Skapandi sumarstörf Molans eru hafin af fullum krafti, nú sextánda sumarið í röð. Í ár voru
29 einstaklingar, ásamt fjórum í vegglistarhóp, ráðnir til starfa sem allir eru á aldrinum 18-25 ára. Vinna þau ýmist að einstakling- og/eða hópaverkefnum. Þátttakendur í Skapandi sumarstörfum eru valdir hverju sinni út frá hugmyndum að verkefnum sem þau sjálf leggja fram og í ár eru 20 verkefni á borðum hópsins. Verkefnin, sem eru eins ólík og þau eru mörg, spanna sérstaklega breitt svið listforma; allt frá málaralist til sviðsetninga og skapandi skrifa; hlaðvarpsgerð og handverk unnið í fjölbreyttan og spennandi efnivið.
Boðið verður upp á innsýn inn í fjölbreytt sköpunarferli ungu listamannanna á samfélagsmiðlum Skapandi sumarstarfa; „skapandikop“ á Instagram og „Skapandi Sumarstörf í Kópavogi“ á Facebook. Þar verður einnig tilkynnt um hvers kyns viðburði og sýningar verða á vegum hópsins í sumar. Vert er að nefna að lokaafrakstur sumarsins verður til sýnis á árlegri uppskeruhátíð í seinni hluta júlímánaðar. Það þýðir þó ekki að almenningur neyðist til að bíða svo lengi eftir að njóta listsköpunar hópsins heldur munu listamenn Skapandi sumarstarfa gefa gestum og gangandi forskot á sæluna nú á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Ungmennin standa fyrir dagskrá sem telur sýningar, vinnustofur og aðra viðburði á hverfishátíðum Kópavogs, þar með talið á Listatúninu við Menningarhúsin í Kópavogi og við heita potta Sundlaugar Kópavogs. Óhætt þykir að segja að allir ættu að geta fundið eitthvað að sínu smekk hvort heldur sem fólk hrífist frekar að hógværum upplestri, gjörningi sem spannar heilan vinnudag, lifandi tónlistarflutningi eða stafrænni list. Nánari dagskrá yfir viðburði á 17.júní er að finna hér í Kópavogspóstinum og inni á vef Menningarhúsanna í Kópavogi.