Fjárfestum í fólki til framtíðar

Það er gott að búa í Garðabæ og hér hefur mér liðið vel síðan ég flutti hingað þegar ég var 18 ára. Samfélagið hefur vaxið hratt undanfarin ár og ljóst er að ýmsir vaxtaverkir hafa fylgt með í kjölfarið og þjónustan hefur ekki haldið í við vöxtinn.

Garðabær hefur alla burði til þess að vera framúrskarandi og leiðandi á mörgum sviðum.

Barnvænt samfélag

Áherslur okkar í Framsókn snúa mikið að fjölskyldunni. Við viljum skapa barnvænt samfélag og létta undir barnafjölskyldum í bænum. Það er nefnilega staðreynd að það er dýrt að búa í Garðabæ fyrir barnafjölskyldur.

Þess vegna viljum við hækka frístundarstyrkinn (Hvatapeningur) upp í 90.000 kr., lækka leikskólagjöld, koma á systkinaafslætti og bjóða upp á sumarfrístund. Þessar aðgerðir eru til þess fallnar að létta undir með barnafjölskyldum sem oft eru að koma undir sig fótunum í bænum.

Fjárfestum í fólki

Við viljum fjárfesta í fólki til framtíðar, þar spilar lýðheilsa, forvarnir og heilsueflandi aðgerðir stórt hlutverk. Snemmtæk íhlutun og að hlúa að andlegri heilsu ungmenna er mikilvægt verkefni. Við teljum skynsamlegt að taka upp skimanir við kvíða og þunglyndi hjá 9. bekkingum og grípa þá fyrr inn í með úrræðum. Einnig viljum við sjá ungmennahús fyrir 16 til 25 ára til að veita þeim hópi sem kannski finnur sig ekki í hefðbundnum tómstundum athvarf.

Eldast með reisn í Garðabæ

Að sama skapi þarf að nálgast lýðheilsuna óháð aldri. Tómstundastyrkur fyrir eldra fólk er hugmynd sem okkur hugnast vel til að auka félagslega virkni eldra fólks í bænum. Við erum að lifa lengur og það er frábært. Hinsvegar fylgja því áskoranir sem við þurfum að mæta, þar er gríðarlega mikilvægt að efla og styrkja heimaþjónustu í bæjarfélaginu svo eldra fólk geti elst með reisn heima hjá sér, kjósi það svo. Samhliða aukinni heimaþjónustu þarf að leggja áherslu á forvarnir og heilsueflandi aðgerðir.

Einn Garðabær

Við viljum við leggja áherslu á að Garðbæingar upplifi sig sem eina heild í einu bæjarfélagi. Að sama þjónustustig sé í boði fyrir íbúa burt séð frá því hvort þau búi á Álftanesi, Urriðaholti eða á Flötunum. Að samgöngutengingar séu góðar á milli bæjarhluta fyrir gangandi, hjólandi og akandi.

Að reka sveitafélag er samvinnu verkefni, að hlusta á íbúa og leysa málin á skynsamlegan hátt.
Ég flutti 18 ára í Garðabæinn og þurfti styrk til að brúa síðustu árin af framhaldsskóla áður en ég færi í háskólann með tilheyrandi lánum. Ég bankaði því uppá á bæjarskrifstofunum og óskaði eftir stuðning frá bænum til að geta klárað FG, svarið hjá Garðabæ var nei, við getum ekki aðstoðað þig. Ég endaði á því að skrá mig í annað bæjarfélag til að fá þann styrk sem ég þurfti til að ljúka námi og verð ævinlega þakklát fyrir það.

Hver eru skilaboðin með þessari sögu? Jú, þau eru þau að mig langar til þess að Garðabær verði þetta samfélag sem finnur lausnir, er annt um hvern og einn og sé sveigjanlegt. Því við erum ekki öll eins og þurfum ekki öll það sama.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar