Menningarveturinn að hefjast í Kópavogi

Litskrúðug stemning ríkir í Menningarhúsunum í Kópavogi laugardaginn 3. september og mikið um dýrðir. Ókeypis er á alla viðburði og sýningar í tilefni dagsins og útgáfu glænýs og menningartímarits MEKÓ fagnað en við sama tilefnið verður ný vefsíða opnuð.

Farið á dýptina í nýju tímariti

„Þetta er þriðja árið í röð sem ráðist er í útgáfu menningartímarits hér í Kópavogi“ segir Íris María Stefánsdóttir, ritstjóri tímaritsins en Íris er markaðs og kynningarstjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ. „Þarna gefst bæði kostur á að kynna sér menningarveturinn fram undan og kafa aðeins á dýptina með listafólki og öðrum sem við erum að starfa með enda af nógu að taka“. Í blaðinu má meðal annars finna viðtöl við Góa Karlsson bæjarlistamann Kópavogsbæjar, Brynju Hjálmsdóttur handhafa Ljóðstafs Jóns úr Vör, ungmenni sem skipa unglingaráð Gerðarsafns og Bjarna Snæbjörnsson leikara en sýning hans Góðan daginn, faggi, verður sýnd fyrir alla tíundu bekkinga í grunnskólum Kópavogs í Salnum nú í nóvember. Hægt verður að nálgast blaðið ókeypis í Menningarhúsunum og hvetjum við öll til að nálgast það hjá okkur og kynna sér jafnframt hvað verður á boðstólum hjá okkur í vetur“ segir Íris María.

Á Bókasafni Kópavogs mun Anja Ísabella Lövenholdt leiða ævintýralega stenslasmiðju í Múmíndal fyrir börn og fjölskyldur en smiðjan tengist hinu viðamikla verkefni Vatnsdropinn sem Kópavogsbær gengst fyrir í samstarfi við H. A. Andersen-safnið í Óðinsvéum, Múmínsafnið í Tampere og Undraveröld Ilons í Haapsalu.

Sjónhverfingar, stenslasmiðja og frauðtertugerð

Á laugardaginn, 3. september, verður fjölbreytt dagskrá í tilefni þess að menningarveturinn er að hefjast og mun dagskráin standa yfir frá kl. 13. Sirkus Ananas, töframaðurinn Einar Aron og sönghópurinn Tónafljóð munu skemmta börnum og fjölskyldum með sjónhverfingum, jafnvægislistum, loftfimleikum og fjörugum lögum í fordyri Salarins.

Á Bókasafni Kópavogs mun Anja Ísabella Lövenholdt leiða ævintýralega stenslasmiðju í Múmíndal fyrir börn og fjölskyldur en smiðjan tengist hinu viðamikla verkefni Vatnsdropinn sem Kópavogsbær gengst fyrir í samstarfi við H. A. Andersen-safnið í Óðinsvéum, Múmínsafnið í Tampere og Undraveröld Ilons í Haapsalu.

Í Náttúrufræðistofu mun listamannateymið Gorklín bjóða upp á stórskemmtilega frauðtertuskreytingar fyrir fjölskyldur en Gorklín starfaði með Skapandi sumarstörfum í Kópavogi í sumar og sló meðal annars í gegn með frauðtertuskreytingarnámskeiði á 17.júní á Náttúrufræðistofu.

Í Gerðarsafni stendur nú yfir sýningin Alda sem er áhrifarík innsetning á mörkum dans og myndlistar og flutt af hópi kvendansara.

Dansinn dunar í Gerðarsafni

Í Gerðarsafni stendur nú yfir sýningin Alda sem er áhrifarík innsetning á mörkum dans og myndlistar og flutt af hópi kvendansara. Þar sækir danshöfundurinn Katrín Gunnarsdóttir í sögu líkamlegrar vinnu kvenna og skoðar sérstaklega endurteknar hreyfingar og söngva en sýninguna vann hún í samstarfi við Evu Signýju Berger hönnuð og Baldvin Þór Magnússon hljóðlistamann. Þær Katrín og Eva Signý munu leiða danssmiðju fyrir grunnskólabörn og fjölskyldur á Gerðarsafni þar sem litríkir efnisstrangar ummyndast í furðuverur, minnsta hreyfing bærir efnið og myndar hrífandi sjónhverfingar.

Frá 14 – 16 mun listamannateymið Improv for Dance Enthusiasts svo bjóða upp á leikandi léttan dansspuna og dansæfingar fyrir alla aldurshópa og alla líkama inni í sýningum í Gerðarsafni. Stuttar og skemmtilegar æfingar í því skyni að skynja rými listasafnsins á nýjan leik. Þar verður sýningin Við getum talað saman einnig í brennidepli en sýningin er afrakstur samstarfsverkefnisins Platform GÁTT sem er samstarfsverkefni fimm stórra listahátíða og stofnana á Norðurlöndunum.

Fjölbreytileikinn og fagmennskan eru leiðarljósið

„Menningarveturinn framundan verður afar spennandi“ segir Elísabet Indra Ragnarsdóttir verkefna – og viðburðastjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ. „Metnaðarfullar tónleikaraðir og framúrskarandi sýningar, fræðsluverkefni, fastar viðburðaraðir auk þess sem bryddað verður upp á nýjungum í samstarfi. Í Menningarhúsunum er algerlega einstakt andrúmsloft, fagmennska, metnaður og alúð sem gerir það að verkum að gestum líður eins og heima hjá sér. Ég hvet öll að kynna sér starfsemina hjá okkur, bæði í glæsilegu tímariti sem kemur út á laugardaginn en þá verður líka opnuð glæný og glæsileg vefsíða meko.is þar sem má nálgast þá metnaðarfullu menningarstarfsemi sem má njóta í Kópavogi segir Elísabet Indra og hlakkar til að sjá sem flest á laugardaginn þegar haustinu verður heilsað á Karnivali í Kópavogi.

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar styrkir Karnival í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar