Sumarfrístund í Hörðuvallaskóla
Í sumar verður í fyrsta sinn boðið upp á Sumarfrístund í Hörðuvallaskóla. Um er að ræða tilraunaverkefni fyrir börn í Kópavogi fædd 2011 – 2014.
Forstöðu fyrir Sumarfrístund veita tómstunda – og félagsamálafræðingarnir Birta Baldursdóttir og Róshildur Björnsdóttir (Sjá mynd). Aðrir starfsmenn hafa starfað í Hörðuheimum og hafa mikla reynslu og þekkingu á starfinu.
Lærdómur, leikur og gleði
Að sögn Birtu og Róshildar verður í Sumarfrístundinni lögð áhersla á öryggi og kunnuglegt umhverfi í bland við lærdóm, leik og gleði. ,,Metnaður verður settur í að hafa dagskrána fjölbreytta og skemmtilega þar sem rödd barnanna og tillögur þeirra verða þáttur í dagsskrárgerðinni. Þannig geta allir fundið viðfangsefni við hæfi,“ segir Birta.
Ýmis ævintýri í nærumhverfinu
,,Helstu verkefni í Sumarfrístund einkennast á útivist, hreyfingu, leikjum, ferðum, íþróttum og ýmsum ævintýrum í nærumhverfinu. Þá verður lesið, föndrað, spilað, stuðlað að frjálsum leik og fl. sem fellur til á hverju námskeiði,“ bætir Róshildur við.