Andrea, Daði, mfl. karla í körfunni og lyftingadeildin fengu heiðursviðurkenningu
Aðalfundur U.M.F Stjörnunnar fór fram á dögunum. Fundurinn fór fram með rafrænum hætti að þessu sinni vegna fjöldatakmarkanna og gekk vel fyrir sig, en almenn ánægja var með framkvæmd og nýtt rafrænt fyrirkomulag fundarins.
Heiðursviðurkenningar U.M.F Stjörnunnar
Hefð hefur verið fyrir að veita heiðursviðurkenningar U.M.F Stjörnunnar á aðalfundi félagsins. Þetta árið líkt og í fyrra var því miður ekki hægt að kalla til alla þá aðila sem fengu viðurkenningar, en Andrea Sif Pétursdóttir fimleikakona var valin Íþróttamaður Stjörnunnar árið 2020, meistaraflokkur karla í körfuknattleik var valið lið ársins, Daði Snær Pálsson, var valinn þjálfari ársins, lyftingadeildin var valin deild ársins og þá fékk Sigurður Bjarnason, fyrrverandi afreksíþróttamaður og formaður Stjörnunnar æðstu heiðursviðurkenningu Stjörnunnar, gullstjörnu með lárviðarsveig.
Íþróttamaður Stjörnunnar er Andrea Sif Pétursdóttir
Andreu Sif Pétursdóttir þarf vart að kynna fyrir nokkrum Stjörnumanni. Andrea Sif er 25 ára fimleikamaður sem hefur verið í fremstu röð íslenskra fimleikamanna frá unga aldri.
Andrea Sif varð bikarmeistari með meistaraflokki Stjörnunnar í hópfimleikum árið 2020 en það var í 5 skipti sem liðið vinnur þann titil. Árið 2020 féll Íslandsmótið í hópfimleikum niður vegna Covid en lið hennar hefur 4 sinnum unnið þann titil og voru þau það lið sem flestir spáðu sigri áður en fella þurfti niður mótið.
Gaman er að segja frá því að Andrea Sif hefur þrisvar sinn-um verið valin fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands, jafn oft hefur hún verið valin íþróttakona Garðabæjar og í ár varð hún einnig íþróttamaður Stjörnunnar, í þriðja sinn. Þessar tilnefningar segja mikið til um hversu framarlega Andrea Sif er meðal sinna jafningja ásamt því leiðtoga hlutverki sem hún hefur gegnt í gegnum árin innan meistaraflokks Stjörnunnar og í sinni grein.
Lið ársins er meistaraflokkur karla í körfubolta
Eftir hörkuslag við lið Tindastól í undanúrslitum Geysisbikarsins í körfubolta mættust lið Stjörnunnar og Grindavíkur í bikarúrslitum, fyrir fullu húsi áhorfenda í Laugardalshöllinni. Var leikurinn jafn framan af en í þriðja leikhluta skipti lið Stjörnunnar um gír og breikkaði bilið á milli liðanna jafnt og þétt af miklu öryggi. Er þetta í annað sinn sem liðið verður bikarmeistari undir stjórn Arnars Guðjónssonar. Meistaraflokkur karla var einnig deildarmeistari árið 2020 en líkt og flestum er kunnugt um þá féll úrslitakeppni Íslandsmótsins niður umrætt ár. Liðið vann því alla þá titla sem í boði voru þetta tiltekna ár og því svo sannarlega verðugir tilnefningunni, Lið ársins 2020.
Þjálfari ársins er Daði Snær Pálsson
Daði Snær Pálsson, þjálfari meistaraflokks kvenna í hópfimleikum hlaut heiðurinn þjálfari ársins 2020. Daði Snær hefur þjálfað meistaraflokk kvenna frá því í lok árs 2014 eða á einu sigursælasta tímabili Stjörnunnar í hópfimleikum kvenna. Það er Stjörnunni því heiður að veita Daða Snæ eftirfarandi viðurkenningu í þakklætisskyni fyrir hans einstaklega faglegt og árangursrík starf í þágu félagsins.
Á þeim tíma sem Daði hefur komið að þjálfun meistaraflokkur kvenna hefur liðið orðið 4 sinnum Íslandsmeistarar og 5 sinnum bikarmeistarar ásamt því að hafa orðið 2 sinnum norðurlandameistarar félagsliða.
Deild ársins er lyftingadeild Stjörnunnar
Deild ársins var að þessu sinni Lyftingadeild Stjörnunnar. Deildin hefur vaxið á undanförnu ári með tilkomu stærri aðstöðu í Ásgarði og tækjakaupa sem deildin fjármagnaði sjálf. Deildin átti nokkra Íslandsmeistaratitla á árinu í mismunandi flokkum. Eins er gaman er að segja frá því að aðsókn kvenna hefur aukist í deildina með tilkomu sérsniðna hóptíma fyrir konur sem vilja læra lyftingar í góðum félagsskap.