Rúmgóðar og vaktaðar hjólageymslur teknar í notkun í Smáralind

Smáralind hefur tekið í notkun tvær bjartar, upphitaðar og vaktaðar hjólageymslur í verslunarmiðstöðinni og er önnur ætluð starfsfólki og hin fyrir viðskiptavini. Báðar geymslurnar gera ráð fyrir reiðhjólum, hlaupahjólum, rafhjólum og rafskútum og hafa notendur endurgjaldslausan aðgang að rafhleðslu, loftpumpum, viðgerðarstöndum með ákveðnum verkfærum. Ekkert gjald er tekið fyrir aðganginn.
 

Við norðurinnganginn á 1. hæð

Utan við geymslu viðskiptavina, sem staðsett er við norðurinngang Smáralindar á 1. hæð, hafa einnig verið settir upp standarar fyrir rafskútur, þar sem hægt er að læsa þeim og hlaða með appinu Bikekeep Scooter Station, eigendum að kostnaðarlausu. Auk þessa hefur hjólastæðum á lóð Smáralindar verið fjölgað og er þar nú hægt að læsa um sextíu hjólum.
 

Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar.

Stuðningur við græna samgöngumáta

„Ástæða þess að við réðumst í verkefnið er að mæta þörfum þess mikla fjölda fólks sem tekið hefur í notkun fleiri samgöngumáta en bara heimilisbílinn. Hingað koma margir í innkaupaleiðangur á reiðhjólum, rafhjólum eða rafskútum en ekki bíl og hið sama er uppi á teningnum hjá starfsfólki á leið til og frá vinnu í verslunarmiðstöðinni. Þetta er mjög jákvæð þróun og við lítum á hjólageymslurnar og fjölgun hjólastæða úti sem hluta af samfélagsstefnu Smáralindar, sem er m.a. að styðja við græna samgöngumáta,“ segir Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Smáralindar.
 

Oft talsverð verðmæti í húfi

Hjólamenning á höfuðborgarsvæðinu hefur stóreflst á undanförnum árum samfara breyttum lífstíl fólks þar sem bætt heilsa, grænar lausnir og sjálfbærni eru meginleiðarstefin í þeirri þróun. Tinna segir að jafnframt hafi verðmæti hjóla aukist umtalsvert og ekki sé lengur óalgengt að verðmæti reiðhjóls geti slagað upp í eina milljón króna þótt slík dæmi séu þó í miklum minnihluta og venjuleg góð hjól enn lang algengust. „Verðmætið hefur samt farið hækkandi og fólki er alls ekki sama hvar það skilur hjólin eða skúturnar eftir. Fólk vill geta verið öruggt með hjólin á meðan það fer og verslar. Þess vegna leggjum við til að mynda mikla áherslu á notkun öryggismyndavéla í hjólageymslunum,“ segir Tinna.
 

Mannvirkið með vottunina ´BREEAM in Use´

Á síðasta ári fékk Smáralind, fyrst allra bygginga á Íslandi, vottunina BREEAM in Use – Sustainability Assessment Method, sem er alþjóðlegur staðall og vottunarkerfi fyrir byggingar á rekstrartíma þeirra. Almennt séð veitir vottunin, sem gefin er út af óháðum aðila, yfirsýn yfir frammistöðu Smáralindar í umhverfismálum og sjálfbærni. „Vottun á þessu stóra og flókna mannvirki er mikilvægt skref fyrir okkur því við höfum einsett okkur að vera leiðandi í umhverfisþenkjandi rekstri og þetta tiltekna verkefni er mikilvægur þáttur í því markmiði,“ segir Tinna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins