Fimmtudaginn 6. maí sl. tóku bæjarfulltrúar í Garðabæ ásamt formanni leikskólanefndar skóflustungu að nýjum leikskóla við Kauptún í Garðabæ. Hress og kát börn úr kór leikskólans Hæðarbóls í Garðabæ mættu á svæðið og sungu fyrir viðstadda á athöfninni. Urriðaból verður 6 deilda leikskóli í húseiningum sem verða reistar á staðnum og tekur til starfa haustið 2022. Garðabær leigir einingahúsin af Terra og er leigusamningurinn gerður til sjö ára með kauprétti.
Leikskólinn Urriðaból er undanfari nýs 6 deilda leikskóla fyrir allt að 120 börn við Holtsveg í Urriðaholti sem verður tekinn í notkun haustið 2023. Fyrr í vor auglýsti Garðabær eftir rekstraraðila að þessum nýja leikskóla og viðræður standa yfir við áhugasama aðila um rekstur leikskólans.
Urriðaholt – hverfi í vexti
Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring.
Árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu á nýjum leikskóla í Urriðaholti við Holtsveg og byggingarframkvæmdir við þann skóla hefjast á þessu ári. Vegna mikillar fjölgunar barna á leikskólaaldri í Urriðaholti var ákveðið að brúa bilið þar til leikskólinn rís við Holtsveg og hefja starf leikskólans í einingahúsum sem nú rísa við Kauptún fyrir neðan Urriðaholtið.
Á síðasta ári tók nýr leikskóli, Mánahvoll, til starfa við Vífilsstaði í Garðabæ til að mæta fjölgun leikskólabarna í bænum. Undanfarin ár hafa nánast öll börn í Garðabæ sem eru orðin 12 mánaða þegar skólaár hefst í september átt kost á leikskóladvöl.