Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka, fyrir hönd Garðabæjar, auglýsti í byrjun nóvember til sölu byggingarrétt fyrir fjölbýlis- og atvinnuhúsnæði á fimm aðskildum byggingarreitum við Vetrarmýri í Garðabæ. Óskað var eftir tilboðum fyrir 30. nóvember sl. og tilboð voru opnuð þann sama dag á skrifstofu Íslandsbanka, að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óskuðu. Tilboðin voru kynnt fyrir bæjarráði í morgun og bæjarstjóra ásamt fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka falið að vinna málið áfram.
13 fyrirtæki skiluðu inn tilboði
13 fyrirtæki buðu í byggingarréttinn og tvö þeirra buðu í alla reitina sem augýstir voru. Það voru fyrirtækin Arnarhvoll sem bauð 3.281.897.000 kr. í alla reitina til samans og Flotgólf ehf, en tilboð þeirra var lægra en Arnarhvolls. Misjafnt er, eins og taflan hér fyrir neðan sýnir, hvað boðið var í hvern reit, en ÞG verktakar buðu hæst í reit 1 (825 milljónir), 2 (1.095.000.000 kr) og 4 (385 milljónir), en fyrirtæki bauð eingöngu í 4 reiti. Vetrarfell ehf bauð hæst í reit 3 (452 milljónir) og 5 (tæpar 565 milljónir).
Hvernig verða tilboðin metin?
Það verður fróðlegt að sjá hvernig Garðabær og Íslandsbanki meta tilboðin, hvort tilboði Arnarhvolls ehf verði tekið í alla reitina, en félagið er í eigu Andra Sveinssonar, Árna Geirs Magnússonar, Birgis Más Ragnarssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Karls Þráinssonar eða verður hæsta tilboði í hvern reit fyrir sig tekið.
20 hektara byggingarland
Vetrarmýri er 20 hektara byggingarland, að fullu í eigu Garðabæjar, sem markast af Hnoðraholti til norðurs, Reykja-nesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs og golfvelli GKG til austurs.
Fyrsti áfangi af þremur
Áætluð heildarstærð byggðar í Vetrarmýri er um 66.000 fermetrar af fjölbýli og 36.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði með 664 íbúðum að hámarki. Í þessum fyrsta áfanga voru boðnir út u.þ.b. 26.000 fermetrar af fjölbýli og 26.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði á fimm aðskildum reitum auk möguleika fyrir bjóðendur í atvinnuhúsnæði að bjóða í bíla-stæðahús við Reykjanesbraut. Reiknað með að gatnaframkvæmdir í þessum áfanga hefjist á árinu 2022 og lóðir verða afhentar haustið 2022.
Vetrarmýri er eitt af þremur fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum á Vífilsstaðalandi. Við gerð deiliskipulagsins var horft til góðra tenginga við stofnbrautina Reykjanesbraut, almenningssamgangna og göngu- og hjólastíga og nálægðar við útivistarperlur. Auk þess er að-gengi að nálægri samfélagsþjónustu eins og skólum, leikskólum og íþróttamannvirkjum o.fl. mjög gott.
Bæjarstjórinn sáttur með tilboðin
Garðapósturinn spurði Gunnar Einarsson bæjarstjóra Garðabæjar hvernig honum litist á tilboðin. „Við fengum góð tilboð enda staðsetningin frábær. Nú vinnum við að því að skoða tilboðin gaumgæfilega. Það er ánægjulegt að Garðabær sé svo vinsæll eins og þessi tilboð bera vitni um,“ svaraði Gunnar.