Takk Denni

Það er erfitt að koma orðum að því hvað Denni er fyrir okkur fulltrúum foreldra barna á Álftanesi. Eitt sinn sagði hann sjálfur í viðtali að hann væri lás á keðju og við hin værum keðjan. Á forsíðumyndinni er Denni með Kötlu og Jökli Ívari sem afhentu honum þakklætisskjöld frá krökkunum á Álftanesi og þakklætisgjöf fyrir hönd foreldra er hann lét af störfum.

Hann er skjól fyrir börnin þegar þau þurfa á því að halda og skjöldur þegar svo ber við

Með virðingu og kærleika gagnvart hverju einasta barni hefur hann stutt þau sín fyrstu skref og fylgt þeim töluvert lengur en yfir gangbraut. Hann er skjól fyrir þau þegar þau þurfa á því að halda og skjöldur þegar svo ber við.

Denni hefur staðið undir því trausti sem samfélagið hefur sett á hann og mætt á sína vakt í öllum veðrum og vindum. Þá hefur hann ekki látið þar við sitja og tekið að sér að skóla þá foreldra til sem ekki sína virðingu, enda eru það börnin sem mæta forgangi í virðingarstiga Denna. 

Denni með þakklátum foreldrum og skólastjóra Álftanesskóla. F.v. Guðrún, Steinunn, Denni, Erna skólastjóri Álftanesskóla og Elín

Denni hefur haft áhrif á ótal kynslóðir fyrir lífstíð

Ótal kynslóðir hafa notið stuðnings hans í gegnum tíðina og með sínum gjörðum hefur hann haft áhrif á þau fyrir lífstíð. Denni hægir á okkur öllum og það er einmitt og nákvæmlega það sem við sem samfélag höfum þurft á að halda.

Blendnar tilfinningar

Þær eru blendnar tilfinningarnar yfir því að hann standi nú ekki lengur vörð um börnin okkar á leið sinni til skóla, en á sama tíma erum við uppfull af þakklæti yfir öllu því sem hann hefur gert fyrir börnin og samfélagið í heild. Denni segist sjálfur nú vonast til þess að hann hafi gert lásinn nógu sterkan til þess að hann haldi. Annars ætlar hann nú að ræða aðeins við okkur á förnum vegi ef honum finnst að betur mætti fara sem verður svo sannarleg kærkomið.

Góðsemdin er börnunum efst í huga

Þegar börnin eru spurð um það hvað einkenni Denna þá er þeim efst í huga góðsemdin:

• Góð manneskja sem hjálpar fólki og passar að enginn lendi í bílslysi (Jökull Ívar 10 ára)
• Flottur og góður (Axel Kári 8 ára)
• Hjálpar okkur, svo það er ekki keyrt á okkur (Sturla Már 8 ára)
• Hann er góður og hann er að hætta  (Steinar Már 8 ára)
• Leiður að hann sé að hætta og hann er góður að hjálpa og vernda börnin ( Alexander Veigar 7 ára)
• Hann er góður að hjálpa mér  (Dagur Steinn 5 ára)
• Hann er skemmtilegur fyndinn og æðislegur (Eldey Fönn 10 ára)
• Hann er góður og blíður (Gabríella 11 ára)
• Hann er góður og skemmtilegur (Dagbjört Sól 11 ára)
• Denni er besti gangavörður í heimi (Hafdís 10 ára)

Hefur nestað foreldrana af visku og kærleik

Kæri Denni, þú hefur fylgt börnunum og nestað okkur foreldrana af visku og kærleik.Nú er komið að okkur að læra af þér og hægja á. Ef við sem samfélag getum það þá ætti keðjan að duga.

Takk enn og aftur elsku Denni.

F.h. Foreldrafélaga Álftanesskóla, Holtakots og Krakkakots

Elín Jóhannsdóttir, Kristrún Dröfn Jóhannsdóttir og Herdís Sólborg Haraldsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar