Össur Geirsson hefur í störfum sínum veitt miklum fjölda barna og ungmenna innblástur og hvatningu

Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs hlaut í síðustu viku viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2022.

Össur hefur í störfum sínum veitt miklum fjölda barna og ungmenna innblástur og hvatningu. Hann hefur óbilandi trú á ungu fólki og hefur einstakt lag á að laða fram það besta í hverju og einu barni. Hann leggur áherslu á samvinnu á meðal nemenda í störfum sínum og kallar fram jákvæðan aga, metnað og samkennd.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.

Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnti hver hlyti viðurkenninguna. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Svanlaug Böðvarsdóttir nemandi í Fellaskóla flutti atriði úr Skrekk – ,,Skrekkur og Fellaskólafordómar” og Skólahljómsveit Kópavogs flutti tónlistaratriði. Bergrún Íris Sævarsdóttir stjórnarkona Barnaheilla stýrði athöfninni.

Skólahljómsveit Kópavogs var stofnuð á haustmánuðum 1966. Afmælisdagur sveitarinnar er þó ávallt miðaður við fyrstu tónleikana sem haldnir voru við Kársnesskóla þann 22. febrúar 1967. Stofnandi sveitarinnar var Björn Á. Guðjónsson trompetleikari og stjórnaði hann hljómsveitinni óslitið og af miklum dugnaði fram til ársins 1993 þegar Össur Geirsson tók við stjórninni. Að jafnaði eru um 175 hljóðfæraleikarar í Skólahljómsveit Kópavogs og er þeim skipt í þrjár sveitir eftir aldri og getu.

Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitar Barnaheilla og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands þegar Össur fékk viðurkenningu Barnaheilla í síðust viku.

Finnst þetta stórmerkilegt

Þú ert væntanlega auðmjúkur að fá slíka viðurkenningu? ,,Já, það má nú segja það, ég átti alls ekki von á þessu og finnst stórmerkilegt að samtök á borð við Barnaheill sem daglega vinna að réttindum barna skuli telja mig þess verðan að fá viðurkenningu fyrir störf í þágu barna,” segir Össur er Kópavogspósturinn náði í hann.

Ég nýt þeirra forréttinda að líða vel í mínu starfi

Þú tókst við sem skólastjóri hljómsveitarinnar árið 1993 eða fyrir 30 árum. Þér hefur greinilega liðið vel í starfi og nýtur þess að vinna með nemendum þínum? ,,Ég nýt þeirra forréttinda að líða vel í mínu starfi. Það er dásemd að fylgjast með nemendum sem koma í nám til okkar ung að aldri, oft án nokkurrar hljóðfærakunnáttu, dafna og þroskast sem hljóðfæraleikarar og manneskjur frá ári til árs og og kveðja okkur átta til tíu árum síðar sem fullburða hljóðfæraleikarar og yndislegt fólk. Þetta sést sérstaklega vel á haust- og vortónleikunum okkar þar sem allir nemendur koma fram og við sjáum og heyrum stígandann í hljóðfæraleiknum frá yngstu nemendunum til þeirra elstu. Það er ekki hægt annað en að njóta þess að vinna með ungu fólki og sérstaklega þegar árangurinn er svona sýnilegur.”

Þetta eru um 175 hljóðfæraleikarar sem skipa hljómsveitina í dag og þeim skipt í þrjár sveitir eftir aldri, hvernig gengur að halda utan um þennan mikla fjölda? ,,Það gengur alveg ljómandi vel. Skólahljómsveit Kópavogs er tónlistarskóli sem starfar samkvæmt námskrá frá Menntamálaráðuneytinu og hér starfa auk mín 14 frábærir kennarar svo ég er ekki einn um að halda utan um hópinn. Vissulega er þetta heilmikið utanumhald með alla þessa kennslu, hljómsveitaræfingar, æfingaferðir, tónleika og annað sem tilheyrir tónlistarskólastarfinu, en með samvinnu og metnað að leiðarljósi gengur þetta bara ljómandi vel.”

Það hefur orðið stórkostleg breyting á starfinu

Og hlutirnir hljóta að hafa breyst töluvert hjá hljómsveitinni frá því að þú hófst störf fyrir 30 árum? ,,Það hafur orðið stórkostleg breyting á starfinu frá því ég tók við sprotanum af Birni Guðjónssyni árið 1993. Ég hef reynt að halda þeim eldmóði sem Björn var þekktur fyrir en jafnframt bætt í með því að innleiða hluti eins og formlega tónfræðikennslu, æfingabúðir hljómsveitanna, tónfundi allra nemenda og formleg áfangapróf í hljóðfæranáminu. Einnig fylgir starfinu mikil festa með þeim góðu kennurum sem hér starfa og leggja metnað sinn í tónlistarkennsluna og hljómsveitarstarfið. Án þeirra væri starfið hvorki fugl né fiskur. Stærsta breyting hvað varðar aðstöðu er að okkur tókst að fá Kópavogsbæ til að útvega hljómsveitinni gott húsnæði sem var sérhannað utan um hljómsveitarstarfið og við búum því svo vel núna að vera eina skólahljómsveit landsins sem býr við þann munað. Við kennum núna í sérhannaðri tónlistarkennsluálmu sem byggð er við Álfhólsskóla Digranesi, ásamt tónleikasal sem við samnýtum með grunnskólanum. Það var allt saman tekið í notkun í febrúar 2020, svona um það bil korteri fyrir Kóvid og hefur reynst okkur einstaklega vel, m.a. til að stunda bæði staðkennslu og fjarkennslu í faraldrinum. Nýhafinn vetur er því sá fyrsti sem við getum nýtt húsnæðið að fullu án samkomutakmarkana.”

Össur með hljómsveitinni í Milton Keynes á Englandi árið 1999.

Það er enginn á varamannabekknum

Viðurkenning Barnaheilla snýr m.a. þeim innblástri og hvatningu sem þú hefur veitt nemendum skólans auk þess sem þér tekst að laða fram það besta í hverju barni. Hefur þetta alltaf verið markmið þitt, trúin á hvern einstakling þótt við séum öll á misjöfnum stað? ,,Ég kýs að líta þannig á að stórar hljómsveitir á borð við sinfóníuhljómsveitir og lúðrasveitir séu eins og smækkuð mynd af fyrirmyndarsamfélagi – samfélagi þar sem allir eru jafnir og fá að þroskast og dafna á eigin forsendum til þeirra verðleika sem þau eru fær um. Hljóðfærin okkar eru af ýmsum stærðum og gerðum, sum hljóðfærin hafa marga takka að ýta á, önnur fáa takka eða enga, sum eru silfurlituð önnur gyllt eða hvít eða svört, sum hafa háa og bjarta tóna meðan önnur hafa djúpan og seiðandi tón.
Eins er með hljóðfæraleikarana í hljómsveitinni, við erum líka fjölbreyttur hópur, stelpur, stálp og strákar á ýmsum aldri og fjölbreytt í útliti, sum kannski með ADHD eða einhverfu í mismiklu mæli og svo erum við ólík að upplagi. Samt er enginn á varamannabekknum, við tökum öll þátt, á jafningjagrundvelli og við erum öll mikilvæg í samspilinu þó ekkert okkar sé ómissandi.
Kúnstin fyrir hljómsveitarstjórann er svo að fá þennan fjölbreytta hóp fólks sem spilar á þessi fjölbreyttu hljóðfæri til að vinna saman og mynda einn sameiginlegan töfrandi hljóðheim. Fjölbreytileikinn verður þannig styrkleiki hljómsveitarinnar því blæbrigðin sem við náum með fjölbreyttum hljóðfærum og manneskjum verða áhugaverðari og heildar útkoman – tónlistin eða lífið sjálft – verður sú dásamlega upplifun sem við öll óskum okkur.”

En finnst þér börnin og unglingarnir sem þú kennir hafa breyst eitthvað á síðustu 30 árum miðað við allt það áreiti sem þau verða fyrir í dag? ,,Ég held að unga fólkið hafi ekki breyst í eðli sínu á þessum tíma, alla vega eru þau sem stunda nám hjá okkur upp til hópa eðalmanneskjur sem leggja sig fram um að gera sitt besta og sýna einbeitingu, áhuga og metnað í sínum hljóðfæraleik. Vissulega er áreitið annað í dag en áður var og stundum geta samfélagsmiðlar og annað slíkt dregið athygli frá því sem skiptir máli, en þetta eru klárir krakkar og almennt fær um að vinna úr áreitinu.”

Össur í heimsókn í Garði ásamt Skólahljómsveit Kópavogs árið 1997

Hef tekið miklum breytingum og framförum á ferlinum

Hvað með þig sjálfan, þú varst 31 árs þegar þú tókst við sem stjórnandi hljómsveitarinnar og síðan eru 30 ár liðin. Þú hefur sem sagt eytt hálfri ævi þinni sem stjórnandi hljómsveitarinnar. Hefur þú sjálfur eitthvað breyst á þessum tíma sem kennari og persóna, beitir öðrum aðferðum en fyrir 30 árum? ,,Þó ég hafi verið skólastjóri SK hálfa ævina, hef ég alls verið í Skólahljómsveit Kópavogs í 50 ár, því ég hóf nám í sveitinni haustið 1972 og hef verið hér síðan, fyrst sem nemandi og hljóðfæraleikari í fjölmörg ár, síðan í beinu framhaldi kennari og loks hljómsveitarstjórinn. Ég hef því verið hluti af og fylgst grannt með starfi sveitarinnar nánast frá byrjun og séð margt og ýmislegt breytast í áranna rás. Ef ég skoða sjálfan mig sem kennara þá hef ég tekið miklum breytingum og framförum á ferlinum því leitin að nýjum kennsluaðferðum, fjölbreyttri nálgun í kennslunni og frumlegu kennsluefni tekur aldrei enda. Tónlistarkennari sem ekki þroskast og þróast í sínu starfi er í raun réttri í stanslausri afturför og hefur ekkert að bjóða nemendum sínum. Líklega má segja að það sem ekki hefur breyst á þessum árum er viljinn til að breytast og leita nýrra leiða í kennslunni og mannlegum samskiptum. Á vissan hátt kem ég fram við börnin í hljómsveit-inni á sama hátt og ég kom fram við mín eigin börn þegar þau voru að alast upp. Ég lít á það sem mitt hlutverk að leiðbeina með hlýju viðmóti en gera samt mjög afdráttarlausar en viðráðanlegar kröfur og vona að minn eiginn metnaður smitist yfir til nemendanna.”

Fátt í lífinu meira gefandi en að vinna með ungu glæsilegu fólki

Hvað hefur það gefið þér að starfa sem stjórnandi hljómsveitarinnar í öll þessu ár? ,,Það er fátt í lífinu meira gefandi en að vinna með ungu glæsilegu fólki, fá að vera hluti af þeirra þroskaferli og sjá þau vaxa og dafna frá því þau koma í fyrsta hljóðfæratímann þar til þau kveðja og fljúga inn í framtíðina á fullri ferð. Svo fylgist maður með þeim úr fjarlægð og sér þau taka að sér alls konar hlutverk í lífinu, sum búa sér til atvinnuferil í tónlist, leiklist eða öðrum skapandi störfum og ég samgleðst þeim öllum þegar ég sé þau ná markmiðum sínum, hver svo sem þau eru.
Ég lofaði líka sjálfum mér þegar ég var unglingur að þegar ég yrði stór myndi ég finna mér vinnu þar sem mér finndist ég vera lifandi í vinnunni. Ég hafði nefnilega verið að vinna færibandavinnu eitt sumar og fannst ég bara ekki vakna til lífsins fyrr en vinnudeginum var lokið. Mín gæfa er því sú að mér finnst ég alltaf vera lifandi í vinnunni minni og hlakka til hvers einasta dags.”

En hvað segir þú svo með tímann sem er framundan, desember, þetta er annasamur tími hjá Skólahljómsveit Kópavogs? ,,Það er alltaf nóg að gera hjá okkur í desember því hljómsveitirnar koma fram á fjölmörgum tónleikum á aðventunni. Við spilum meðal annars í grunnskólum, á jólskemmtunum og á okkar eigin tónfundum. Jólatónleikar verða í Hörpu þann 17. desember og þar koma allar hljómsveitirnar okkar þrjár fram með jólalög og sitthvað fleira sem ætti að koma öllum í gott jólaskap.”

Össur með Braga Bragi Michaelssyni á 30 ára afmæli hljómsveitarinnar

Það sem þarf er áhugi fyrir tónlist og viljinn til að gera vel

Og að lokum, þeir sem eru áhugasamir, hvað þarf til að ganga í Skólahljómsveit Kópavogs? ,,Það sem þarf er áhugi fyrir tónlist og viljinn til að gera vel. Tónlistarnám kostar mikla vinna og árangurinn er í réttu hlutfalli við þá vinnu og einbeitingu sem hver og einn leggur í námið. Reyndar er það svo að það losna ekki mörg pláss hjá okkur á hverju ári svo það komast ekki allir að sem sækja um. Við tökum við umsóknum á vorin fyrir komandi vetur og gefst nemendum í 3. bekk grunnskóla kostur á að sækja um, því nemendur hefja nám hjá okkur haustið sem þau fara í 4. bekk,” segir Össur að lokum.

Forsíðumynd: F.v. Ellen Calmon framkvæmdastýra Barnaheilla, Össur Geirsson skólastjóri Skólahljómsveitar Barnaheilla, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Harpa Rut Hilmarsdóttir stjórnarformaður Barnaheilla

Það var létt yfir Össuri og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhanesson á hátíð Barnaheilla í síðustu viku

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar