Maðurinn fær þúsund sinnum nýja húð yfir ævina

Út er komin vegleg lífsstílsbók um húðina eftir Garðbæinginn Láru G. Sigurðardóttur lækni og Sólveigu Eiríksdóttur matgæðing og heilsugúrú. Hildur Ársælsdóttir, sem er dóttir Sólveigar eða Sollu eins og hún er oftast kölluð, tekur ljósmyndirnar í bókinni. Lára er ættuð úr Hafnarfirði en hefur verið búsett í Garðabæ síðan 2005 þegar hún flutti heim frá Kaliforníu ásamt eiginmanni sínum, Halldóri Fannari, og sonum.

Annað doktorsverkefni Láru og nú á mannamáli

Lára segir að mikil alúð og vinna hafi verið lögð í bókina. ,,Þetta var eiginlega mitt annað doktorsverkefni, nema núna á mannamáli! Húðbókin tekur fyrir nýjustu vísindin sem snerta heilbrigði húðarinnar, en fræðin byggja á sömu nálgun og ég hef stúderað síðustu ár í lífsstílslæknisfræði, sem er að skilja rót vanheilsu og sjúkdóma,” segir Lára, en í bókinni er fjallað um algengar venjur sem bæta starfsemi húðarinnar og einnig talað um venjur sem æskilegt er að halda í lágmarki eða miklu hófi.

,,Húðin er sífellt að endurnýja sig og segja má að meðal maðurinn fái þúsund sinnum nýja húð yfir ævina. Þar sem húðin er í stöðugri endurnýjun og þarf til þess ótal næringarefni skiptir máli hvað við látum ofan í okkur,“ segir Lára

Húðin er sífellt að endurnýja sig og þarf til þess ótal næringaefni

,,Húðin er sífellt að endurnýja sig og segja má að meðal maðurinn fái þúsund sinnum nýja húð yfir ævina. Þar sem húðin er í stöðugri endurnýjun og þarf til þess ótal næringarefni skiptir máli hvað við látum ofan í okkur,“ segir Lára og heldur áfram: ,,Þetta er ekkert ósvipað því og ef þú setur dísilolíu á bíl sem gengur fyrir bensíni, þá fer bíllinn að hökta og erfiða (það þekki ég af eigin raun, ehemm). Sama gildir um húðina. Þannig að ég rannsakaði hvaða næringarefni húðin þarf til uppbyggingar, hvaða hlutverki þau gegna og í hvaða formi líkaminn getur best nýtt þau. Síðan fann ég til þær fæðutegundir sem eru ríkar af umræddum næringarefnum og setti saman lista fyrir Sollu. Með þennan lista að vopni töfraði Solla síðan fram girnilegar og góðar uppskriftir sem sjá húðinni fyrir öllum helstu næringarefnunum sem hún þarf.”

Í bókinni er einnig að finna uppskriftir sem stuðla að heilbrigðri þarmaflóru. „Þarmaflóran kemur líka við sögu og nú eru sterkar vísbendingar um að hún hafi áhrif á húðina. Þá fer eftir samsetningu örveruflórunnar hvort hún framleiði næringarefni og fitusýrur sem nýtast húðinni, eða þvert á móti sendi frá sér bólguvaldandi efni sem valda usla í húðinni.”

Húðin eldist oft hraðar en manneskjan

,,Við vitum að húðin eldist oft hraðar en manneskjan sem hún hylur því hún er berskjaldaðasta líffærið og verður gjarnan fyrir barðinu á umhverfinu, en sem dæmi eru sólböð og ljósabekkir aðalorsök ótímabærrar öldrunar húðar.” segir Lára. “Það þekki ég frá mínum yngri árum, þegar það þótti sniðugt að maka á sig kókosolíu fyrir sólbað og helst brenna svolítið til að fá dýpri lit” segir Lára. “Skella sér svo reglulega í ljós á veturna.” Hún segir að sumir telji það hégóma að hugsa um húðina en þetta snúist ekki um útlitið heldur lífsgæði. “Okkur líður betur þegar húðin er ekki til vandræða, ég held að við finnum það flest á eigin skinni.”

Taugakerfið tengist húðinni eins og símalína í báðar áttir

,,Í læknisfræðinni lærðum við um húðina sem aðskilið líffæri en þvert á móti er hún órjúfanleg öðrum líffærakerfum. Án meltingarvegsins fær húðin ekki næringu og án lungna fær hún ekki súrefni. Og án æðakerfisins fær hún hvorugt, svo dæmi séu tekin. Þá tengist taugakerfið húðinni eins og símalína í báðar áttir, ef húðin bólgnar eða fær á sig sár þá sendir hún skilaboð til taugakerfisins sem gerir þig meðvitaðan um ástandið. Síðan getur taugakerfið haft ýmis áhrif á húðina, til dæmis í gegnum streitu eða slökun. Því er gefið mál að næring, streita, svefn, hreyfing og fleiri venjur okkar hafa mikil áhrif á húðina. “Tökum dæmi um næringu” segir Lára, “kalsíum er til dæmis ekki bara nauðsynlegt fyrir beinin þar sem það binst kollageni til að gera þau sterk, heldur tekur þátt í að endurnýjun húðarinnar. Ef þig skortir kalsíum getur húðin orðið þunn og viðkvæm, hægst á hárvexti og neglur orðið brothættar. Fleiri fæðutegundir en mjólkurvörur innihalda kalk, þú færð til dæmis góðan skammt með sardínum, möndlum og fleirum grænmetismat. Síðan ef við skoðum svefninn, þá endurnýjar húðin sig hraðast á næturnar og því getur skipt máli að nota ákveðin krem frekar á kvöldin en morgnana. Þá er að koma betur í ljós hve sykur hefur neikvæð áhrif á húðina, því hann ýtir undir myndun öldrunarsameinda og getur þar með valdið húðþurrk og hraðari öldrun.”

Andlitið hefur 42 vöðva sem við getum þjálfað

Lára segir að við æfum gjarnan kroppinn en undanfarið er algengara að fólk geri einnig andlitsæfingar, enda hefur verið sýnt að þær geti gefið frísklegra útlit. ,,Andlitið hefur 42 vöðva sem við getum þjálfað og eru einfaldar æfingar að finna í bókinni. Þá eru sífellt fleiri húðvörur að bætast á markaðinn og getur verið flókið að velja krem sem hentar – það eru breyttir tímar frá því að það voru einungis Nivea og örfá önnur merki í boði. Í bókinni er tekið fyrir hvað við viljum leita eftir í húðkremum eftir hvaða húðgerð þú hefur. Síðan er í sjálfu sér nokkuð einfalt að búa til eigin húðvörur og það getur verið gaman að gera krem og maska heima. Í bókinni er til dæmis að finna krem sem er gott að bera á þurra húð,“ segir Lára að lokum.

Á forsíðumynd er Lára til vinstri og Solla til hægri.

Uppskrift frá Sollu

Ómótstæðilegar parmesan smákökur

115g jurta”parmesan” (eða venjulegur parmesan), rifinn
1 dl smátt skorinn púrrulaukur eða vorlaukur
100g spelt
50g heslihnetur, gróft saxaðar og þurrristaðar á pönnu
1 msk lífrænt sinnep
75g jurtasmjör
½ tsk sjávarsaltflögur

Rífið ostinn og setjið í hrærivélaskál og bætið restinni af uppskriftinni útí og látið hnoðast saman. (Ég nota annað hvort hrærivél eða matvinnsluvél með hnoðara). Rúllið lengju úr deiginu og hafið ca 2 cm í þvermál, setjið inn í kæli í 1 klst, má líka vera yfir nótt.

Hitið ofninn í 180°C og setjið bökunarpappír á ofnskúffu. Skerið deigið í um ½ cm sneiðar, raðið á ofnskúffuna og bakið í 10 mín. Hafið augun á smákökunum síðustu 2 mín og passið að þær brenni ekki. Látið kólna á grind.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar