Ástu komið á óvart á 100 ára afmælisdeginum sínum

Ásta Hannesdóttir náði þeim merka áfanga sl. þriðjudag að fagna 100 ára afmæli sínu. Af þessu tilefni komu nokkir vinir hennar, Garðakórinn og nágrannar hennar á Garðatorgi 7 saman til að koma henni á óvart með fallegum afmælissöng og stuttum ávörpum henni til heiðurs. Þrátt fyrir þennan góða aldur þá geislar hreinlega af Ástu, hún er mjög hress og hún lítur ótrúlega vel út, en hún býr ein á Garðatorgi.

Á Garðatorgi tók svo við falleg dagskrá, en Garðakór, kór eldri borgara, söng fyrir hana fjögur lög og auðvitað var byrjað á afmælissöngnum og tóku allir viðstaddir undir. Halldóra Guðmundsdóttir, formaður húsfélagsins á Garðatorgi flutti ávarp sem og Almar Guðmundsson bæjarstjóri sem færði afmælisbarninu einnig blómvönd frá bænum og bæjarbúum. Þá voru keyptar fyrir hana 100 rauðar rósir sem Jóhann Baldvinsson, kórstjóri Garðakórsins, og hver kórfélagi fyrir sig ætlaði að afhenda henni, en að lokum tók hún bara við 10 rósum þar sem hún gat ekki bætt þeim við í allt blómahafið sem hún var komin með heim til sín og því fengu kórfélagar og vinir hennar á torginu eina rós með sér heim.

Búinn að vera Garðbæingur í 58 ár

Ásta er fædd í Vestur-Húnavatnssýslu miðvikudaginn 7. maí 1924. Hún var gift Karli Guðmundssyni verkfræðingi (1924-2014). Dóttir þeirra er Hólmfríður f. 3.6.1963, leikskólakennari, gift Elfari Rúnarssyni f. 29.6.1963, lögfræðingi. Börn þeirra eru: Anton Örn f. 16.9.1989, Rúnar Karl f. 23.6.1991 og Ásta Gígja f. 8.8.1997.

Foreldrar Ástu voru; Hólmfríður Ólavía Jónsdóttir og Hannes Jónsson bóndi, kaupfélagsstjóri á Hvammstanga, útgerðarmaður og alþingismaður 1927-1937.

Karl og Ásta byggðu sér hús á Bakkaflöt 7, árið 1966 og fluttu síðan á Garðatorg 7, árið 2007. Hún er því búin að vera Garðbæingur í 58 ár.

Ásta með Hólmfríði dóttur sinni

Ásta Hannesdóttir 100 ára – létt yfirlit.

· Árið 1924 hafði vorið verið fremur kalt því þrálát köld tunga norðan úr höfum lá yfir Húnaflóa. En eins og oft er í þurru og köldu vori náðu geislar sólarinnar að leika hlýtt um grundir og tún Húnavatnssýslu á fæðingardegi Ástu. (veður heim; Einar Sveinbjörnsson) Þá hlýju geisla tók Ásta með sér út í lífið og nú 100 árum síðar er ótrúlegt hvað ylur þeirra hefur vermt, – og vermir enn, – öllu hennar samferðafólki.
· Sex vikna gömul var henni komið fyrir á hestbaki og færð til skírnar að Undirfelli í Vatnsdal.
· Ásta lærði hjúkrun á Íslandi og fór síðan í framhaldsnám til Danmerkur. · Hún starfaði m.a. á Heilsuverndarstöðinni en lengst af á Vífilsstöðum eftir að hún flutti í Garðabæ. Hún var virk í félagsstarfi í Garðabæ, s.s. leikfimihópum, sundleikfimi, félagsvist eldri borgara, o.fl. · Alveg fram undir þetta hefur oft mátt rekast á hana á púttvellinum við Vífilsstaðaveg þar sem hún æfir golf. · Í október í haust varð hún fyrir því óláni að detta og brotnaði á báðum mjöðmum. En með einstökum dugnaði sínum og góðri sjúkraþjálfun á Hjúkrunarheimilinu Eir tókst henni að komast heim fyrir jól, þar sem hún sér alveg um sig sjálf, þó með góðri félagsaðstoð.
· Hún er gestrisin, minnug og skemmtileg heim að sækja og oftar en ekki eru nýbakaðar pönnukökur með rjóma í boði með kaffinu.
· Ásta er einstaklega brosmild, jákvæð og dugleg og hlý. Hún lítur reglulega til nágranna sinna til að athuga stöðuna hjá þeim og margir segja að hjúkronunarkonan blundi enn í henni. Ásta; innilega til hamingju með 100 ára afmælið.

Forsíðumynd: Ásta var himinlifandi með þessu óvæntu uppákomu í tilefni af 100 ára afmæli hennar, en með henni á myndinni er Almar Guðmundsson, bæjarstjóri, Hólmfríður Karlsdóttir, dóttir hennar og Halldóra Guðmundsdóttir formaður húsfélagsins á Garðatorgi 7 heim til sín og því fengu kórfélagar og vinir hennar á torginu eina rós með sér heim.

Afmælisbarnið ásamt nágranna sínum, Stefaníu Magnúsdóttur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar