Tónleikaferð í Svartaskóg

Skólahljómsveit Kópavogs er nýkomin til landsins úr glæsilegri tónleikaferð í Svartaskóg í Þýskalandi. Þetta var enginn smá hljómsveit sem ferðaðist saman því 70 hljóðfæraleikarar á aldrinum 13 – 19 ára eru í hópnum sem naut einstakrar veðurblíðu og mikillar gestrisni heimamanna í átta daga ferð í byrjun júní.

Upphaflega stóð til að fara þessa ferð fyrir ári síðan, en vegna covid varð að fresta ferðinni og ekki laust við að það hafi byggt upp enn meiri tilhlökkun hljóðfæraleikaranna. En hvers vegna Svartiskógur? „Við fengum heimsókn frá ungmennahljómsveit frá Svartaskógi fyrir nokkrum árum síðan og nú var kærkomið tækifæri til að heimsækja þau til baka, spila tónlistina okkar fyrir tónleikagesti og njóta lífsins“ segir Össur Geirsson, stjórnandi SK. Til stóð að spila á fimm tónleikum í ferðinni en svo óheppilega vildi til að kórónaveiran smitaði stóran hluta þýsku hljómsveitarinnar svo aflýsa þurfti sameiginlegum tónleikum sem búið var að skipuleggja. Að öðru leyti gekk skipulagið allt upp og voru haldnir tónleikar í þremur bæjum í Þýskalandi, Schluchsee, Freiburg og Bad Säckingen auk tónleika í Basel í Sviss. Efnisskrá tónleikanna var afar fjölbreytt og var boðið upp á íslenska tónlist, klassísk verk, dægurlög og jazzmúsík og síðast en ekki síst einleiksverk þar sem hljóðfæraleikarar úr hópnum fengu að láta ljós sitt skína. Móttökur tónleikagesta voru líka framar öllum vonum og fékk unga fólkið mikið hrós fyrir góðan hljóðfæraleik og faglega sviðsframkomu. Dagskráin var þétt allan tímann því á milli tónleika var tíminn nýttur til upplifunar af ýmsu tagi eins og fjallgöngu og útigrill,  adrenalíngarð, hljóðfærasafn og kayak-róður.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar