Rúmlega níu krónur af hverjum tíu til skóla- velferðar- og æskulýðsmála í Kópavogi

Nýverið var fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2024 afgreidd í bæjarstjórn. Þar kennir ýmissa grasa enda komið víða við í rekstri bæjarfélags sem telur vel yfir 40 þúsund íbúa. Á tekjuhliðinni er áherslan á að gæta hófs í skattlagningu og seilast ekki of langt ofan í vasa skattgreiðenda sem unnið hafa hörðum höndum fyrir sínum tekjum. Það kallar um leið á að horft sé agað á gjaldahliðina og allra leiða sé leitað til að halda útgjöldum í skefjum. Í forgangsröðuninni á grunnþjónustan alltaf að vera í fyrsta sæti.

Forsendur og viðmið á góðum stað

A hluti bæjarsjóðs er sá hluti rekstrar sveitarfélagsins sem fjármagnar sig á skatttekjum á meðan B hluti aflar tekna sinna með sölu vöru eða þjónustu á markaði (t.d. veitufyrirtækin). Heildartekjur A hluta Kópavogsbæjar árið 2024 áætlaðar rúmir 52 milljarðar króna. Rekstrarniðurstaða eftir afskriftir, fjármagnskostnað og lífeyrisskuldbindingar er áætluð 221 milljón króna. Fjármunamyndun í rekstrinum er allgóð og veltufé frá rekstri A hluta áætlað 4.2 milljarðar. Gert er ráð fyrir fjárfestingu í innviðum og framkvæmdum fyrir rúma 6 milljarða króna árið 2024 og að nettó aukning langtímalána verði 1,8 milljarður. Þótt hér sé um aukningu að skulda að ræða þá er Kópavogsbær vel innan allra marka í þeim efnum hvort sem horft er til greiðslugetu, opinberra skuldaviðmiða eða heildarskulda á hvern íbúa.

Menntun, velferð og lýðheilsa taka til sín fjármagn

Þegar rekstrargjöldin eru skoðuð þá sést glögglega út á hvað rekstur bæjarfélagsins raunverulega gengur. Rúmlega 90% af rekstrargjöldum renna til þriggja málaflokka þ.e. menntamála (60%), velferðarmála (19,5%) og íþrótta- og æskulýðsmála (12%). Í raun er ekki mikið eftir til skiptanna því eftir standa því tæp 9% til samgöngumála, umhverfis- og skipulagsmála og menningarmála.

Kraftur í fjárfestingu innviða

Í jafn umfangsmiklum rekstri og hér um ræðir er fjárfestingarþörfin afar mikil, bæði til viðhalds eldri mannvirkja og nýframkvæmda. Áætlunin fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir að fjárfestingar A hluta bæjarins verði rúmir 6 milljarðar króna og þar kennir ýmissa grasa. Hér er stiklað á því allra stærsta:

  • 550 milljónir renna til framkvæmda við leikskóla. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging nýs leikskóla við Skólatröð sem tekur til sín 350 milljónir.
  • Áætlun gerir ráð fyrir rúmlega 1800 milljóna króna fjárfestingu í grunnskólunum. Þar tekur bygging Kársnesskóla til sín 1500 milljónir. Vert er að geta þess að í þeirri byggingu verður líka rekinn leikskóli.
  • Gert er ráð fyrir 1000 milljónum í fjárfestingu íþróttamannvirkja. Stærsta einstaka framkvæmd ársins 2024 verður nýr gervigrasvöllur vestan Fífunnar á íþróttasvæði Breiðabliks sem áætlað er að kosti 400 milljónir króna. Nýtt gervigras veður lagt á Kórinn fyrir 100 milljónir og stefnt er að því að hefja framkvæmdir við nýjan keppnisvöll HK á árinu.
  • Af öðrum framkvæmdum tengdum öðrum eignum bæjarins er stærsta einstaka verkefnið bygging nýs sambýlis við Kleifakór sem gert er ráð fyrir að taki til sín um 400 milljónir króna á á árinu.
  • Fjárfesting í gatnagerð og skipulagsmálum er áætluð 1750 milljónir. Þar tekur mest til sín fjárfesting í gatna- og fráveitukerfi nýs hverfis í Vatnsendahvarfi eða um 1000 milljónir.
  • Einnig má þess geta 250 milljónir eru áætlaðar í fjárfestingaáætlun til kaupa bæjarins á félagslegu íbúðarhúsnæði.

Metnaður við krefjandi aðstæður

Fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2024 er metnaðarfullt plagg þar sem hófs er gætt í álögum á íbúa sem margir hverjir eiga nóg með sitt í krefjandi efnahagsumhverfi. Áhersla er á að halda rekstrarkostnaði í skefjum án þess þó að sú aðhaldssemi bitni á grunnþjónustunni. Við sama tón kveður í fjárfestingum sveitarfélagsins – þ.e til viðbótar við innviðaverkefni eins og götur og veitur þá er fjárfestingin mjög mikil í velferðar- skóla- og íþróttamálum.

Orri Hlöðversson
Oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar