Þreyttar húsmæður og hressir hlaupahópar taka sprettinn í Forsetahlaupi UMFÍ á morgun 9. maí

Forsetahlaup UMFÍ fer fram á morgun, fimmtudaginn 9. maí á Álftanesi. Þetta er þriðja skiptið sem hlaupið fer fram. Margir hressir hlaupahópar hafa skráð sig til þátttöku – og eru forsetaframbjóðendur velkomnir að taka þátt og máta sig við staðinn. Aldrei er að vita hverjir mæta.

Upphitun fyrir hlaupið hefst klukkan 10:00 við Álftaneslaug. Ræst verður af stað klukkan 10:30.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tekur fullan þátt í hlaupinu, sem fer fram á sama tíma og bæjarhátíðin Forsetabikarinn fer fram og því fjölmenni á staðnum. 

Hlaupið hefur síðustu tvö ár farið fram í september. Forsetakosningar í júní hafa áhrif á hlaupið og var því ákveðið að færa það fram fyrir kosningar svo Guðni geti tekið þátt. 

Margir hlaupahópar með hress og skemmtileg nöfn hafa skráð sig í Forsetahlaup UMFÍ. Þar á meðal eru Þreyttar húsmæður, Garðbæingurinn í lauginni, hlaupahópar frá KR og Stjörnunni, Víkingi, Njarðvík, Hlaupasamfélag Sigga P. og tveir skokkhópar Pólverja sem búa á Íslandi. Annar þeirra er hópurinn Zimnolubni Islandia, sem er hópur fólks sem stundar kuldaböð og sjósund. 

Forsetahlaupið er fimm kílómetra hlaup á jafnsléttu. Það hefst við íþróttamiðstöðina á Álftanesi og er hlaupið að Bessastöðum og víðar. Þetta gæti þess vegna verið ágæt upphitun fyrir forsetaframbjóðendur sem vilja máta sig við Bessastaði.

Veðurstofan spáir 8 gráðu hita og hægri breytilegri átt, þurru og björtu veðri.

Hlaupahópurinn Þreyttar húsmæður á Helgarfelli

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar