Markmiðið er einfaldlega að gefa allt til þess að komast upp úr riðlinum

Það er merk tímamót í dag en þá leikur Breiðablik sinn fyrsta heimaleik í riðlakepppni Sambandsdeildarinnar er lið Zorya Luhansk mætir á Laugardalsvöll, heimavöll Breiðabliks í keppninni og hefst leikurinn kl. kl. 16:45.

Breiðablik lék gegn Maccabi Tel Aviv á Bloomfield Stadium í Ísrael í fyrstu umferð keppninnar og tapaði með 3-2 í hörkuleik þar sem Breiðablik byrjaði af krafti í leiknum en fengu m.a. á sig mörk sem maður sér ekki á hverjum degi í fótboltanum. Þrátt fyrir að lenda 3-0 undir sýndu Blikar styrk sinn og héldu áfram að leika sinn leik sem skilaði þeim tveimur mörkum og þeir hefðu hugsanglega getað jafnað leikinn.

Leikurinn skilur eftir súrsætt bragð

Kópavogspósturinn spurði Höskuld Gunnlaugsson, fyrirliða og markahæsta leikmann Breiðabliks í Evrópukeppninni, hvað sá leikur hafi skilið eftir sig? ,,Fyrst og fremst skilur leikurinn úti á móti Maccabi Tel Aviv skemmtilegar og dýrmætar minningar. Þetta var fyrsti leikur í sögu íslensks félagsliðs í riðlakeppni í Evrópukeppni og að fá að upplifa þann viðburð er ótrúlega gaman fyrir okkur sem hóp. Leikurinn sjálfur skilur eftir sig súrsætt bragð. Á sama tíma og við erum stoltir af okkur að hafa mætt með kassann úti og gefið þessu sterka liði alvöru leik á þeirra heimavelli, þá var leiðinlegt að hafa ekki fengið a.m.k. eitt stig út úr leiknum. Heilt yfir tökum við samt þessa frammistöðu með okkur áfram í riðlakeppnina og byggjum ofan á hana,” segir fyrirliðinn.

,,…nú getum við að einhverju leyti lagt Bestu deildina til hliðar og viðurkennt fyrir sjálfum okkur að við höfðum ekki alveg styrkinn og úthaldið í að vera upp á okkar besta á báðum vígstöðvum í hverjum einasta leik.“

Nú eru tvær vikur liðnar síðan þið lékuð þennan leik í Ísrael, en í millitíðinni lékuð þið 3 leiki í efri hluta Bestu-deildarinnar, þar sem þið unnu Víking en töpuð fyrir Val og svo KR sl. sunnudag, en með hagstæðum úrslitum í síðustu umferð var þátttökuréttur í Evrópukeppninni að ári liðnu tryggður. Það hlýtur að vera töluverður léttir fyrir leikmenn og félagið að það sé búið að loka þessum áfanga? ,,Já, nú getum við að einhverju leyti lagt Bestu deildina til hliðar og viðurkennt fyrir sjálfum okkur að við höfðum ekki alveg styrkinn og úthaldið í að vera upp á okkar besta á báðum vígstöðvum í hverjum einasta leik. Að því sögðu, þá er alls ekki sjálfgefið að ná Evrópusæti og það var mjög mikilvægt að klára það upp á næsta keppnistímabil. Núna léttir aðeins á okkur andlega og við getum keyrt á fullu á riðlakeppnina sem nær fram í miðjan desember og markmiðið er einfaldlega að gefa allt til þess að komast upp úr riðlinum.”

Vorum ekki með úthaldið til þess að keppast um Íslandsmeistaratitilinn samhliða Evrópuverkefninu

En mun það létta eitthvað á liðinu og hjálpa til í leiknum í dag á móti Zorya Luhansk að baráttan um Evrópusætið sé nú frá – eruð ekki lengur með þetta á bak við eyrun? ,,Já, það mun gera það í fullri hreinskilni. Þetta tímabil hefur verið góður lærdómur fyrir okkur um það hvað þarf til þess að keppa á báðum víg- stöðvum. Við vorum ekki með úthaldið til þess að keppast um Íslandsmeistaratitilinn samhliða Evrópuverkefninu, en við vitum nú betur hvað þarf til þess að hægt sé að gera það. Klúbburinn í heild sinni á nú að læra af þessu tímabili fyrir framtíðina og því auðvitað mjög mikilvægt að hafa klárað Evrópusætið.”

Verðum að vera upp á okkar allra besta

En hvernig leggst annars leikurinn á móti Zorya Luhansk í þig og félaga þína í Breiðablik – vitið þið eitthvað um liðið? ,,Við vitum núna það sem þjálfarateymið hefur lagt fyrir okkur á greiningarfundum og þetta er einfaldlega hörkulið og við þurfum að vera upp á okkar allra besta til þess að ná að sigra þennan sterka andstæðing.”

Leikmannahópurinn er klár

Hvernig er staðan á leikmannahópnum, eru allir heilir og getið þið stillt upp ykkar sterkasta liði? ,,Staðan á leikmannahópnum er góð. Nokkur smávægileg eymsli hér og þar, en heilt yfir er hópurinn klár.”

Ætlum að gera Laugardalsvöllinn að vígi

Nú leikið þið heimaleikina á Laugardalsvelli, hvernig leggst það í þig og hverja metur þú möguleikar ykkar að sækja stig í leiknum í dag? ,,Mér líst mjög vel á að spila heimaleikina á Laugardalsvelli. Við leggjum upp með að gera þennan völl að vígi, líkt og landsliðið náði að gera hér áður fyrr og til þess þurfum við að fjölmenna völlinn af stuðningsmönnum. Ég vona innilega og trúi því að það verði góð mæting á leikinn í kvöld.”

Forsíðumynd: Byrjunarlið Breiðabliks á móti Maccabi Tel Aviv á Bloomfield Stadium í Ísrael í fyrstu umferð keppninnar 21. september sl.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar