Meirihlutinn heldur velli í Kópavogi

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins heldur velli í Kópavogi. Sjálfstæðisflokkurinn tapar að vísu einum bæjarfulltrúa, fer úr fimm í fjóra, en Framsóknarflokkurinn bætir við sig einum kjörnum fulltrúa og er nú með tvö fulltrúa í stað eins.

Vinir Kópavogs, sem er nýr flokkur, komu heldur betur á óvart og fengu tvo kjörna bæjarfulltrúa og í raun er flokkurinn orðinn næst stærsti flokkurinn í Kópavogi á eftir Sjálfstæðisflokknum.

Sex listar fengu fulltrúa kjörna í bæjarstjórn en voru 5 áður. Vinir Kópavogs bætast í hóp Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar. Miðflokkurinn náði ekki inn kjörnum fulltrúa.

Samfylkingin og Viðreisn töpuðu einum bæjarfulltrúa hvor flokkur líkt og Sjálfstæðisflokkurinn.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,3% atkvæða, Vinir Kópavogs fengu 15,3% fylgi, Framsóknarflokkurinn fékk 15,2% atkvæða, Viðreisn 10,7%, Píratar fengu 9,5% fylgi og bættu við sig fylgi frá síðustu kosningunum en náðu ekki inn auka manni í bæjarstjórn og þá fékk Samfylkingin 8,2% atkvæða.

Mjög líklegt þykir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn muni endurnýja samstarfið.

Kjörsókn í Kópavogi var aðeins 58,2% sem er töluvert minni kosningaþátttaka en árið 2018, sem var 63,4%

Mind: Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins og Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknarflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar