Næturstrætó í Kópavog

Almenningssamgöngur eru gríðarlega mikilvægur ferðamáti sem gerir fólki kleift að komast leiða sinna á bæði öruggan og áreiðanlegan hátt.

Á höfuðborgarsvæðinu hafa strætisvagnar alla jafna ekið síðustu ferðirnar sínar undir miðnætti en eftir það þarf fólk að reiða sig á aðra samgöngumáta. Þau sem ekki aka bíl hafa þá val um að ganga, hjóla eða taka leigubíl, en undanfarin misseri hafa leigubílar ítrekað átt í töluverðum erfiðleikum með að anna eftirspurn á næturnar.

Nýlega tóku nágrannar okkar í Reykjavíkurborg ákvörðun um að hefja akstur næturstrætó innan borgarinnar. Með næturstrætó gefst fólki hagkvæmur, öruggur og umhverfisvænn kostur til að ferðast úr miðbænum eftir skemmtun næturinnar eða eftir vinnu. Akstur næturstrætó stuðlar að skaðaminnkun og bætir öryggi þeirra sem þurfa að komast leiða sinna en geta ekki ekið bíl. Reynsla annarra landa hefur til dæmis sýnt að aukið aðgengi að almenningssamgöngum á næturnar getur dregið töluvert úr ölvunarakstri. Þá er líklegt að færri freistist jafnframt til þess að fara ferða sinna á rafhlaupahjóli í ölvunarástandi með tilheyrandi líkum á slysum. Það er til mikils að vinna.

Við fulltrúar Pírata, Viðreisnar, Samfylkingar og Vina Kópavogs óskuðum nýlega eftir umræðu í bæjarráði um að hefja akstur næturstrætó í Kópavog. Við viljum meðal annars skoða mögulegan áhuga nágrannasveitarfélaga okkar, Garðabæjar og Hafnarfjarðar, á að reka sameiginlega næturstrætóleið.

Bæjarráð Kópavogs hefur vísað málinu til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég bind vonir við að niðurstaðan verði þverpólitískur vilji til þess að bæta aðgengi að áreiðanlegum almenningssamgöngum. Aðgengilegur næturstrætó á sanngjörnu verði stuðlar að öruggara samfélagi fyrir okkur öll.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
bæjarfulltrúi Pírata

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar