árið 2023 pláss og 95 börn fædd árið 2022, en 33 börn eru fædd fyrir árið 2021.

Tveir stórir árgangar koma inn og fara úr leikskólum Garðabæjar í haust. Þá útskrifast 252 börn sem fædd eru 2018 úr leikskólum Garðabæjar og hefja grunnskólanám. Um áramótin voru 267 börn fædd 2023 með lögheimili í Garðabæ.

Mestu munar um húsnæði Urriðabóls við Holtsveg en þar hefur gengið vel að manna skólann.  Með opnun annars áfanga Urriðaholtsskóla bætast við 40 leikskólapláss og unnið er að því að ráða starfsfólk fyrir haustið.

Næstu dagsetningar 

Í marsmánuði voru 77 börn innrituð í leikskóla og ættu þau flest að vera búin að hefja leikskóladvöl sína eða eru við það að hefja hana á næstu vikum. 

Í maímánuði stendur til að bjóða börnum fæddum í ágúst 2023 og fyrr leikskólapláss frá og með hausti og svo í ágústmánuði verður börnum af biðlista boðið í þau pláss sem standa til boða. Farið verður neðar á biðlistann samkvæmt úthlutunarreglum Garðabæjar, en nýjar innritunarreglur kveða á um að börn þurfa að vera 12. mánaða og hafa lögheimili og vera búsett í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar