Bilið á milli almannatrygginga öryrkja og lægstu launa á vinnumarkaði hefur breikkað jafnt og þétt á liðnum árum og er nú um 85 þús. kr. Það hefur gerst þrátt fyrir mikinn uppgang í efnahagslífinu fram að COVID-kreppunni. Samfylkingin setur í forgang að bæta kjör öryrkja og að minnka þetta bil á næsta kjörtímabili. Við leggjum til að fyrsta skrefið verði að hækka grunngreiðslur almannatrygginga til samræmis við krónutöluhækkun lífskjarasamninganna og stöðva þannig kjaragliðnunina. Þess verður gætt að hækkunin hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur.
Samfylkingin leggur einnig til að frítekjumark vegna atvinnutekna hækki úr tæpum 110 þús. kr. á mánuði í 200 þús. kr. en frítekjumarkið hefur staðið í stað frá árinu 2010. Hækkunin bætir hag þeirra sem hafa tök á því að starfa á vinnumarkaði. Ekki er síður mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir bjóði uppá hlutastörf með nægum sveigjanleika fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þar þurfa ríkið og sveitarfélögin að ganga á undan með góðu fordæmi.
Heildarsamtök launafólks á vinnumarkaði ASÍ, BSRB, BHM og KÍ undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um bætt lífskjör öryrkja með ÖBÍ árið 2019. Það gefur kröfum Öryrkjabandalagsins aukið vægi að heildarsamtök launafólks standi með þeim í baráttunni. Samfylkingin stendur einnig með ÖBÍ í baráttunni fyrir bættum lífskjörum öryrkja. Það er dýru verði keypt, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur samfélagið allt, að svipta fólk virðingu og getu til athafna.
Lögfesta þarf Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun sem m.a. fylgir eftir framkvæmd samningsins. Öryrkjar eru ekki einsleitur hópur og brýnt er að þjónusta hins opinbera lagi sig að þörfum einstaklinganna til sjálfstæðs lífs. Það þýðir m.a. að jafnt og þétt þarf að fjölga samningum um notendastýrða persónulega þjónustu.
Samfylkingin vill taka markviss skref til að bæta lífskjör öryrkja strax í upphafi nýs kjörtímabils. Við ætlum að ganga fram af hugrekki og mannúð svo að öll að geti notið hæfileika sinna án tillits til fötlunar eða starfsgetu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir skipa 1. og 3. sæti framboðslista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi