Kópavogur og Reykjavík deildu bás

Nýlega var haldin sýningin Verk og Vit Í Laugardalshöll. Þetta er í fimmta sinn sem sýningin er haldin og sem fyrr er hún einkum ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar. Mikill áhugi var á sýningunni en um 100 fyrirtæki og stofnanir kynntu þar vörur sínar og þjónustu. Sýningin var vel sótt að vanda.

Meðal sýnenda á Verk og vit eru byggingarverktakar, verkfræðistofur, menntastofnanir, fjármála- og ráðgjafafyrirtæki, tækjaleigur, hugbúnaðarfyrirtæki og sveitarfélög svo eitthvað sé nefnt.
Reykjavíkurborg og Kópavogsbær voru sameiginlega með bás á sýningunni þar sem Alda, verðlaunatillaga um nýja og glæsilega brú yfir Fossvog, var hryggjarstykkið. Vakti brúin mikla athygli enda framkvæmd sem breytir samgöngum til mikilla bóta.

Jafnframt kynnti Kópavogsbær byggingarverkefni í bænum sem ýmist eru á hönnunar- eða á framkvæmdastígi. Vöktu þau mikla athygli enda er mikill áhugi á íbúðum í Kópavogi. Voru margir sem komu og skoðuðu og vildu fá frekari upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir.
Markaðsstofa Kópavogs kom að uppsetningu sýningarinnar ásamt starfsfólki Skipulagssviðs sem saman stóð vaktina meðan á sýningunni stóð.

Við þökkum gestum fyrir komuna og vonum að þeir hafi haft bæði gagn og gaman af heimsókninni.

Forsíðumynd: Björn Jónsson verkefnastjóri Markaðsstofu Kópavogs segir áhugasömum gestum frá byggingarverkefnum í Kópavogsi sem ýmist eru á hönnunar- eða á framkvæmdastígi

Fyrirhuguð brú yfir Fossvog

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar