Ögrandi hugmynd, eða ruglandi?

Frétt um viljayfirlýsingu Kópavogs að heimila 5.000 mann byggð fyrir eldri borgara og 1.200 ný hjúkrunarrými í landi Gunnarshólma er í senn umhugsunar – og varhugaverð, jafnvel ógnvekjandi. Þetta yrði þriðji stærsti byggðarkjarni landsins utan höfuðborgarsvæðisins, stærsta sjúkrastofnunin, stærsta leigufélagið og líklega stærsta skipulagða gettó landsins. Hjá formælendum gengur hugmyndin undir nafninu „lífsgæðakjarni“ en má einnig lýsa sem gettói vel stæðra eldri borgara í grennd við lífgefandi vatnsból 250.000 manna og eldvirkt svæði sem nýlega vaknaði eftir nokkurra alda svefn. Er þetta ögrandi hugmynd, eða bara ruglandi tímaþjófur?
Hugmyndin byggist á því að komið sé á móts við vaxandi þörf fyrir húsnæði og þjónustu fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu. Um þörfina er ekki deilt. Spurningin er hvort þetta geti orðið hluti af lausninni, og hvort staðsetning og hugmyndafræðin sé skynsamleg. Það er deginum ljósar að Kópavogsbær hefur ekki sinnt þessu málum um langt ára bil hér í bænum. Meirihlutinn vaknaði fyrst til til verka þegar fjárfestar sem leita leiða til að ávaxta sitt fé knúðu dyra.

Samfélagið glímir nú við ógn vegna eldvirkni og jarðskjálfta á Reykjanesi. Höfuðborgarsvæðið er girt virkum eldfjöllum frá Trölladyngju að Hellisheiði og sprungur frá þessu svæði ná inn í efstu byggðir Hafnafjarðar, Kópavogs og Reykjavíkur. Allt getur gerst. Gangi framagreind áform eftir gæti farið svo að 5.000 íbúum og 1.200 öldruðum sjúklingum yrði ógnað þegar jarðeldar kvikna. Ekki má gleyma hvar eldar brunnu við Kristnitökuna og að Rauðhólarnir mynduðust þar rétt hjá fyrir aðeins um 5 þúsund árum. Reynslan er ólygnust og sýnir að varast ber búsetu nær eldvirkum svæðum en orðið er. Betri staðsetning stendur til boða þar sem hætta vegna jarðhræringa og elda er minni, eða því sem næst engin. Þá leitar hugur til vesturs, við Esjuna en ekki til austurs í nánd við eldvirku svæðin eins og þessi hugmynd gerir.

Vatn er líf! Svæði í nágrenni Gunnarshólma veita stórum hluta landsmanna aðgengi að þessum lífgjafa. Þeir eru staðsettir í jaðri þess svæðis sem til umræðu er; á svæði þar sem grunnvatnsstaða er nálægt yfirborði og því viðkvæm fyrir mengun. Allri byggð fylgir mengun. Því umfangsmeiri sem byggð er því meiri mengun. Vissulega er hægt að takmarka áhættu vegna mengunar með verkfæðilegum lausnum. En mengun verður ekki útilokuð og er í raun afar líkleg; bara einn jarðskjálfti gæti á fáeinum augnablikum breytt öllum forsendum uppsettra mengunarvarna. Umrædd hugmynd er ögrun við þessa mikilvægustu uppsprettu lífsviðurværis á höfuðborgarsvæðinu; það er mikið í húfi!

Sagan er ólygnust. Á umræddu svæði verða við tilteknar veðuraðstæður umtalsverð flóð þar sem vatn leggst yfir tún og vegi, og einangrar húsin frá venjulegum samgöngum. Flóð sem gætu borið mengun frá hinum svo kallaða ,,lífsgæðakjarna“ yfir í vatnsbólin okkar.

Fram til þess hefur verið lögð áhersla á að skipuleggja byggð með þeim hætti að þar ríki fjölbreytni; eldri og yngri, barnafjölskyldur, efnameiri og efnaminni. Fjölbreytni er styrkleiki og eflir samstöðu og skilning á milli ólíkra þjóðfélagshópa. Framlögð hugmynd felur í sér einsleitni. Einsleitni leiðir til sundrungar, minni skilnings á sjónarmiðum og þörfum ólíkra hópa samfélagsins; einsleitni er hreint og beint ávísun á leiðindi. Formaður félags eldir borgara hefur komið þessum sjónarmiðum vel á framfæri; segir hugmyndina vonda og hún gangi þvert gegn öllum ríkjandi áherslum í málaflokknum. Hann efast um að velferð eldra fólks hafi ráðið för í þessu máli.
Að framansögðu tel ég skynsamlegast að beina kröftunum að öðrum svæðum og með aðra hugmyndafræði að leiðarljósi til að mæta þörf fyrir húsnæði. Það á við eldri borgara eins og aðra þjóðfélagshópa sem vilja búa á höfuðborgarsvæðinu. Tökum tillit til náttúrulegra aðstæðna. Hefjum samtalið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sóum ekki tíma í þessa afleitu og/eða fráleitu tillögu um fjölmenna einsleita byggð á viðkvæmu svæði. Hlustum á sjónarmið eldri borgara um hvernig best er þróa lífsgæðakjarna. Látum ekki fjárfesta sem hafa hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi ráða för.

PS. „Gettó“ er iðulega skilgreint sem hluti borgar sem byggður er af hópi sem býr þar sérstaklega vegna félagslegs, efnahagslegs eða lagalegs þrýstings.

Tryggvi Felixson
Höfundur er ritari félagsins Vinir Kópavogs.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar