Guðjón hefur starfaði með 11 bæjarstjórnum og 5 bæjarstjórum

Það voru nokkuð stór tímamót, í sögu Garðabæjar má segja, þegar Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari Garðabæjar, óskaði eftir lausn frá störfum með sex mánaða fyrirvara frá og með næstu mánaðarmótum, á fundi bæjarráðs sl. þriðjudag.

Íbúum í Garðabæ fjölgað úr 5.800 í tæplega 20.000 á vakt Guðjóns

Guðjón hóf störf sem bæjarritari hjá Garða- bæ í ársbyrjun 1984 eða fyrir nærri 40 árum. Hann hefur starfað með 11 bæjarstjórnum og fimm bæjarstjórum, lengst með Gunnari Einarssyni eða í 17 ár. Íbúar í Garðabæ árið 1984 voru um 5.800 en þeir eru nú tæplega 20 þúsund.

Vill koma á framfæri þakklæti

Í bréfi sem Guðjón sendi á bæjarráð kemur fram að hann vilji, á þessum tímamótum, nota tækifærið og færa öllum þeim bæjarstjórnum sem hann hefur starfað með frá árinu 1984 þakkir fyrir samstarfið og það traust sem honum hefur verið sýnt að fá að gegna þessu mikilvæga starfi í Garðabæ. ,,Ég lýsi því jafnframt yfir að ég er reiðbúinn til að sinna verkefnum fyrir sveitarfélagið að liðnum lausnartíma við frágang mála og aðstoða nýtt fólk sem mun koma til starf við stjórnsýslu Garðabæjar.” segir í bréfinu.

,,Varðandi starfslokin að þá eru þau óumflýjanleg í starfi sem þessu m.t.t. til aldurs og góður tími að hætta á miðju kjörtímabili,” segir Guðjón er Garðapósturinn spurði um ástæðu þess að hann væri að láta af störfum.

Ætlar að vakna seinna á morgnana

En er Guðjón farinn að velta fyrir sér hvað taki við? ,,Rólegheit. Eins og þú kannksi veist að þá tek ég yfirleitt daginn snemma þannig að ég ætla að byrja á því að vakna seinna á morgnana,” segir hann brosandi, en það dylst engum að það er mikill missir af Guðjóni, bæði fyrir samstarfsmenn hans hjá Garðabæ sem og íbúa í Garðabæ enda Guðjón öllum hnútum kunnugur eftir nærri 40 ár í starfi sem bæjarritari Garðabæjar. Það er sagt að maður komi í manns stað, en það má vissulega efast um það í tilfelli Guðjóns.

Mynd: Guðjón Erling íbygginn á svip þegar tilboðsumslög voru opnuð í lóðir í Hnoðraholti norður í júlí sl.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar