Á aðalfundi Félags eldri borgara í Garðabæ undirrituðu Laufey Jóhannsdóttir, formaður félagsins og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri, nýjan samstarfssamning um áframhaldandi stuðning bæjarins við heilsu- og líkamsrækt eldri borgara í Garðabæ. „Það er afar ánægjulegt að geta kvatt sér hljóðs af þessu tilefni,“ sagði Almar við hópinn, en samningurinn er framhald af góðu samstarfi félagsins og bæjarins á þessu sviði. FEBG býður eldri borgurum upp á mjög fjölbreytt heilsu og líkamsræktarstarf þar sem forvarnargildi hreyfingar og heilsuræktar er haft að leiðarljósi.
Viljum halda vel utan um alla aldurshópa
Eldri Garðbæingar eru ánægðir með þjónustu sveitarfélagsins, en í nýlegri þjónustukönnun Gallup kom fram að bærinn fremstur í flokki á meðal 20 stærstu sveitarfélagana á landinu í málefnum eldri borgara. „Ég er virkilega ánægður með þær niðurstöður, þessi þjónusta skiptir okkur miklu máli. Við viljum að í Garðabæ sé haldið vel utan um alla aldurshópa. Við þurfum að hlúa að þessu mikilvæga starfi og félagsaðstöðu eldri borgara sérstaklega,“ segir Almar í samtali við Garðapóstinn en málaflokkurinn er á talsverðri hreyfingu í Garðabæ. Sem dæmi má nefna að farið verður í endurbætur á Jónshúsi í sumar og þá var smiðjan við Kirkjulund endurnýjuð síðastliðið sumar. Þá er áætlað að ný félagsaðstaða fyrir eldri borgara í Lambamýri á Álftanesi opni á næsta ári.
Miðgarður komið sterkur inn
„Fjölnota íþróttamiðstöðin okkar Miðgarður hefur svo komið sterk inn fyrir alla aldurshópa, eins og við vonuðum“ segir Almar en húsakynni Miðgarðs hafa nýst afar vel við heilsueflingu eldri borgara. Þar er góð aðstaða fyrir gönguæfingar og þrekaðstaða, en á næstu misserum verða tekin í notkun fleiri rými í Miðgarði. „Þá mun aðstaða til heilsueflingar – fyrir eldri borgara sem og aðra – stóreflast!.“
Mynd: Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Laufey Jóhannsdóttir formaður Félags eldri borgara í Garðabæ undirrita nýjan samstarfssamning