Varptímabil máva hefst í lok maí – byrjun júní en með því að byggð færist að hefðbundnum varplöndum þá verður nábýli máva og íbúa umtalsvert. Garðabær hefur staðið fyrir fræðslu til íbúa í þeirri von að þeir geti búið í námunda við Gálgahraun og Arnarnesvog í sátt og samlyndi við náttúruna sem þar er.
Ekki má hrófla við varpi í friðlandi bæjarins.
Fuglafræðingar telja fjölda máva ekki óeðlilega mikinn í Garðabæ en stofninn sveiflast með fjölda síla í sjónum. Þegar þeim fækkar sækir mávurinn meira upp á land í leit að æti.
Meindýraeyðar hafa bent á að eigendur húsnæðis eða húsfélög geti t.d. sett upp fælur á þök, eins konar veifur. Mikilvægt er að fylgjast með þökum og öðrum setstöðum reglulega til að koma í veg fyrir að önnur hreiður verði gerð á sama stað.
Meindýraeyðir á vegum Garðabæjar hefur límt fuglagadda á alla ljósastaura í Sjálandi og víðar í bæjarfélaginu til að mávar geti ekki hafst við á staurunum auk þess verður stungið á egg mávanna eins og undanfarin ár (þ.e.a.s. egg sem ekki eru í friðlandi bæjarins). Fleiri fuglagaddar verða settir upp nú á næstu vikum , meðal annars á ákveðnum stöðum á Álftanesi.
Þegar varptími Máva hefst geta íbúar gripið til ýmissa aðgerða:
- Íbúar eru hvattir til þess að fylgjast með þökum sínum og öðrum stöðum sem mávar gætu nýtt sem varpstaði eða set staði.
- Húsfélög eru hvött til að standa saman að því að vakta húsþök á fjölbýlishúsum.
Þrjár aðferðir hafa reynst bestar við að stemma stigu við áganginum, en þær eru:
- truflun,
- eggjaeyðing og/eða
- eggjatínsla (þ.e.a.s. sem ekki eru í friðlandi bæjarins).
- Meindýraeyðar geta aðstoðað við að fjarlægja hreiður mávanna eða unga.
- Þá er afar mikilvægt að loka fyrir fæðuuppsprettur af mannavöldum – svo sem rusl, fæðuafganga, brauðgjafir o.fl. Matargjafir til smáfugla eru þar auðvitað undanskildar, en matarafgangar sem settir eru á opin svæði eða göngustíga geta laðað að mávana.