Komdu á Bókasafn Kópavogs í sumar!

Starfið er í fullu fjöri á Bókasafni Kópavogs í sumar og er eitthvað fyrir alla. Kyrrðarrými eru í boði í barnadeildinni þar sem hægt er að kúra sig með bók og hellirinn er á sínum stað undir stiganum þar sem dýnur og púðar bjóða upp á að eiga notalega sögustund með mömmu og pabba. Sumarlesturinn fyrir grunnskólabörn er að sjálfsögðu enn í fullum gangi og ekki of seint að skrá sig til leiks á www.sumarlestur.is. Lesaðstaðan er opin fyrir þá sem vilja næla sér í vinnuaðstöðu, til dæmis frábær fyrir námsmenn sem vilja vinna að lokaritgerðinni í sumar og grípa með sér kaffi í leiðinni á bókasafninu eða einum af hinum mörgu kaffihúsum sem eru nú til staðar við Hamraborgina. Eða ef einhverjum dettur í hug að sinna smá saumaskap í sumarfríinu þá eru að sjálfsögðu tvær saumavélar til staðar á aðalsafni sem gestum og gangandi er frjálst að koma og nýta sér. Ekki skemmir fyrir að hannyrðaklúbburinn okkar, Kaðlín hittist alla miðvikudaga í allt sumar og má alltaf koma við og sinna handavinnu í skemmtilegum félagsskap – og jafnvel fá smá ráð ef þörf er á! Haustdagskráin er vel á veg komin í skipulagningu og búast má við skemmtilegum viðburðum og fleiru þegar allt fer af stað í september.

Verið velkomin á safnið! Hlökkum til að taka á móti ykkur.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar