Megum ekki gleyma grunngildunum

Umfang Breiðabliks hefur aldrei verið meira og til marks um það hefur Breiðablik leikið 1164 fótboltaleiki í öllum flokkum og í öllum mótum það sem af er á árinu 2023. Það má því segja að það séu rúmlega 3 leikir leiknir á degi hverjum alla daga ársins hjá félaginu. Þá eru ótaldir leikir í Símamótinu og öðrum boðs- og helgarmótum sem félagið tekur þátt í eða leikir hjá venslafélögum Breiðabliks þ.e. Augnablik og Smárinn segir Ásgeir Baldurs formaður Breiðabliks í viðtali við Kópavogspóstinn.

Hann bætir svo við að fyrir utan knattspyrnuna er blómlegt starf í hinum 12 deildum félagsins og eru iðkendur félagsins rétt tæplega 4000 þúsund talsins í heildina.

Aðstöðumálin eru mikilvægasta verkefnið

,,Íbúum á nær svæði Breiðabliks mun fjölga um 20 þúsund á næstu árum og félagið verður að hafa tækifæri til að vaxa í samræmi við það til að halda áfram að veita íbúum bæjarins mikilvæga þjónustu. Því er mjög mikilvægt að félagið hafi aðstöðu til að vaxa. Núna er í gangi vinna um heildarskipulag Kópavogsdalsins, sem er í aðalskipulagi skilgreindur sem íþróttasvæði Breiðabliks, bæði núverandi og til framtíðar. Við sjáum fyrir okkur að bætt aðstaða fyrir starfsemi Breiðabliks og útivist á þessu fallega svæði fari afar vel saman og tengi saman samfélagsþjónustu og græn opin svæði. Við bíðum því spennt eftir að komast í virkt samtal við Kópavogsbæ um uppbyggingu okkar í dalnum og móta framtíðarsýn fyrir hjartað í starfsemi okkar sem er í Smáranum. Þrátt fyrir þetta leggjum við að sjálfsögðu einnig mikla áherslu á þjónustu við íbúa á öðrum svæðum,” segir Ásgeir og heldur áfram: ,,Aðstaða fyrir knattspyrnu er góð, en fjöldi iðkenda er að sprengja félagið og einnig þarf að takmarka notkun á Kópa- vogsvelli til þess að gervigrasið standist kröfur þannig að hægt sé að nota völlinn í Evrópukeppnum.”

Þröngt um deildir

,,Frjálsíþróttadeildin býr við óviðunandi aðstöðu, bæði innanhúss og utan. Innanhússaðstaðan er í Fífunni þar sem er mjög þröngt. Einnig er Kópavogsvöllur ekki lengur löglegur frjálsíþróttavöllur eftir að gervigras var sett á völlinn. Einnig er mjög þröngt um aðrar deildir og sem dæmi má nefna að karatedeild félagsins er með æfingar sínar í fundaraðstöðu félagsins.Þrátt fyrir aðstöðuleysi víða eru margir jákvæðir hlutir að gerast og má þar nefna að vonandi mun aðstaðan í Bláfjöllum þar sem Skíðadeild Breiðabliks starfar batna verulega með tilkomu snjóframleiðslu og annarra framkvæmda. Þá er kraftlyftingadeild Breiðabliks komin með flotta aðstöðu uppi í Digranesi.

Við skiljum vel að Kópavogsbær þarf að fara vel með fjármagn og það eru mörg mikilvæg verkefni sem þarf að sinna og því er mikilvægt að sýna útsjónarsemi og leita nýrra leiða við fjármögnun aðstöðu og uppbyggingar bæði í íþróttastarfsemi, sem og í annarri uppbyggingu. Við erum hins vegar afar þakklát fyrir þann stuðning sem bæjaryfirvöld hafa sýnt félaginu og íþróttum í Kópavogi almennt og hefur uppbygging íþróttamannvirkja í bænum undanfarna áratugi haft mikið að segja um hversu blómlegt íþróttastarf er í Kópavogi. Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut og sýna áfram stórhug,” segir Ásgeir.

Íþróttafélög eru samfélagsverkefni

,,Íþróttir eru veigamikill þáttur í samfélagi fólks víða um heim. Við Blikar höfum sannarlega kynnst því síðustu ár með þátttöku í Evrópukeppnum og öðrum alþjóðlegum mótum. Í Kópavogi sinnir Breiðablik mikilvægu verkefni í forvarnarstarfi barna- og unglinga þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Smárinn er líklega stærsta félagsmiðstöð landsins þar sem ungir sem aldnir koma saman, stunda íþróttir og eiga samskipti. Það sem ég er stoltastur af í félaginu er samtakamátturinn og aflið í sjálfboðaliðastarfinu, hvort sem um er að ræða um framkvæmd móta eins Kópavogshlaupið, Kópavogsþríþrautina, meistaramót í frjálsum, Símamótið eða framkvæmd leikja í Sambandsdeild Evrópu. Allt kallar þetta á fjölda starfsfólks og sjálfboðaliða sem standa vaktina fyrir félagið sitt í sínum frítíma. Einnig hefur starfsfólk Breiðabliks unnið ótrúlegt starf á annasömu ári þar sem stutt hefur verið á milli stórra viðburða hjá félaginu.”

Breiðablik er uppeldisfélag

,,Síðustu ár hafa verið ævintýraleg fyrir félagið þar sem félagið hefur tekið þátt í stórum keppnum á alþjóðlegum vettvangi. Það hefur verið sérlega ánægjulegt að sjá uppalda Blika og skólafélaga úr grunnskóla í Kópavogi etja kappi við stórlið í Evrópu fyrir framan tugi þúsunda áhorfenda og í beinum útsendingum um alla Evrópu. Hugmyndafræði Breiðabliks og grunngildin eru þau að félagið er öllum opið sama hvert getustigið er. Síðan þró- ast sumir í að verða afreksfólk en aðrir fá út úr starfinu þá reynslu að kunna vera hluti af liði og eignast vini fyrir lífstíð. Ég hef tekið eftir því í störfum mínum í atvinnulífinu að maður sér að þeir hafa stundað íþróttir í æsku eiga mun auðveldara með að aðlagast í hóp og verða hluti af liðsheild á þeim vettvangi.

Við sem félag megum ekki gleyma hver grunngildi okkar eru og jafnvel þó svo það sé mikilvægt að styrkja lið Breiðabliks með öflugum einstaklingum, má ekki gleyma því að tilgangurinn með afreksstarfinu í meistaraflokkum er að gefa ungu fólki tækifæri til að spila á stóra sviðinu og ná sem lengst í sinni íþrótt. Því þurfum við að leggja áherslu á að vera með framúrskarandi umgjörð, þjálfun og aðstöðu til æfinga og keppni, en á sama tíma gefa ungu íþróttafólki tækifæri og það fái mínútur á leikvellinum.

Þetta hefur gengið vel í fótboltanum undanfarin ár og má nefna að Breiðablik er meðal 6 bestu uppeldisfélaga í Evrópu þegar kemur að því að ala upp leikmenn fyrir deildir í Evrópu.

Við viljum hafa þessa stefnu sem fyrirmynd í öðrum deildum og má nefna að stjórn Körfuknattleiksdeildar Breiðabliks hefur tekið þessa stefnu upp og mun gefa ungum uppöldum leikmönnum meira tækifæri en gengur og gerist í efstu deildum í körfubolta á Íslandi þar sem erlendir leikmenn hafa leikið meirihluta mínútna. Að framfylgja svona stefnu kallar á hugrekki og getur verið erfiður skóli því leikmenn koma ekki alltaf full-mótaðir inn á sviðið. En ef við förum ekki út fyrir þægindarammann þá verða engar framfarir. Þetta getur kallað á leiðinlega umræðu í fjölmiðlum og hlaðvarpsþáttum hjá þeim sem eru að hrópa á athygli með gildishlöðnum fullyrðingum, en þá er mikilvægt að hafa sterk bein og vera samstíga í að fylgja stefnunni. Þannig verður til langtíma árangur og fleira afreksfólk,” segir hann.

Heilbrigður fjárhagur er grunnurinn að góðu starfi

Talsvert hefur verið fjallað um miklar tekjur Breiðabliks og einnig um myndar-legan arf sem félagið fékk. Aðspurður segir Ásgeir að vissulega sé það ánægjulegt að velgengni fylgi miklar tekjur en menn gleymi alveg að horfa gjaldahliðinu í þessum efnum. ,,Þátttaka í Evrópukeppni sé mjög kostnaðarsöm og mikið um ferðalög og annan kostnað samfara því. Einnig er það ljóst að félagið getur ekki stólað á slíka tekjupósta á hverju ári, því tekjur félagsins eru mjög óreglulegar, eru miklar eitt árið og mun minni það næsta, allt eftir árangri og hvernig sala leikmanna til erlendra liða gengur. Því verður að horfa á fjármál félagsins yfir lengra tímabil. Það er enginn launung að við ætlum að vera í fremstu röð á Íslandi og með samkeppnishæft lið í Evrópu. Það kostar fjármuni og þá fjármuni viljum við fara vel með, nýta á skynsamlegan hátt til að bæta umgjörðina og til að bæta íþróttafólkið okkar. Virðing og skynsemi í öllu sem við gerum á að vera grunngildi félagsins. Á það bæði við innan sem utan vallar og er meðferð fjármagns þar ekki undanskilið. Það má ekki gleyma því að stór hluti umfangs Breiðabliks er unnin í sjálfboðavinnu og þar með talin fjáröflun félagsins. Það er fátt eins lýjandi og niðurdrepandi fyrir stjórnarfólk í sjálfboðaliðastarfi að þurfa svara fyrir tóman peningakassa. Þess ber að geta allt stjórnar- og nefndarfólk Breiðabliks eru sjálfboðaliðar og gefa vinnu sína,” segir Ásgeir og bætir við: ,,Varðandi myndarlega peningagjöf sem Guðmundur Eggert Ólafsson heitinn lét félaginu eftir í arf þá er það dæmi um hversu miklu máli íþróttafélag skiptir í hjörtum og huga fólks. Lífið væri svo sannarlega fátækara fyrir fjölmarga einstaklinga ef ekki væri fyrir íþróttirnar og það að eiga sitt uppáhaldslið.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar