Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs sl. þriðjudag voru lagðir fram og samþykktir úthlutunarskilmálar vegna úthlutunar á lóðum í 1. áfanga Vatnsendahvarfs, alls sex fjölbýlishúsalóðir með 184 íbúðum. Minnihlutinn var á móti samþykktinni og gagnrýndi á fundinum að Kópavogsbær standi ekki við skuldbindingar sínar í húsnæðismálum í fyrirhugaðri lóðaúthlutun eins og kemur fram í viðtali við Sigurbjörg Erlu hér á vefsíðunni fyrr í dag.
Fyrstu lóðirnar byggingahæfar í lok árs
Lóðum verður úthlutað í áföngum og verður 1. áfanga úthlutað í apríl. Gatnagerð hefst á fullum krafti í sumar og verður fyrsti áfangi byggingarhæfur í lok árs, þá geta framkvæmdir hafist. Stefnt er að hverfið verði fullbyggt í lok árs 2028. Undirbúningur fyrir leik- og grunnskóla er hafinn og stefnt að því að hann verði tilbúinn haustið 2027.
Eins og áður segir er um að ræða fyrstu úthlutun af nokkrum í Vatnsendahverfi en í skipulagi hverfisins er gert ráð fyrir fjölbreyttu framboði af húsnæði auk leik- og grunnskóla.
Fjölbreyttur húsnæðiskostur til að mæta þörfum ólíkra hópa
,,Við erum í þessari úthlutun að bjóða uppá fjölbreytta húsnæðiskosti til að mæta þörfum ólíkra hópa, gert er ráð fyrir fjölbýli, par- og raðhúsum ásamt einbýli og búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Þá er gert ráð fyrir forkaupsrétti Kópavogsbæjar á félagslegu húsnæði í hverfinu sem er í samræmi við stefnu Kópavogsbæjar og markmið aðalskipulags um félagslega blöndun. Við trúum því að skipulagsskilmálar bjóði upp á að ólíkir þjóðfélagshópar eigi kost á að eignast húsnæði í hverfinu þar með talið fyrstu kaupendur og þeir sem sem falla undir skilmála hlutdeildarlána,” segir Ásdís.
Minnihlutinn vill niðurgreiða 35% af nýjum lóðum
,,Það er hins vegar vilji minnihlutans, Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar og Vina Kópavogs, að ríflega 35% af nýjum lóðum verði niðurgreiddar,” segir Ásdís og heldur áfram: ,,Við í meirihlutanum höfum ekki trú á þessari stefnu minnihlutans fyrir því eru einkum tvær ástæður. Í fyrsta lagi leggjum við ríka áherslu á að sem flestir geti eig-nast eigið húsnæði og það er að okkar mati best gert með því að auka framboð og stuðla að hraðri og hagkvæmri uppbyggingu. Í öðru lagi er ljóst að stefna minnihlutans að niðurgreiða lóðir með slíkri úthlutun eins og þau leggja til hefði verulega neikvæð á fjárhag bæjarins sem þyrfti að mæta með niðurskurði á þjónustu bæjarins eða skattahækkunum. Okkar hlutverk er að standa vörð um hagsmuni bæjarins þegar verið er að úthluta takmörkuðum auðlindum og hámarka það verð sem við fáum fyrir lóðirnar. Þær tekjur skila sér til bæjarsjóðs og nýtast þannig öllum Kópavogsbúum hvort sem er í formi bættrar þjónustu eða lægri skatta,” segir Ásdís.
500 íbúða byggð í Vatnsendahvarfi
Um 500 íbúða byggð verður í Vatnsendahvarfi, bæði sérbýli og fjölbýli. Aðkoman í hverfið er um Kambsveg en íbúðirnar standa við tólf götur sem þegar hafa fengið götuheiti sem eru: Hallahvarf, Háahvarf, Heiðarhvarf, Hlíðarhvarf, Hæðarhvarf, Roðahvarf, Skólahvarf, Skírnishvarf, Skyggnishvarf, Skýjahvarf, Sólarhvarf og Stöðvarhvarf.