Páskagleðin vaknar þegar maður áttir sig á að lífið er ekki keppni í heppni

Páskahátíðin er á næsta leyti og eins og ávallt þá verður mikið um dýrðir í Garðasókn. Garðapósturinn spurði sr. Jónu Hrönn Bolladóttir, um helgihaldið í dymbilviku og yfir páskahátíðina og hvernig hún upplifi þessa stóru hátíð.

Hvernig er helgihaldið í dymbilviku og yfir páskana í Garðasókn? ,,Helgihaldið er alltaf alveg einstakt á þessum tíma vegna hinnar þjáningarfullu píslargöngu Krists og svo hin skæra gleði yfir sigri lífsins á páskadagsmorgni. Við leyfum helgihaldinu að ilma af þessari mögnuðu sögu. Á Skírdagskvöld er messa þar sem við göngum til altaris og minnumst síðustu kvöldmáltíðarinnar og afskrýðum altarið, setjum svart klæði með fimm rauðum rósum sem tákna sárin fimm á líkama Jesú og myrkvum kirkjurýmið og göngum út í þögn. Nú hefur þetta svo sterka skírskotun vegna þjáningarinnar í Palestínu og hreyfir svo sterkt við mér. Jesús frá Palestínu sem lifði í herteknu landi og var tekin af lífi á krossinum og lifði hræðilegar þjáningar. Ég veit líka að það verður magnað að hlusta á Sigurð Skúlason leikara lesa úr Passíusálmunum á föstudaginn langa í Garðakirkju. Svo er tilhlökkun að vakna klukkan sex á páskadagsmorgni og vera komin fyrir altarið í Vídalínskirkju klukkan átta og kór kirkjunnar syngur ,,Sigurhátíð sæl og blíð“. Þá fyllist hjarta mitt alltaf af þakklæti,” segir Jóna Hrönn.

Hvaða þýðingu hafa páskarnir fyrir Jónu Hrönn? ,,Ég elska Jesú og söguna af undrinu sem verður þegar vald ástarinnar afvopnar ástina á valdinu. Sú saga gefur innri ró og öryggi og vekur djúpa gleði. Páskagleðin vaknar þegar maður fattar að lífið er ekki keppni í heppni. Sagan af Jesú og sigri hans er ekki það sem kallað er gagn- reynd þekking heldur guðsþekking. Trúin er reynslan af mætti lífsins í veruleikanum, hvernig ljós himnanna mætir fólki í erfileikum, þjáningu, vonleysi og missi. Þetta blasir við mér í daglegu lífi, ekki síst í gegnum sálgæsluna. Ég á þá trú í hjarta mínu að Guð leiði okkur í gegnum dánarheiminn og inn í sitt eilífa ljós. Þannig bið ég fyrir öllum sem ég jarða og vonin býr svo sterkt í fyrirheiti Jesú sem sagði: ,,Ég lifi og þér munuð lifa.”

Fer upp á svið og reynir að gera allt til að vekja páskahlátur með gamansögum

En hvernig er svo páskadagurinn hjá Jónu Hrönn? ,,Ég er sem sagt að messa snemma á páskadagsmorgni og svo fer ég yfir í safnaðarheimili á eftir og drekk súkkulaði með rjóma sem Þórunn Birna Björgvinsdóttir vinkona mín og samstarfsmaður reiðir fram handa öllum kirkjugestum. Þar fer ég upp á svið og geri allt til að vekja páskahlátur með gamansögum. Síðanfer ég heim og þá kemur mitt fólk í morgunverð og páskaeggjaleit. Það er alltaf gríðarleg stemning og mikil gleði.”

Eins og þú nefnir að þá er nóg um að vera í Garðasókn yfir páskahátíðina, er þetta bara vinna fyrir þig út í gegn eða nærðu að njóta og slaka á með fjölskyldunni? ,,Þetta er mikil og gefandi vinna og ekki bara vinna heldur gefandi samvera með fólkinu mínu, söfnuðinum. Þetta er samleið sem er alveg sérstaklega inni- haldsrík á þessari stórhátíð kristinna manna um allan heim. Það er þannig með mig þegar ég mæti í helgihaldið þá er ég ekki í vinnunni heldur þátttakandi í samfélagi sem byggir upp og nærir. En í aðdraganda helgihaldsins er oft mikil vinna með samstarfsfólki mínu. Við Jóhann Baldvinsson organisti höfum þá sýn að hver guðs- þjónusta og athöfn í kirkjunni okkar sé listaverk og þannig nálgumst við þjónustuna. Hver athöfn er einstök og á að ilma af því. Þess vegna erum við alltaf í skapandi vinnu. Sem eru forréttindi í mínum huga. Með góðu skipulagi er hægt að vera bæði í þjónustunni og eiga góðar stundir í leik og gleði t.d. með barnabörnunum mínum sem gefa mér endalaust af birtu og orku.”

Og ert þú svo mætt í eldhúsið eftir messu á páskadag til að matreiða fyrir kvöldið? ,,Ég er yfirleitt með brunch fyrir allt mitt fólk ef þau eru heima og svo er það auðvitað páskalambið um kvöldið.”

Við brjótum páskaeggið með það í huga að eins og örþunnt skurnið skilur ungann frá birtu himinsins þannig erum við umvafin eilífðinni þótt við ekki sjáum hana

En hvað með páskaegg, færðu þér alltaf eitt og áttu þér uppáhalds páskaegg? ,,Nói Sírus er alltaf hættulega gott og ég auðvitað kaupi töluvert af páskaeggjum af því að ég er með spennandi páskaeggjaleit á páskadag fyrir börnin í fjölskyldunni sem við setjum upp með vísbendingum og þrautum. Málshættirnir eru skemmtileg hefð. Við brjótum páskaeggið með það í huga að eins og örþunnt skurnið skilur ungann frá birtu himinsins þannig erum við umvafin eilífðinni þótt við ekki sjáum hana.”

Elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleik

Ertu með einhvern fallega málshátt eða boðskap sem ætti að vera í öllum páskaeggjum? ,,Ég dró þetta Biblíuorð í tilefni af þessari spurningu og fékk þetta vers úr úr fyrra Jóhannesarbréfi: ,,Elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika,“ segir Jóna Hrönn að lokum og óskar í leiðinni öllum gleðilega páska.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar