Rjúpnahæðarleiðin – leiðarvísir að lýðræði í skóla

Leikskólinn Rjúpnahæð er nú á dögunum að gefa út bók sem lýsir og segir frá stefnu hans sem hefur verið í þróun frá opnun leikskólans árið 2002. Bókinni er ætlað að vera leiðarvísir og sá sem les hana fái innsýn í og geti tileinkað lýðræðisleg vinnubrögð í leikskólastarfi. Hrönn Valentínusardóttir, leikskólastjóri, er höfundur þessara stefnu en hún ýtti henni af stað, þróaði, hlúði að og gerði hana að því sem hún er í dag. Kennarar og starfsfólk leikskólans eru jafnframt mikilvægir stefnunni með því að koma hugmyndum í framkvæmd.

Í Rjúpnahæð hefur markvisst verið unnið með lýðræði í 18 ár eða frá opnun leikskólans. Aðferðir sem notast er við hafa þróast í gegnum árin og hafa kennarar lært og tileinkað sér ótal margt sem nýtist í allri vinnu og starfi með börnunum. Lýðræðisleg samskipti einkenna daglegt starf og um leið er stöðugt verið að ýta undir sjálfræði og jafnrétti barnanna. Lögð er áhersla á að börn beri virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki, þrói með sér samkennd, tillitssemi, umburðarlyndi og vináttu. Frumkvæði þeirra er eflt og styrkt og með því verða þau hæfari til að takast á við líf og starf í lýðræðissamfélagi. Börnin eru ávallt hvött til að tjá skoðanir sínar og taka þátt í ákvarðanatökum sem varða starf og leik í leikskólanum eftir því sem aldur og þroski leyfir. Auk þess er sífellt stuðlað að því að börnin upplifi að á þau sé hlustað og að skoðanir þeirra séu virtar. Lögð er rík áhersla á að nota lýðræðislegar kennsluaðferðir í öllum aðstæðum og á öllum tímum dags í Rjúpnahæð en ekki eingöngu í fyrirfram skipulögðum verkefnum. Alltaf er það haft að markmiði að börnin fái að hafa sem mest áhrif á það sem fram fer í leikskólanum. Hvort sem það er að velja hvaða bók á að lesa í sögustund, ákveða hvenær þau vilja fara í útiveru eða hvert þema vetrarins á að vera.

Ritstjóri er Kristján Hreinsson og höfundar bókarinnar eru kennarar og stjórnendur við leikskólann Rjúpnahæð og þær heita Birna Rebekka Björnsdóttir, Heiða María Angantýsdóttir, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Hrönn Valentínusardóttir, Inga Rún Jónsdóttir, Margrét Bjarnadóttir, Unnur Kristjánsdóttir og Valgerður Ósk Sigurjónsdóttir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar