Sunnuhlíðarsamtökin heiðra Ásgeir Jóhannesson

Þann 2. nóvember s.l. hélt Ásgeir Jóhannesson upp á 90 ára afmæli sitt. Af því tilefni ákvað stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna að heiðra hann á aðalfundi fulltrúaráðsins sem haldinn var 18. maí og afhenda honum viðurkenningarskjal.

Ásgeir mætti á fundinn ásamt börnum sínum Berglindi og Lárusi. Vegna veikinda Gunnsteins Sigurðssonar, formanns, bauð Sigurrós ritari samtakanna þau velkominn og hélt síðan stutt ávarp þar sem m.a. kom fram:

Laugardaginn 17. mars árið 1979 eða fyrir 43 árum urðu mjög merk tímamót í sögu Kópavogs er fulltrúar níu klúbba og félaga í Kópavogi komu saman til stofnfundar samtaka, sem síðar hlutu nafnið Sunnuhlíðarsamtökin, um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í bænum. Mikið undirbúningstarf hafði verið unnið áður en til þessa tímamótafundar kom en sú vinna hófst í raun á fyrstu mánuðum ársins 1978. Stofnfundurinn var haldinn á heimili Elsu Vilmundardóttur, formanns samstarfsnefndar og Soroptimistaklúbbs Kópavogs. Á fundinum lá Skipulagsskrá Sunnuhlíðarsamtakanna frammi og hafði hún verið kynnt öllum aðildarfélögum og klúbbum. Eftir umræður og afgreiðslu skipulagsskrár Sunnuhlíðarsamtakanna var kosin fyrsta stjórn samtakanna. Ásgeir Jóhannsson, frá Rauðakrossdeildinni, var kosinn formaður, Hildur Hálfdánardóttir, Soroptimistaklúbbi Kópavogs ritari og Sofía Eygló Jónsdóttir Kvenfélagi Kópavogs gjaldkeri. Í varastjórn var Páll Bjarnason, Rótarýklúbbi Kópavogs og Guðsteinn Þengilsson frá Lionsklúbbi Kópavogs.

Þessi fyrsta stjórn Sunnuhlíðarsamtakann sem stóðu að baki uppbyggingu Hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar lyfti grettistaki í öldrunarmálum í Kópavogi. Þau stóðu fyrir fjársöfnun m.a. með því að dreifa söfnunarbaukum í öll hús í bænum, héldu styrktartónleika og gerðu margt fleira til að afla fjár.
Fyrsta skóflustungan af hjúkrunarheimilinu var síðan tekin í janúar 1980 og aðeins tveimur árum síðar, í maí 1982, var hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð tekið í notkun. Nú eru því 40 ár liðin frá opnun Sunnuhlíðar.

En þessir frumkvöðlar lögðu ekki árar í bát þegar hjúkrunarheimilið var risið heldur gengu í það stórvirki að láta byggja þjónustuíbúðir með 40 íbúðum fyrir eldri borgara fyrir sunnan hjúkrunarheimilið. Fyrsta skóflustungan var tekin 1986 að Kópavogsbraut 1A og er tengibygging milli þess og hjúkrunarheimilisins.

Árið 1991 var lokið við byggingu annars húss aðeins austar við Kópavogsbraut 1B, einnig með 40 íbúðum.

Um svipað leyti voru þjónustuíbúðir Sunnuhlíðarsamtakanna að Fannborg 8 tilbúnar. Sunnuhlíðarsamtökin hafa því látið byggja 109 íbúðir fyrir aldraða í Kópavogi.
Hér hefur verið sagt í örfáum orðum frá upphafi að byggingu hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar og í kjölfarið íbúðarbyggingum Sunnuhlíðarsamtakanna. Þetta gríðarlega mikla framtak til öldrunarmála í Kópavogi sem þessir forverar okkar í fulltrúaráði Sunnuhlíðarsamtakann og stjórn samtakanna unnu verður seint þakkað. Vissulega nutu þau mikils stuðnings frá aðildarfélögunum, klúbbunum og ekki skal gleyma öllum almenningi í Kópavogi sem lagði svo sannarlega sitt af mörkum til að þessi draumur yrði að veruleika.

Ef fólk hefur áhuga á að kynna sér sögu Sunnuhlíðar hvet ég ykkur til að lesa bók Ásgeirs Jóhannessonar um Sunnuhlíð því hún lýsir vel þessari baráttu og dugnaði þessa fólks.
Að lokum þakkað Sigurrós, f.h. fulltrúaráðsins og stjórnar Sunnuhlíðarsamtakanna, að alhug alla þá miklu og góðu vinnu við að láta þennan stóra draum Kópavogsbúa verða að veruleika og með þessari viðurkenningu viljum við lýsa þakklæti okkar til þín fyrir þinn mikla dugnað og áræðni.

Þegar Sigurrós afhenti Ásgeir viðurkenninguna, í fjarveru formanns, stóðu fulltrúar upp og röðuðu sér upp á bak við Ásgeir.

Ásgeir stóð síðan upp og hélt þakkarræðu. Hann sagði að hann meti það mjög mikils að fá þessa viðurkenningu. Hann fór síðan yfir sögu íbúðabygginganna og sagði ýmsar sögur af fyrstu íbúum. Hann bað fyrir sérstakar og góða kveðjur til Gunnsteins formanns. Síðan var boðið upp á kaffi og meðlæti.

Myndin er tekin þegar Ásgeir fékk afhent viðurkenningarskjalið. Efri röð frá vinstri. Kristján Gíslason, gjaldkeri, frá Rótarýkl. Borgir; Pétur Eysteinsson, meðstjórnandi, Lionskl. Kóp.; Anna Stefánsdóttir, meðstjórnandi Rauði Krossinn í Kópavogi. Neðri röð frá vinstri: Guðrún Pálsdóttir, Soroptimistakl.; Sigurrós Þorgrímsdóttir, ritari Samtakanna, Soroptimistakl.; heiðursfélaginn Ásgeir Jóhannesson; Helgi Magnússon Lionskl. Muninn;  Gunnar Sigurjónsson, Lionskl. Muninn; Ómar Þorsteinsson, Lionskl. Kóp.; Eiríkur Líndal, Rótaýkl. Kóp.
Á myndina vantar Gunnstein Sigurðsson formann Sunnuhlíðarsamtakanna sem var forfallaður vegna Covid.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar