Lesum um jólin

Þegar ég hugsa um jólin sé ég alltaf fyrir mér fjölskyldustund þar sem við borðum piparkökur, drekkum heitt kakó og lesum góða bók undir lampa langt fram á nótt. Þessi mynd sem ég dreg hér upp litast fyrst og fremst af stundum sem ég man úr barnæsku minni, þar sem afþreyingarefni var ekki eins alltumlykjandi og það er í dag, en mun síður af því hvernig ég hef varið jólunum á fullorðinsárum. Því jólin mín undanfarin ár hafa, satt best að segja, frekar einkennst af hraða en ró. Ég hef ekki gefið mér tíma fyrir notalega stund með nýrri skáldsögu, hvað þá þegar börnin eru vakandi.

Bakgrunnur minn er í málvísindum, kennslufræði og mannréttindabaráttu. Það kemur fólki því líklega ekki á óvart að niðurstöður PISA-könnunarinnar liggja þungt á mér nú í aðdraganda jólanna. Það sem stóð upp úr í niðurstöðum könnunarinnar var minnkandi lesskilningur, sem er alvarlegt mál og mikið rætt í fjölmiðlum, en það sem mér fannst beinlínis hræðilegt að sjá var skortur á samkennd meðal unglinga. Ég get ekki annað en sett þessa tvo þætti í samhengi.

Þegar við lesum skáldsögur aukum við sannarlega orðaforða okkar og lesskilning. Það er mikilvægt að ýta undir lestur til að auka lesskilning barna og orðaforða, sem byggist upp á grundvelli málskilnings sem þarf að vera til staðar (og er efni í annan pistil). En lestur örvar líka ímyndunarafl okkar og víkkar sjóndeildarhringinn, því með lestri skáldsagna fáum við tækifæri til þess að upplifa heima og veruleika sem við kæmumst annars aldrei í tæri við. Við hittum fyrir fólk sem við fengjum annars aldrei að kynnast, gleðjumst með þeim og finnum til með þeim.

Það er engin tilviljun að samkennd íslenskra ungmenna mælist lág á sama tíma og lesskilningur fer dvínandi. Rannsóknir sýna nefnilega að lestur eykur samkennd.

Þegar ég hugsa um það hvernig ég hef varið jólunum síðastliðin ár er ég hrædd um að ég sé að einhverju leyti hluti vandamálsins sem íslenskt samfélag er að kljást við og sem birtist í niðurstöðum PISA-könnunarinnar. Ég hef í það minnsta einsett mér að vera börnunum mínum betri lestrarfyrirmynd. Í heimi þar sem áreitið er nánast stanslaust er dýrmætt að skilja símann eftir í öðru herbergi og setjast í sófann með góða bók og heitt kakó.

Framundan er frábært tækifæri til nákvæmlega þess: Lesum bækur um jólin.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Höfundur er bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar