Rekstrarniðurstaða Garðabæjar jákvæð um 1.642 millj. kr. – Vöxtur og uppbygging einkenna ársuppgjörið

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2023 samþykktur á bæjarstjórnarfundi sl. fimmtudag.

Eigið fé Garðabæjar 26.778 millj. kr Rekstrarniðurstaða Garðabæjar var jákvæð um 1.642 millj. kr. fyrir A og B hluta, en útkomuspá skv. fjárhagsáætlun 2023 gerði ráð fyrir 1.696 m.kr. jákvæðum rekstrarafgangi á árinu 2023. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2023 nam 26.778 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi. Rekstrar- gjöld námu samtals 23.613 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 22.837 m.kr. Frávikið er um 3%, en verðbólga á árinu var um 8% eða um 3% yfir þjóðhagsspá sem lögð var til grundvallar við samþykkt áætlunarinnar.

Jákvæð afkoma ánægjuefni

„Miklar framkvæmdir, háir vextir og verðbólga og á heildina litið afar krefjandi rekstrarumhverfi einkenna ársreikninginn fyrir árið 2023. Í ljósi þess er jákvæð afkoma ánægjuefni. Við erum þó mjög meðvituð um að grunnrekstur bæjarins þarf að batna. Viðamiklar hagræðingaraðgerðir sem komu fram í fjárhagsáætlun ársins 2024 eru því afar þýðingarmiklar. Garðabær er gott og sterkt samfélag sem hefur vaxið hratt á undanförnum árum og við ætlum okkur að verja traustan fjárhag bæjarins,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Alls námu framkvæmir ársins 8.865 m.kr. – Miklar framkvæmdir og hóflegar skuldir

Á árinu voru tekin langtímalán að fjárhæð 4.000 m.kr. og greidd niður lán að fjárhæð 1.702 m.kr. Alls námu framkvæmir ársins 8.865 m.kr. þar af námu framkvæmdir í A hluta 7.547.m.kr. Helstu framkvæmdir ársins voru til skólabygginga og skólalóða samtals um 5.790 m.kr., til vatns- og fráveituframkvæmda 1.074 m.kr. og til gatnagerðar, hljóðvistar og stígagerðar 530 m.kr., auk fjölmargra annarra smærri verkefna.

Íbúum fjölgaði um 3,1 árinu 2023

Kennitölur í rekstri bera vott um trausta fjárhagsstöðu Garðabæjar. Skuldaviðmið nemur 96%. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 5,6% og fjárfesting ársins nam 34% af rekstrartekjum. Útsvar sem hlutfall af heildarrekstrartekjum nam 54%. Aðrar tekjur námu 30% af heildarrekstrartekjum eða sama hlutfall og árið 2022. Staða skammtímaskulda er óvenju há í árslok 2023 en það skýrist einkum af ógreiddum bygging-arréttargjöldum á uppgjörsdegi og óinnheimtum gatnagerðartekjum vegna nýrra hverfa sem eru í uppbyggingu. Á næstu misserum munu gatnagerðartekjur skila sér af auknum þunga. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru íbúar í Garðabæ 19.088. þann 1. janúar sl. og hafði fjölgað um 3,1% á árinu 2023.

Uppbygging fram undan samhliða byggingu nýrra hverfa

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á liðnum árum í Garðabæ og enn frekari uppbygging er fyrirséð á næstu árum. Traust fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa, meðal annars á Álftanesi, á Hnoðraholti og í Vetrarmýri. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti samhljóða við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 að hækka álagningarhlutfall útsvars úr 13.92% í 14,71% en jafnframt lækkaði tekjuskattur ríkisins um 0,23%. Áfram er álagningarhlutfall útsvars í Garðabæ með því lægsta meðal stærri sveitarfélaga landsins. Að auki var ráðist í víðtækar aðgerðir, sem skila eiga 500 m.kr. hagræðingu í rekstri. Ráðstöfunin er gerð til að styrkja enn frekar rekstur sveitarfélagsins og mæta kröfum um áframhaldandi framúrskarandi þjónustu.

Umfangsmiklar endurbætur hafa átt sér stað á skólahúsnæði á síðustu misserum með stórbættri aðstöðu fyrir börn og starfsmenn. Auk þess sem lokið er byggingu nýs leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti sem tók til starfa í mars sl. og einnig er verið að ljúka framkvæmdum við annan áfanga Urriðaholtsskóla sem tekin verður að fullu í notkun á næstu vikum. Útboð þriðja áfanga skólans þar sem gert er ráð fyrir íþróttasal og innisundlaug ásamt tilheyrandi kennslurýmum hefur verið auglýst.

Í þriggja ára áætlun sem var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 7. desember 2023 er lögð áhersla á áframhaldandi endurbætur á skólahúsnæði auk mikillar uppbyggingar á nýjum skóla- og íþróttamannvirkjum. Mikilvægar veituframkvæmdir eru í undirbúningi en dregið verður úr ýmsum öðrum framkvæmdum til að mæta aðhaldskröfum og hagræðingu.

Mynd: 2. áfangi Urriðaholtsskóla var tekinn í notkun í lok apríl og útboð þriðja áfanga skólans þar sem gert er ráð fyrir íþróttasal og innisundlaug ásamt tilheyrandi kennslurýmum hefur verið auglýst

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins