Mikilvægi leiksins, þýðing hans og allur áhuginn á honum mun pottþétt hafa áhrif á okkur leikmenn

Breiðablik tekur á móti FK Struga frá Norður Makedóníu í stærsta leik Íslandssögunnar á Kópavogsvelli í dag, fimmtudaginn 31. ágúst kl. 16:45 á Kópavogsvelli, en Breiðablik getur orðið fyrsta íslenska liðið til að komast í riðlakeppni Sambands-deildarinnar. Og það er ekki bara að Breiðablik skrái sig í sögubækurnar því það er mikið undir, en þau lið sem komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar tryggja sér hátt í 500 milljónir króna auk þess sem m.a. er greitt fyrir hvert stig sem liðin fá í riðlakeppninni. Breiðablik er í góðri stöðu fyrir leikinn í dag, en liðið vann fyrri leik liðanna 1-0 á útivelli með marki frá fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni, sem hefur verið sjóðandi heitur í keppninni því drengurinn er kominn með sex mörk í keppninni og er markahæstur fyrir leiki dagsins í dag.

Flott úrslit sem við náðum með baráttuvilja

Þið gerðuð virkilega góða ferð til Ohrid í Norður Makedóníu í síðstu viku þegar þið lögðuð FK Struga við mjög svo krefjandi aðstæður með glæsilegu marki frá þér. Þú hefur væntanlega verið ánægður með að landa sigri á erfiðum útivelli og hversu sterkan vilja og karakter leikmenn sýndu í leiknum? ,,Ég er virkilega ánægður með okkur að hafa sýnt mikinn karakter að fara til Norður Makedóníu og náð í góð úrslit. Það er alls ekki sjálfgefið, yfir höfuð, að ná sigri á útivelli í Evrópukeppni, hvað þá þegar maður er kominn í fjórðu umferð. Þannig þetta voru flott úrslit sem við náðum með baráttuvilja,” segir Höskuldur í viðtali við Kópavogspóstinn.

Mjög góðir í skyndisóknum

Þessi sigur setur ykkur eðlilega í góða stöðu fyrir leikinn í dag, en það er margt sem ber að varast enda eruð þið að etja kappi við mjög gott lið? ,,FK Struga er flott lið með góða einstaklinga og þeir létu okkur sannarlega hafa fyrir úrslitunum. Þeir eru mjög góðir í skyndisóknum, þannig við þurfum að passa helst að bjóða þeim ekki upp á þær.”

Erfitt að fá heilsteypta mynd á þessu Struga liði

Þú ert sjálfsagt búinn að fara margoft yfir leikinn á móti Struga sl. fimmtu- dag, eru þessi lið á svipuðum stað getulega eða hafið þið eitthvað forskot á þá fyrir utan að leika á heimavelli í kvöld? ,,Það er erfitt að fá heilsteypta mynd á þessu Struga liði eftir einn leik, sem litaðist af skrítnu veðri í seinni hálfleiknum. Sanngjörn úrslit hefðu sennilega verið jafntefli í fyrri leiknum, en við gerum kröfu á sjálfa okkur að vinna seinni leik- inn á okkar heimavelli. Það verður hins vegar ekki auðvelt eða sjálfsagt, við þurfum að eiga okkar allra besta leik vegna þess að þetta er gott lið, annars væru þeir ekki, líkt og við, að keppast um að komast í riðlakeppni í Sambandsdeildinni.”

Verð að viðurkenna að það var nauðsynegt að fá þessa hvíld

Nú var nokkuð óvæntu spili fleygt á borðið sl. sunnudag í leiknum á móti Víkingi, þið mættuð seint til leiks og 9 byrjunarliðsmenn voru hvíldir í leiknum. Hversu mikilvæga telur þú þessa hvíld vera fyrir ykkur, bæði andlega og líkamlega fyrir leikinn á móti Struga í kvöld og var þetta nauðsynlegt? ,,Já, því miður verður maður að viðurkenna að það var nauðsynlegt að fá hvíldina á milli þessara tveggja leikja á móti Struga. Annað hefði verið órökrétt. Best hefði verið að fá leiknum frestað, það var engin jafn spenntur að spila þennan Víkings- leik eins og ég, en maður má ekki láta tilfinningarnar stjórna þegar komið er á svona mikilvægan stað í Evrópukeppninni. Fyrst ekki var hægt að fá leiknum frestað, þá var það í raun og veru eina í stöðunni að hrófla aðeins til í liðinu. Að því sögðu vorum við alls ekki að kasta inn handklæðinu á móti Víkingum, þeir sem spiluðu leikinn stóðu sig heilt yfir frá- bærlega og maður er stoltur af liðinu. Það er líka dýrmætt fyrir okkur sem lið og klúbb að yngri menn fái sviðið í svona stórum leik, á móti jafn sterkum andstæðing. Menn eins og Ásgeir Helgi, Ágúst Orri, Dagur Fjelsted og fleiri munu taka stórt vaxtarskref sem leikmenn í kjölfarið. Þeir stóðu sig frábærlega, líkt og restin af liðinu.“

Hefðum viljað að KSÍ fyndi leið til þess að hjálpa okkur á þessum mikilvæga tímapunkti

Þið eruð ósáttir við að KSÍ hafi ekki tekið tilliti til ykkar aðstæðna og mikilvægi leiksins í kvöld og frestað leikn- um á móti Víkingi. Þið sýnduð óánægju ykkar í verki þegar þið mættuð seint til leiks, var rætt um að mæta bara alls ekki í leikinn og af hverju var þá snúið frá þeirri ákvörðun? ,,Já, það er alveg ljóst að við hefðum viljað að KSÍ fyndi leið til þess að hjálpa okkur á þessum mikilvæga tímapunkti. Ég er hins vegar ekkert að kippa mér mikið upp við það að svo var ekki. Eins og ég segi, þá fengu yngri leikmenn tækifæri og traust til þess að spila þennan leik og ég held að það sé dýrmæt og góð fjárfesting til frambúðar fyrir okkar lið.”

Það er alls ekki kominn leiði í hópinn

Þið eruð búnir að vera í stífri leikjadagskrá undanfarna tvo mánuði. Eruð þið farnir að finna fyrir mikilli líkamlegri og andlegri þreytu eða jafnvel leiða sem hefur þá áhrif á leik ykkar eða hafið þið náð að núllstilla ykkur í þessum leikjum og eruð enn að njóta? ,,Vissulega er stíft leikjaprógramm, en nei, það er alls ekki kominn leiði og ég upplifi ekki að leikmannahópurinnn sé úrvinda. Eins og ég horfi á þetta þá er einfaldlega verið að taka nauðsynleg og praktísk skref til þess að við eigum sem bestan möguleika á að fara alla leið í Evrópu. Þannig þvert á móti finnst mér hópurinn okkar hafa vaxið og stækkað á síðustu vikum í þessari törn: Yngri leikmenn hafa fengið stærra hlutverk í síðustu deildarleikjum og staðið sig frábærlega og á sama tíma hafa aðrir fengið kærkomna hvíld inn á milli.”

Fókusinn hefur verið aðeins meiri á Evrópukeppninni

Þetta leikjaálag virðist hafa haft takmörkuð áhrif á þig miðað við góða leiki hjá þér í Evrópukeppninni og þeirri staðreynd að þú ert markahæstur í keppninni með sex mörk. Það má eiginlega segja að þú sér á eldi hvað varðar markaskorun í Evrópukeppninni, þetta hlýtur að vera smá auka krydd í tilveruna að setja öll þessi mörk og ertu með einhverju útskýringu? ,,Já, ég er í fínu flæði í fótboltanum mínum þessa dagana og fókusinn hefur kannski verið, skiljanlega, eilítið meiri í Evrópukeppninni og ég hef hvílt síðustu þrjá deildarleiki. Hvað varðar einhverja sérstaka útskýringu á markaskorun minni í Evrópukeppninni, þá einfaldlega gengur liðinu vel, við erum búnir að vinna sex af níu leikjum, og þegar liðinu gengur vel fylgir því oft að einstaklingar blómstri.”

Við bjóðum bara pressuna velkomna

Þið getið þið getið skrifað ykkur í sögubækurnar og verið fyrsta íslenska liðið sem kemst í riðlakeppni Sambands-deildarinnar. Það er því mikið undir og háar fjárhæðir í boði fyrir liðið sem kemst áfram í kvöld. Það hefur því aldrei verið meira undir fyrir félagslið á Íslandi – heldurðu að þetta hafi mikil áhrif á leikmenn, finni fyrir aukinni pressu – verður erfitt fyrir leikmenn að stilla hausinn og er hætta á að stressið/spennan taki yfir? ,,Mikilvægi
leiksins, þýðing hans og allur áhuginn á honum mun pottþétt hafa áhrif á okkur leikmenn. Það er bara mjög eðlilegt og sennilegt að spennustigið verði hærra en venjulega og að fiðrildin flögri af meiri krafti í maganum. Það er hins vegar bara jákvætt og ekkert sem við eigum að bæla niður. Þvert á móti er þarna bara gott tækifæri til þess setja okkur upp á tærnar, í „lazer-fókus”. Þannig við bjóðum bara pressuna velkomna og ég er á þeirri skoðun að við sýnum okkar bestu hliðar þegar hvað mest er undir.”

Það er vissulega mikið undir fyrir okkur leikmenn

Mér skilst líka að það sé mikið undir fyrir leikmenn að komast áfram, ekki eingöngu vegna þess að Breiðablik getur verið fyrst íslenskra liða til að komast í riðlakeppnina heldur hafi Breiðablik samið þannig við leikmenn liðsins að þeir fengju mjög góða upphæð af Evrópupeningunum sem liðið fengi fyrir að komast í riðlakeppnina og við erum að tala um litlar 492 millljónir. Stemmir það og heldurðu að það muni hafa áhrif á leikinn og leikmenn Breiðabliks? ,,Það er vissulega mikið undir fyrir okkur leikmenn, en fyrst og fremst á þann veg að við erum í stöðu til þess að komast í sögubækurnar með því að verða fyrsta íslenska félagsliðið að komast í riðlakeppni í Evrópukeppni. Það er í okkar höndum og það eru forréttindi, eða fríðindi, að vera í þeirri stöðu. Hitt, er varðar árangurstengdar greiðslur til leikmanna, er síðan bara einkamál innan klúbbsins og langt frá því að vera það sem er að drífa okkur áfram í þessu verkefni.”

En eins og við höfum nefnt áður, þá hefur þetta verið mikil leikjatörn hjá ykkur og ef þið klárið leikinn í kvöld þá bætast í það minnsta við sex leikir í viðbót, og síðasta leikurinn í riðlakeppninni er 14. desember. Þið grátið það ekkert að spila knattspyrnu fram í miðjan desember? ,,Það væri auðvitað bara ótrúlega skemmtilegt og einstök upplifun. Þannig við munum gera allt í okkar valdi til þess að láta verða af því.”

Þetta er engin klisja

Það er eðlilega mikill áhugi á leiknum og uppselt, það ætti að gefa ykkur smá aukaorku að fá góðan stuðning frá ykkar fólki? ,,Já, það er engin klisja að góður stuðningur og fjölmenn mæting á völlinn gefur liðinu aukna orku. Ég vona því Kópavogsbúar finni sinn innri Breta og láti vel í sér heyra á leiknum,” segir Höskuldur að lokum.
Þess má geta ef Breiðablik kemst áfram þá verður dregið í riðla á morgun, föstudaginn 1. september í Grimaldi Forum í Monaco. 32 lið verða í pottinum þegar dregið verður og er liðunum styrkleikaskipt. Leikdagar eru 21. september, 5. og október, 9. og 30. nóvember og lokaleikur riðilsins er 14. desember. Tvö efstu lið hvers riðils komast áfram í 16 liða útsláttarkeppni.

Það eru mörg stór lið í keppninni og lið eins og Aston Villa, Fiorentina, Lille, Club Brugge, Fenerbahce, AZ Alkmaar og Frankfurt geta verið í pottinum ásamt Breiðablik þegar dregið verður á morgun.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar