Starfsfólk sem upplifir eða verður vitni að einelti eða annarri óæskilegri hegðun hvatt til að tilkynna slíkt

Á siðasta fundi bæjarráðs Kópavogs lagði mannauðsstjóri Kópavogs til samþykktar endurskoðaða stefnu Kópavogsbæjar gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum auk þess sem lagðar voru fram til upplýsinga vinnulýsing og verklagsreglur.

Í stefnunni kemur m.a. fram að Kópavogsbær líði undir engum kringumstæðum einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða annað ofbeldi, hvorki á vinnustöðum sínum né undir formerkjum bæjarins á annan hátt.
Kópavogsbær setur fram í stefnu þessari forvarnar- og viðbragðsáætlun sem felur í sér nauðsynlegar aðgerðir sem grípa skal til ef fram kemur tilkynning um einelti, áreitni eða annað ofbeldi á vinnustað. Stefnunni fylgja auk þess verkferlar.

Gildir um allt starfsfólk Kópavogsbæjar á öllum vinnustöðum sveitarfélagsins

Stefna þessi gildir um allt starfsfólk Kópavogsbæjar á öllum vinnustöðum sveitarfélagsins. Með vinnustað er átt við umhverfi innan- eða utanhúss þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna sbr. 41. gr.- laga nr. 46/1980. Jafnframt gildir hún um öll vinnutengd störf svo sem á ráðstefnum, námskeiðum, ferðalögum og öðrum félagslegum samkomum sem tengjast starfi eða vinnustað.

Meta þarf hvert tilvik fyrir sig

Starfsfólk sem með framkomu sinni, orðum, viðmóti eða atferli beitir samstarfsfélaga sína eða þjónustuþega sveitarfélagsins ofbeldi, hvort sem um er að ræða einstakt tilvik eða ítrekað, telst brjóta grundvallarreglur samskipta. Meta þarf hvert tilvik fyrir sig og gæta þess að aðstæður séu skoðaðar á nákvæman og hlutlausan hátt á grundvelli fyrirliggjandi staðreynda og upplýsinga. Gripið verður til viðeigandi aðgerða ef þörf er á, sem geta falið í sér áminningu, tilfærslu í starfi eða eftir atvikum brottvikningu.
,,Með hliðsjón af tilkynningarskyldu starfsfólks skv. 9. gr. reglugerðar 1009/2015 er starfsfólk sem upplifir eða verður vitni að einelti eða annarri óæsk- ilegri hegðun hvatt til að tilkynna slíkt. Taka ber allar tilkynningar og/eða kvartanir alvarlega og bregðast við þeim á faglegan hátt,” segir í stefnunni og er allt starfsfólk Kópavogsbæjar hvatt til að leggja sitt af mörkum til að stuðla að góðum samskiptum, starfsánægju og öruggu starfsumhverfi. Stjórnendur og starfsfólk bera sameiginlega ábyrgð á samskiptum og því að stuðla að góðri vinnustaðamenningu.

Starfsfólki skal tryggt aðgengi að stefnu og verklagi

,,Mikilvægt er að stefnan sé kynnt starfsfólki sveitarfélagsins reglulega, hvetja skal til opinskárra umræðna á öllum starfsstöðum sveitarfélagsins og veita almenna fræðslu um eineltismál. Starfsfólki skal tryggt aðgengi að stefnu og verklagi. Það er ábyrgð Kópavogsbæjar að tryggja að starfsfólk fái leiðbeiningar og aðstoð á tungumáli sem það skilur,” segir í stefnunni en það er mannauðsstjóri Kópavogsbæjar sem er í forsvari fyrir eineltisteymi bæjarins og sér um að stefnan sé uppfærð reglulega og boðið sé upp á fræðslu og þjálfun fyrir stjórnendur og eineltisteymi um einelti/ofbeldi/kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Mannauðsstjóri, mannauðsráðgjafar sviða og eineltisteymi bera sameiginlega ábyrgð á innleiðingu stefnunnar á hverju fagsviði fyrir sig.

Meginmarkmið stefnunnar

Meginmarkmið stefnu Kópavogsbæjar gegn einelti, áreitni og ofbeldi eru eftir-farandi:

• Að starfsfólk upplifi að starfsumhverfi Kópavogsbæjar sé heilbrigt og sálfélagslega öruggt.
• Að stuðla að fræðslu, forvörnum og vitundarvakningu um stefnu og verkferla Kópavogsbæjar í eineltis-, ofbeldis og áreitnimálum með markvissri upplýsingamiðlun og fræðslu til starfsfólks og stjórnenda.
• Að viðbrögð við kvörtunum og tilkynningum sem berast og könnun mála sé hröð og skilmerkileg líkt og verklag kveður á um.
• Að ávallt sé unnið eftir samræmdum verkferlum um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi, óháð sviðum og stofnunum.

Bæjarráð samþykktir í lok fundar með fimm atkvæðum að vísa stefnu Kópavogsbæjar gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar