Tekjur Garðabæjar gætuhækkað um rúmlega 300 m.kr.

Ríki og sveitarfélög undirrituðu í síðustu viku samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við árið 2024. Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.

Frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur orðið mikil framþróun í málefnum fatlaðs fólks, ásamt því að gerðar hafa verið lagabreytingar um aukna þjónustu. Ríkið hefur komið til móts við sveitarfélögin með aukinni fjármögnun en sveitarfélögin hafa engu að síður staðið frammi fyrir útgjaldaaukningu í málaflokknum. Núverandi samkomulagi er ætlað að koma til móts við það. Hækkun útsvarsins mun renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verða hluti af framlögum sjóðsins sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.

Tekjur munu aukast

Garðapósturinn spurði Almar hvaða áhrif þetta samkomulag muni hafa á fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2024? ,,Ég vil byrja á því að taka það fram að samkomulag ríkis og sveitarfélaga mun ekki leiða til breytinga á skattlagningu íbúa,” segir hann og heldur áfram: ,,Um er að ræða tilfærslu þar sem útsvar verður hækkað af þessari ástæðu en tekjuskattur einstaklinga lækkar á móti. Við erum ekki búin að meta til fulls áhrif á bæjarsjóð á næsta ári en það má búast við að tekjur Garðabæjar hækki um ríflega 300 m.kr. vegna þessa.”

Hallinn 3 milljarðar

Þú hefur rætt um að fjárframlögin til Garðabæjar vegna málefnis fatlaðra hafi verið vanáætluð af ríkinu á undanförnum árum sem nemur um 3 milljörðum. Hefur þetta samkomulag einhver áhrif á það og verður þetta reiknað afturvirkt? ,,Samkomulagið er þannig sett upp að það er engin afturvirkni í því heldur tekur það til ársins 2024 og áfram. Það er hins vegar rétt að kostnaður Garðabæjar við þjónustu við fatlað fólk á árunum 2018-2022 var 3 milljarða króna umfram framlög ríkisins til þjónustunnar. Sú breyting sem hér er komin fram, og sambærileg breyting í fyrra, léttir á þessari stöðu en áfram þarf að ræða atriði sem standa útaf borðinu. Það varðar t.d. þjónustu við börn með fjölþættan vanda og aðila sem þurfa öryggisvistun. Þá er framundan mikil umræða um húsnæðismál, þar sem ljóst er að stefnumótun ríkisins um miklar umbætur hefur ekki verið mætt með tilsvarandi fjárframlögum,” segir Almar og bætir við að lokum: ,,Ég hefði gjarnan viljað að stærra skref yrði stigið að þessu sinni en það er þó mikilvægur áfangi að ná þessu samkomulagi.”

Þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk

Þá kemur fram að aðilar samkomulagsins, Ríki og sveitarfélög, eru sammála um að gera þurfi breytingar á framkvæmd þjónustu við fatlað fólk til þess að tryggja sambærilega þjónustu milli sveitarfélaga og betri nýtingu fjármagns. Þá eru aðilar samkomulagsins sammála um að haldið verði áfram með kortlagningu, greiningu og gerð tillagna um stöðu og framtíð barna og ungmenna með fjölþættan vanda, einstaklinga 18 ára og eldri sem dæmdir hafa verið til að sæta öryggisgæslu eða öðrum öryggisráðstöfunum, og tillagna um stöðu og framtíð þjónustu við ungt fólk á hjúkrunarheimilum. Auk þess verður vinnu haldið áfram við stefnu og framkvæmdaáætlun til 7-10 ára um framtíðaruppbyggingu í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.

Loks hafa aðilar samkomulagsins samþykkt að stofnaður verði sérstakur framtíðarhópur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem vinna mun að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk. Ríki og sveitarfélög munu veita tímabundið framlag til þróunarkostnaðar í þjónustu við fatlað fólk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar