Skyggnigáfan reyndist drengnum þung í skauti

Komin er út skáldsagan Glaðlega leikur skugginn í sólskininu, eftir umhverfishagfræðinginn, garðyrkju-meistarann og Kópavogsbúann Stein Kárason.

Steinn vann um skeið að gæðamálum á stjórnsýslusviði Kópavogsbæjar. Hann skaut rótum á Digranesinu fyrir tæpum áratug og unir þar hag sínum afar vel.

Sagan er örlagasaga sem tekur mið af tíðarandanum á árunum 1962-1964 sem voru umbrotatímar á margan hátt.

Sagan fjallar um Glóa, ungan dreng sem vex upp í sjávarþorpi við fjörð sem fóstrar blómlegar sveitir. Nánd við sjó og sjómenn, bændur og búalið, mynda bakgrunn sögunnar en leiksviðið er þorpið, gömul hús, fjaran, bryggjurnar og sveitin.

Strákar leika sér og rækja skyldur sínar í heimi fullorðinna. Drengurinn hænir að sér dúfur. Hann forðar kettlingi frá dauða og verða með þeim miklir kærleikar sem setja sterkan svip á frásögnina.

Drengurinn sér eitt og annað sem aðrir skynja ekki og það reynist honum þungt í skauti. Ógeðfelldir atburðir gerast, ýmis viðkvæm atvik í lífi fólksins.

Mannlegur breyskleiki birtist í ýmsum myndum. Sannleikurinn þolir ekki dagsljósið. Hversu mikils virði eru þá háleit markmið og reisn mannsandans?

Sagan gerist í skugga kalda stríðsins. Rússagrýlan og Kúbudeilan eru í hámarki og í fyrsta sinn í sögunni stendur mannkynið frammi fyrir tortímingu heimsins vegna kjarnorkusprengju.

Hlýr blær og glettni ríkja í sögunni þrátt fyrir skuggalegt baksvið.

Steinn Kárason er mörgum kunnur fyrir bækur sínar Garðverkin og Trjáklippingar. Einnig fyrir tónlist og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp. Hann kenndi umhverfis- og auðlindafræði við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Bifröst.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar