Smáralind hefur í samstarfi við Akademias sett Smáralindarskólann á laggir; fræðslu- og þjálfunarprógramm fyrir rekstraraðila, stjórnendur og starfsfólk Smáralindar. Með skólanum er ætlunin að efla símenntun, fræðslu og þjálfun starfsfólks í verslunar- og þjónustustörfum og auka gæði þjónustu, veltu og starfsánægju starfsfólks fyrirtækja í Smáralind. Fyrsti skóladagur Smáralindarskólans verður 17. september.
„Markmiðið með framtakinu er að auka þekkingu meðal starfsfólks rekstraraðila okkar og einnig gæði í þjónustuveitingu og upplifun viðskiptavina,“ segir Tinna Jóhannsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar. „Að okkur sækja erlendar vefverslanir og breytt rekstrarumhverfi og okkar samskeppnisforskot til framtíðar skapast einna helst með aukinni þjónustu, bættri upplifun viðskiptavina í verslunum og hæfu starfsfólki í geiranum. Við viljum því leggja okkar að mörkum til að auka vægi þessara mikilvægu þátta,“ útskýrir Tinna.
Námsefni Smáralindarskólans var þróað í samstarfi við Akademias. Boðið verður upp á 11 mismunandi námskeið sem verða bæði kennd staðbundið og á rafrænan hátt á næstu 12 mánuðum. Allir starfsmenn verslana Smáralindar fá aðgang að námsefninu. Að sögn Tinnu er samstarfið við sérfræðinga Akademias mikilvægt Smáralind og skynja aðstandendur verkefnisins góðar væntingar og áhuga á skólanum og námsefninu meðal starfsmanna og rekstraraðila í verslanamiðstöðinni.