Hækkun á fasteignamati þýðir að óbreyttu hækkun fasteignagjalda fyrir eigendur íbúða- og atvinnuhúsnæðis. Í Kópavogi hefur verið rekin sú stefna að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda með það að sjónarmiði að sporna við þessari þróun. Viðmiðið hefur verið að tekjur bæjarins af fasteignagjöldum hækki að meðaltali í samræmi við aðrar hækkanir í samfélaginu þ.e. neysluverðsvísitölu.
Frá árinu 2013 höfum við lækkað álagningarhlutfallið ár hvert og stefnum að því að svo verði áfram
„Raunin er sú að frá árinu 2013 höfum við í Kópavogi lækkað álagningarhlutfallið ár hvert og stefnum að því að svo verði áfram við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Jafnframt hefur vatnsgjald og fráveitugjald verið lækkað með markvissum hætti en þau gjöld koma líka til lækkunar á atvinnuhúsnæði. Þessi stefna kemur eigendum fasteigna til góða og er án efa ein ástæða þess að bærinn er eftirsóttur til búsetu og atvinnustarfsemi,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Vitum að það kemur íbúum best
Nýverið var kynnt fasteignamat ársins 2022 og er um verulega hækkun að ræða. „Það er hagsmunamál að lækka álagningu á móti hækkun á fasteignamati, við vitum að það kemur íbúum best, hvort sem þeir eru fasteignaeigendur eða ekki þar sem hækkun fasteignagjalda getur skilað sér í hærri leigu eins og bent hefur verið á undanfarið,“ segir Ármann og bætir við að það sé stefna bæjaryfirvalda í Kópavogi að rekstur sveitarfélagsins standi undir sér en skattar og gjöld séu hófleg.