Kynna spennandi skipulag fyrir Arnarland klukkan 17 í dag

Kynningarfundur Garðabæjar um skipulag Arnarlands (einnig þekkt sem Arnarnesháls) verður haldinn í Sveinatungu Garðatorgi 7, fimmtudaginn 31. ágúst, kl. 17:00 – 18:30. Á fundinum verða tillögurnar fyrir hverfið, sem enn eru á vinnslustigi, kynntar og spurningum svarað.

Í kjölfar fundarins verða tillögurnar að-gengilegar á vef Garðabæjar og í þjónustuveri bæjarins til 25. september n.k.

Garðapósturinn heyrði í Björgu Fenger, formanni skipulagsnefndar Garðabæjar og spurði nánar út í þær skipulagsbreytingar sem eru í forkynningu og þá uppbyggingu sem stefnt er að á svæðinu.

Það liggur beinast við að spyrja Björgu hvar er Arnarland í Garðabæ og hvað á að gera þar? „Arnarlandið, sem er skipulagssvæðið sem um ræðir, hefur alla tíð verð óbyggt þrátt fyrir að lengi hafi verið gert ráð fyrir uppbyggingu á svæðinu í aðalskipulagi,“ segir Björg, en svæðið afmarkast af Hafnarfjarðarvegi, Arnarnesvegi, Fífuhvammsvegi og bæjarmörkum við Kópavog. Aðkoma að svæðinu verður frá Fífuhvammsvegi og um göng undir Arnarnesveg frá Akrabraut.

Mjög vel staðsett með tilliti til samgangna og þjónustu

„Arnarland er mjög vel staðsett með tillit til samgangna og þjónustu enda liggur það nokkuð miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björg og bætir við: „Tillagan sem nú er kynnt gerir ráð fyrir blandaðri byggð, með áherslu á heilsutengda starfsemi og uppbyggingu íbúðabyggðar meðal annars í samræmi við markmið um uppbyggingu á samgöngum og þróunarás.“

Lækka á hámarkshæð bygginganna

Samkvæmt Björgu eru breytingar frá gildandi skipulagi meðal annars þær að lækka á hámarkshæð bygginganna á svæðinu. „Hámarkshæð bygginga á svæðinu lækkar almennt úr 8 hæðum í 3-6 hæðir. Tillagan gerir ráð fyrir einni kennileitisbyggingu sem getur að hluta orðið allt að níu hæðir, en sú bygging er næst Hafnarfjarðarveginum.“

Vistvænt og góðar tengingar

Skipulaginu er ætlað að stuðla að sjálfbærri og umhverfisvænni byggð með góðu aðgengi að verslun og þjónustu, góðum vistvænum samgöngum, skilvirkum gatnatengingum og góðum tengingum við nærliggjandi stígakerfi og náttúru.

500 íbúðir í Arnarlandi

Í tillögunni er þess vegna gert ráð fyrir miðlægu torgi, grænum geira, útivistarstíg og dvalar- og hreyfisvæðum en hvað verður þarna raunverulega? „Við búumst við um það bil 500 íbúðum í Arnarlandi, en einnig er gert ráð fyrir um 40.000 m2 af verslunar-, þjónustu- og skrifstofurýmum þar sem áherslan verður á heilsutengda þjónustu og fyrirtæki innan heilsugeirans,“ segir Björg og bætir við: „Áhersla er lögð á að uppbygging á svæðinu styrki nærumhverfið og nýtist bæði nýjum íbúum og gestum sem og þeim sem búa í nálægð við svæðið.

Hvetur fólk til að hafa samband

Gert er ráð fyrir að fullmótuð tillaga verði kynnt og auglýst veturinn 2023/2024, en Björg segir að þrepin séu mörg í slíku ferli og nú sé mikilvægt að fá skoðanir fólks á tillögunum. „Eins og alltaf viljum við gera þetta í góðu samráði. Skipulagslýsing af svæðinu var auglýst í febrúar 2022 en það er fyrsta skref í skipulagsvinnunni, í kjölfar lýsingarinnar hafa verið haldnir samráðsfundir og vinnustofur með völdum hagsmunaaðilum til að leggja grunn að þeirri tillögu sem nú er forkynnt. Í kjölfarið á kynningarfundinum á fimmtudaginn verður tillagan aðgengileg á vef Garðabæjar sem og í þjónustuveri bæjarins. Tilgangur forkynningarstigs er að kalla eftir ábendingum og innleggi við tillögu sem enn er á vinnslustigi þannig að unnt sé að taka þær til skoðunar og móta tillögu að deiliskipulagi. Ég vil hvetja alla sem telja sig eiga hagsmuna að gæta að senda inn skriflegar athugasemdir til og með 25. september nk., annað hvort á netfangið [email protected] eða á bæjarskrifstofur Garðabæjar, Garðatorgi 7.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar