Kennarabarn

Ágæti lesandi, mig þarf líklega ekki að kynna fyrir þorra Kópavogsbúa, því ég hef verið hér viðloðandi stjórnmálin frá 1998, þó ekki síðustu árin. Nú sit ég í 3. sæti á lista Miðflokksins og óháðra. Ég er uppalin á Laugum í Suður- Þingeyjarsýslu og er kennarabarn. Það að vera kennarabarn hefur fyrir mér ákveðna merkingu og segir ákveðna sögu. Ég vil segja ykkur stuttlega frá vangaveltum mínum um það mikilvægasta í lífinu og það lærði ég líkalega sumt sem barn, dóttir íþróttakennara og hússtjórnarkennara.

Hvað er það mikilvægasta í lífinu? Sumir þurfa án efa að hugsa sig um og skoðanir geta verið skiptar. Það sem við flest hugsum – er án efa að það mikilvægasta í lífinu sé að búa við góða heilsu, hafa atvinnu og húsnæði og að allur aðbúnaður barnanna okkar sé eins og best verður á kosið!
Þessi hugsun vekur hjá okkur spurningar um hvernig hægt er að uppfylla þessar óskir. Við skulum byrja á byrjuninni. Góð heilsa veltur ekki aðeins á þeim ákvörðunum sem við sjálf tökum um heilsu okkar, heldur einnig á þeim ákvörðunum sem stjórnvöld taka um heilsutengd málefni, skipulag, framboð af heilbrigðisþjónustu og staðsetningu og framboði fyrirtækja í bænum.

Það skiptir máli hvað við ákveðum að setja inn fyrir okkar varir, hvort við ákveðum að hreyfa okkur – dag hvern í a.m.k. 30 mínútur og hvernig við náum sjálf að hafa áhrif þannig að okkur líði vel. Þessi upptalning segir okkur einnig að við sem erum foreldrar erum fyrirmyndir um þessa sömu hegðun þegar börnin okkar eiga í hlut. Þau læra það sem fyrir þeim er haft. Foreldrar geta því haft áhrif á heilsu barna sinna og hegðun. Það á líka að vera hlutverk sveitarfélagsins að stuðla að bættri lýðheilsu bæjarbúa og skipuleggja byggingar og umhverfi fjölskyldna þannig að valið um að velja heilbrigðan lífsstíl aukist.

Að hafa húsnæði og atvinnu er auðvitað forgangsmál og þar þurfa stjórnvöld, bæði ríki og borg að standa sig í stykkinu. Í öflugum íþrótta- og menningarbæ eins og Kópavogi þarf að bjóða upp á húsnæði fyrir mismunandi hópa samfélagsins. Allir eiga að vera velkomnir og fá þjónustu við hæfi. Þetta á við um börn, eldra fólk, fatlaða, öryrkja og alla aðra sem tilheyra samfélaginu.

Lengi hefur verið rætt um mikilvægi menntunar fyrir alla og skóla án aðgreiningar. Mikilvægi uppeldis er minna rætt, að kenna börnum æskilega hegðun og framkomu þannig að þeim farnist sem best í lífinu. Ég þekki það af eigin reynslu, með mín þrjú börn – að í leiksskólum, grunnskólum og í MK er gott stafslið, bæði menntað og minna menntað, sem hefur aflað sér langrar reynslu við að starfa með börnum. Margir kennarar og aðrir starfsmenn hafa þó tekið að sér mun stærra verkefni, en þeir hafa menntað sig til, þ.e. að kenna námsgreinar. Það er ærin vinna að sinna einnig uppeldi og margvíslegum samskiptum, stuðningi við fjölbreyttan hóp nemenda. Það þarf að endurskoða og meta störf kennara og kalla í ríkari mæli til fleiri sérfræðinga í málefnum barna, uppeldisfræðinga og aðra.

Kennarastarfið, starf með börnum er eitt mikilvægasta starfið sem um getur og þess vegna er til mikils að vinna að efla það og fjölga líka fagaðilum því þannig byggjum við upp góða skóla í Kópavogi!

Ég hvet þig til þess að merkja X við M á kjördag, laugardaginn 14. maí.

Una María Óskarsdóttir er uppeldis- menntunar og lýðheilsufræðingur – fyrrverandi varabæjarfulltrúi í Kópavogi og var formaður íþrótta- og tómstundaráðs, forvarnanefndar og jafnréttisnefndar.
Skipar 3. sæti á lista Miðflokksins og óháðra.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar