Garðabær hefur sett stefnuna á að bjóða út parhúsalóðir í Krumlamýri á Álftanesi í sumar. Gatnagerð er þegar komin af stað og hyggst Garðabær setja lágmarksverð á lóðirnar, sem eru hugsaðar fyrst og fremst til einstaklinga en ekki fyrirtækja.
Lóðirnar auglýstar til sölu í sumar
,,Það stendur til að bjóða út lóðir með allt að 28 parhúsum í svokallaðri Kumlamýri á Álftanesi, rétt vestan og sunnan við hringtorgið hjá Bessastöðum,“ segir Sigurður Guðmundsson formaður skipulagsnefndar Garðabæjar aðspurður um lóðirnar í Krumlamýri. ,,Við stefnum á að auglýsa þetta núna í sumar en gatnagerð er þegar hafin tengd þessari uppbyggingu. Þá eru allt að 12 parhús til viðbótar á svæðinu samkvæmt skipulagi en þær lóðir eru í einkaeigu og er á hendi viðkomandi að ákveða hvernig eða hvort hann selur þær lóðir.”
Hæstbjóðandi mun fá lóðirnar
Hvernig er fyrirkomulagið varðandi úthlutun á lóðunum; verður ákveðið verð sett á þær eða ætlar Garðabær að óska eftir tilboðum? ,,Garðabær mun setja lágmarksverð á lóðirnar, en ef einhver vill borga hærra en uppsett lágmarksverð þá mun sá er hæst býður fá viðkomandi lóð. Ef tveir eða fleiri bjóða sama verð að þá verður dregið á milli þeirra. Við munum í byrjun bjóða þessar lóðir út til einstaklinga, en ekki lögaðila, og við teljum líklegra en ekki að ef tveir bjóða saman í parhúsalóð þá séu þeir líklegri að fá lóðina en ef að tveir aðskildir einstaklingar bjóða sama verð í sömu parhúsarlóðina. Þessar reglur eru þó enn í mótun og munu koma til samþykktar í bæjarráði áður en þær verða auglýstar.“
Garðbæingar ganga ekki fyrir
Ganga Garðbæingar fyrir er kemur að úthlutun á lóðunum eða eiga allir landsmenn jafna möguleika? ,,Það er víst óheimilt samkvæmt úrskurðum umboðsmanns Alþingis að mismuna landsmönnum og eftir atvikum aðilum á evrópska efnahagssvæðinu eftir búsetu og því er ekki lengur hægt að notast við úthlutunarreglur á lóðum sem voru við líði hér áður fyrr.“
Hægt að hefja framkvæmdir um áramótin
Gatnegerðin er farin af stað en hvenær geta lóðarhafar hafið framkvæmdir? ,,Við búumst við að þeir sem fá lóðir geti hafið framkvæmdir um áramótin.“
Framundan er uppbygging í Hnoðraholti og Vetrarmýri
Og þetta eru fyrstu lóðirnar sem Garðabær úthlutar frá því að lóðir voru boðnar út í Hraunsholti eystra (Fitjar og Hólar) og Garðahrauni (Prýði) árið 2006 ekki satt? ,,Þetta eru fyrstu lóðirnar sem koma í þessu magni inn á markaðinn sem Garðabær sem landeigandi er að úthluta. En framundan er mikil uppbygging í Hnoðraholti og í Vetrarmýri og þar á Garða-bær meginþorra allra lóða. Vonandi verður hægt að úthluta lóðum þar strax á næsta ári. Í Hnoðraholti verður mikið um sérbýli, einbýlishús og raðhús en einnig fjölbýlishús í háum gæðaflokki. Í Vetrarmýri verða fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði með verslun og þjónustu,“ segir Sigurður.