Máttur lesturs „ The Power of Reading“ – Erasmus+ samstarfsverkefni leikskóla

Árið 2020 fékk leikskólinn Arnarsmári styrk frá Evrópusambandinu ásamt leikskólum í fimm löndum til að vinna saman að Erasmus+ samstarfsverkefni varðandi læsi. Verkefnið heitir „The Power of Reading“.

Meginmarkmið með þessu verkefni var að auka áhuga á læsi í víðum skilningi og að auka gæði og fjölbreytileika í kennslu með börnum á leikskólaaldri. Löndin sem tóku þátt í verkefninu ásamt Íslandi voru: Spánn, Ítalía, Króatía, Grikkland og Eistland. Spánverjar voru stjórnendur verkefnisins og héldu utan um það. Í verkefninu fólst að kennarar í þátttökuskólunum kynntu hvernig unnið var með læsi í hverjum skóla fyrir sig.

Hlutverk kennara leikskólans Arnarsmára í verkefninu var að kynna samræðulestur og hvernig unnið er með læsi í útikennslu. Kennarar frá Eistlandi kynntu hvernig unnið er með tækni og læsi. Hlutverk Ítölsku kennarana í verkefninu var að kynna hvernig unnið er með fjölbreytileika og staðalímyndir í bókmenntum.  Grísku kennararnir kynntu hvernig unnið er með lestur og sögugerð.  Króatísku kennararnir kynntu hvernig hægt er að nota bækur í lausnir á vandamálum og spænsku kennararnir hvernig hægt er að nota læsi tengda tilfinningum. Það er mjög mikilvægt að byrja snemma að lesa fyrir/með börnum því það hefur áhrif á allan þroska barnsins. Allir kennararnir sem tóku þátt í verkefninu voru sammála um að það þurfi að vekja áhuga leikskólabarna á bókum og vekja foreldra til umhugsunar um hversu mikilvægur bókalestur er fyrir börnin. Kennarar í þátttökulöndunum fóru í heimsóknir milli landa , hlustuðu á fyrirlestra og tóku þátt í vinnustofum sem hvert land bauð upp á. Þátttakendur heimsóttu bókasöfn þar sem þeir fengu kynningar á hvernig unnið er með bækur og börn á margvíslegan hátt, einnig heimsóttu þátttakendur söfn sem og alla þátttökuskólana. Langtímaniðurstöður verkefnisins eru að börn fái meiri áhuga á lestri, jákvætt viðhorf gagnvart bókum sem allt ætti að skila sér í betri námsárangri til framtíðar fyrir börnin. Verkefnið kemur til með að auka á fjölbreytilega kennslu í leikskólanum. Í lok verkefnis var gefin út í bók sem inniheldur allar þær góðu kennsluaðferðir sem þátttakendurnir kynntust og geta notað í sinni kennslu í framtíðinni.

Erasmus+ samstarfsverkefni eru mikilvæg viðbót inn í starf kennara, þar sem tenging verður milli skóla í mismunandi löndum, kennarar skiptast á hugmyndum um fjölbreyttar kennsluaðferðir sem börnin njóta í námi sínu í leikskólanum.

Hildur Kristín Helgadóttir aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Arnarsmári

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar