Garðapósturinn greindi frá tillögum Garðabæjar um breytingar á starfsumhverfi leikskóla bæjarins í síðasta tölublaði en tillögurnar eru sextán og nú fer fram víðtækt samráð um hverjar þeirra eru fýsilegastar fyrir starfsemi skólanna. Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar ræddi við Garðapóstinn um tillögurnar.
„Leikskólastarf á Íslandi stendur á miklum tímamótum, starfsfólk kallar á breytingar og það gerir samfélagið líka og Garðabær mun svara kallinu og allar breytingar verða gerðar með hag barnanna í algjörum forgangi. Markmiðið er að bæta enn frekar skipulag og starfsumhverfi leikskóla í Garðabæ þannig að tryggja megi stöðugleika í leikskólastarfinu og farsæld barna. Tillögurnar eru sextánog mun niðurstaða vinnunnar koma til framkvæmda í skrefum, við erum þess vegna í samráði við foreldra og starfsfólk um hverjar þeirra muni skila mestu fyrir börn og starfsfólk,“ segir Margrét, en hvaða ákall á hún við?
„Annars vegar erum við að stytta vinnutíma fullorðins fólks með það fyrir augum að bæta jafnvægi vinnu og einkalífs samhliða því að dvalartími barna á leikskólaaldri er oft lengri en meðal vinnudagur. Hins vegar gengur okkur ekki nógu vel að manna leikskólana og við viljum halda uppi faglegu og þroskandi starfi fyrir okkar minnsta fólk. Við höfum haft sterka og góða leikskóla hér í bænum vegna þess að við höfum verið óhrædd við að hafa skólastarfið í stöðugri þróun. Við þurfum að mæta bæði mismunandi þörfum barna og foreldra og huga að starfsumhverfi leikskólastarfsfólks,“ segir hún.
Sterkt og faglegt leikskólastarf
„Ég er ofsalega stolt af því hvernig við höldum utan um leikskólastarf bæjarins. Það sést vel á því að á síðustu 15 mánuðum höfum við meðal annars samþykkt biðlistagreiðslur fyrir börn frá 12 mánaða aldri þar til viðkomandi barn kemst inn á leikskóla, leikskólagjöld eru felld niður milli jóla- og nýárs og í Dymbilviku ef foreldrar óska eftir fríi á þeim tíma. Einnig er starfsfólki í leikskólum heimilt að sækja fagnám í leikskólafræðum með stuðningi bæjarins sem meðal annars felst í styrkjum og heimild til þess að sækja nám á launum. Þróunarsjóð urinn hvetur fagfólkið okkar til að vinna að umbótaverkefnum í þágu barna og umhverfis þeirra,“ segir Margrét.
Breytingar fram undan sem byggjast á sveigjanleika
„Ég hallast að því að sveigjanlegur dvalartími barna sé góður kostur. Sú breyting gæti leitt til þess að dvalartími barna á leikskóla styttist yfir vikuna og í kjölfarið yrði skerðing á leikskólagjöldum samkvæmt því. Með því að bjóða upp á sveigjanlegan dvalartíma innan opnunartíma leikskóla gefst foreldrum tækifæri til að skipuleggja mislanga daga í samræmi við sínar þarfir. Með þessu er verið að leitast við að bæta þjónustu við foreldra og aðlaga dvalartíma að þörfum fjölskyldunnar,“ segir Margrét og vísar til þess að dvalartími barna í leikskólum á Íslandi er með því lengsta sem þekkist í heiminum og hefur aukist jafnt og þétt síðustu árin. „Við vitum að þessi dvalartími er of langur, en samtímis vitum við að foreldrar eru oft í þröngri stöðu. Þess vegna þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu.“
Í Garðabæ eru leikskólar opnir frá 07:30 – 17:00. Í leikskólum Garðabæjar voru 57% barna með greiddan dvalartíma í 8 klukkutíma eða skemur og einungis um 4% barna voru með 9 – 9.5 klst. Aðeins hluti foreldra nýtir þennan dvalartíma til fulls þannig að rauntími barnsins í leikskólanum er minni en greiddur dvalartími. „Með því að breyta opnunartíma leikskólanna verður auðveldara að dreifa styttingu vinnuvikunnar fyrir starfsfólk. Stytting á opnunartíma leikskóla mun bæta þjónustu við flest börn sem dvelja í leikskólum þar sem mönnun verður auðveldari og minni líkur eru á að grípa verði til fáliðunarreglunnar,“ segir Margrét.
Samtalið & næstu skref
„En við gerum þessar breytingar ekki án þess að ræða við foreldra og starfsfólk leikskólanna. Tillögurnar liggja fyrir og það er í mörg horn að líta. Það er mjög mikilvægt að hafa virkt samtal við bæði starfsmenn leikskóla bæjarins sem og foreldra þegar verið er að útfæra og fullmóta tillögurnar. Við í leikskólanefnd munum fara vandlega yfir hverja og eina tillögu og sjá til þess að hugað sé að velferð barna, bættu starfsumhverfi leikskólastarfsfólks og koma til móts við fjölskyldur og ólík fjölskyldumynstur. Við vitum þó að við verðum að gera breytingar, barnanna vegna. Foreldraráðin í leikskólunum hafa sent okkur ábendingar og það hefur starfsfólk leikskólanna einnig gert. Næst er að fullmóta tillögurnar og halda þessu samráði áfram, það er lykillinn á verkefninu. Þegar þær eru fullmótaðar verða þær lagðar fyrir bæjarráð og bæjarstjórn, en þær eiga að taka gildi um áramótin,“ segir Margrét.
Nú í vor var skipaður vinnuhópur sem samanstóð af stjórnendum í leikskólum Garðabæjar, leikskólafulltrúa og sviðstjóra fræðslu- og frístundasviðs. Þessi vinnuhópur vann að tillögum sem nú er verið að vinna í. Þessar tillögur snéru að leiðum til þess að greiða úr mönnunarvanda, stytta dvalartíma barna og einnig voru aðrar tillögur sem hafa það allar að markmiði að bæta starfsumhverfi leikskóla, tillögurnar voru í heildina 16 talsins en koma ekki allar til framkvæmda.
Markmið tillagna er að bæta enn frekar skipulag og starfsumhverfi leikskóla í
Garðabæ þannig að tryggja megi stöðugleika í leikskólastarfinu og farsæld barna. Markmið með tillögum er einnig að mæta ákvæðum kjarasamninga um styttingu vinnuvikunnar fyrir starfsfólk.
Tillögur sem hafa áhrif á mönnun og dvalartíma barna:
- Lagt er til að stytta daglegan opnunartíma leikskóla í Garðabæ frá 17:00 í 16:30.
- Lagt er til að boðið verði upp á sveigjanlegri vistunartíma barna innan vikunnar í leikskólum Garðabæjar frá 20 tímum til 42,5 tíma.
- Lagt er til að leikskólar í Garðabæ loki kl. 14.00 á föstudögum.
- Lagt er til að sumarleyfi barna í leikskólum í Garðabæ verði aukið úr fjórum vikum í fimm.
- Lagt er til að leikaskólar í Garðabæ loki í vikunni fyrir Verslunarmannahelgi.
- Lagt er til að leikskólagjöld í leikskólum í Garðabæ falli niður í vetrarfríi grunnskóla ef börn eru í fríi.
- Lagt er til að skipulagsdögum leikskólum í Garðabæ verði fjölgað frá fjórum í fimm.
Aðrar tillögur: - Lagt er til að starfsfólk með lögheimili í Garðabæ verði boðin forgangur að ákveðnum fjölda leikskólaplássa gegn skilyrðum.
- Lagt er til að starfsfólk með lögheimili í Garðabæ fá afslátt af leikskólagjöldum gegn skilyrðum.
- Lagt er til að breyta viðmiðum um grunnmönnun í leikskólum í Garðabæ.
- Lagt er til að hverri deild í leikskólum Garðabæjar verði tryggður sami undirbúningstími.
- Lagt er til að fleiri starfsheiti verði skilgreind inn í leikskólum Garðabæjar.
- Lagt er til nýtt samræmt starfsheiti fyrir starfsfólk í leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila verði til í Garðabæ.
- Lagt er til er til að gerð verði heilstæð áætlun fyrir leikskóla Garðabæjar til að takast á við mikla fjarveru og kostnað vegna veikinda starfsfólks.
- Lagt er til að efla fræðslu og endurmenntun starfsfólks leikskóla Garðabæjar.
- Skoða fjölda fermetra í leikrými, aðstöðu starfsfólks og annað rými í leikskólum Garðabæjar.