Sumarid byrjar međ frambođi 

Með grænkandi gróðri og sólríkum dögum fyllist maður af bjartsýni. Við erum að komast úr kófinu svokallaða og við finnum á skinninu hversu mikið við iðum eftir því að fá að hittast í persónu en ekki rafrænt og knúsa fólkið okkar grímulaust.

Það hafa verið tekin mikilvæg skref í þessu ástandi til þess að draga, eins og kostur er, úr atvinnuleysi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar urðu til þess að dregið var úr gjaldþrotaáhættu fyrirtækja og færri misstu vinnuna þökk sé hlutabótaleiðinni. Núna er enn gefið í og fyrirtækjum, hinu opinbera og félagasamtökum býðst núna að ráða til sín einstaklinga af atvinnuleysisskrá og fá á móti 100% grunnatvinnuleysisbætur auk 11.5% framlags í lífeyrissjóð í að allt að sex mánuði. Það er mikilvægt að sveitafélög taki þátt í þessu verkefni og komi þannig til móts við að létta á atvinnuleysi og um leið örva einstaklinga til atvinnuþátttöku. Kópavogur mun bjóða öllum ungmennum störf í sumar líkt og árin á undan.

Einnig má benda á mikilvægt verkefni á vegum Velferðarráðuneytis um að styrkja sveitafélög til að efla félagsstarf eldri borgara. Kópavogur tók þátt í slíku verkefni síðasta sumar og þótti það lukkast einkar vel. Ráðnir voru sumarstarfsmenn sem fengu það verkefni að hvetja eldri borgara til félagslegrar virkni og lauk verkefninu með mikilli gleðisprengju í Guðmundarlundi. Það er von mín að þetta verkefni verði endurtekið í ár.

Undanfarið ár hefur verið furðulegt á svo marga vegu en ég er sannfærð um að vegna fjölmargra aðgerða ríkisstjórnarinnar mun viðspyrna samfélagsins okkar verða öflug. Ýmis gagnrýni á hitt og þetta hefur vissulega komið fram og það er stundum eins og það sé þjóðaríþrótt okkar að vera úrill og skiptast í tvær fylkingar í ýmsum málum. En um eitt getum við verið sammála, þetta er alveg að verða búið og öll sem eitt höfum við staðið okkur vel. Sumarið verður gott, og hef ég tekið ákvörðun um að byrja það með hvelli og bjóða mig fram í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Kraganum 10. til 12. júni n.k. Ég óska eftir stuðningi í þriðja sætið.

Karen Elísabet Halldórsdóttir
Höfundur er bæjarfulltrùi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar