Hvers vegna að kjósa í Kópavogi?

Því kosningarnar 14.maí snúast um hvernig samfélagi við viljum búa í. Við getum valið að gera Kópavog að samfélagi sem gerir allt sem það getur svo íbúarnir hafi jöfn tækifæri og öruggt húsnæði. Jafnframt að bærinn auðveldi íbúum að velja vistvænan lífsstíl og stuðli að samfélagi velferðar og jöfnuðar þar sem við fáum öll notið okkar.

Íbúasamráð

Vinstri græn vilja að Kópavogur sé bær þar sem íbúum finnast þeir skipta máli fyrir bæinn sinn. Að tekið sé tillit til skoðanna íbúanna þegar ákvarðanir eru teknar. Að tilfinning okkar fyrir eigin umhverfi, væntumþykja okkar á hverfinu okkar og náttúrunni sé meira virði en sjónarmið fjármagns og fjárfesta.

Við viljum að sjónarmið okkar allra fái að njóta sín, ekki bara á kjördag, líka á milli kosninga. Að bærinn leggi meira upp úr skoðunum og þörfum bæjarbúa en verktaka og fjárfesta. Samráð við íbúa sé ekki bara til að tikka í box heldur sé raunverulegur áhugi á að ná lendingum sem fólk er ánægt með.

Gjaldfrjáls skólaganga

Vinstri græn vilja að börn bæjarins fái jöfn tækifæri, hvort sem er í skóla eða frístundum. Að þátttaka þeirra sé ekki háð efnahag foreldranna. Því viljum við að bærinn ákveði að skólaganga, hvort sem er í grunn- eða leikskólum verði gjaldfrjáls. Að bærinn hætti að rukka fyrir frístund, að við gerum eins og frændur okkar Finnar og höfum heilnæmar skólamáltíðir fríar. Einnig vilja Vinstri græn að þátttaka barna í íþróttum og frístundum verði ekki háð efnahag foreldranna.

Tryggjum velferð allra

Við viljum samfélag þar sem eldra fólk er metið að verðleikum og ekki er litið á þau sem vandamál. Við viljum að bærinn sækist eftir að taka að sér verkefni í öldrunarþjónustu, í samvinnu við ríkið, og hafi þannig fulla stjórn á þjónustunni. Vinstri græn vilja að bærinn bjóði fólki með skerta starfsgetu störf við hæfi og geri þeim kleift að njóta sín með fullri þátttöku í samfélaginu.
Vinstri græn vilja að bæjarfélagið tryggi öllum öruggt húsnæði og að engin þurfi að greiða meira en þriðjung af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði. Einnig viljum við að bærinn taki upp sérstaka húsnæðisstyrki fyri þau sem eru að stofna heimili í fyrsta sinn, hvort sem er í leiguhúsnæði eða við kaup.

Kópavogur vinabær Kharkiv

Við viljum að Kópavogur sé í fararbroddi við að sýna samhygð með fólki á flótta. Að bærinn opni dyr sínar fyrir fólki í neyð. Við viljum að Kópavogur taki upp vinabæjarsamband við Kharkiv í Úkraínu, næst stærsta sveitarfélagi í landinu, og hvetji önnur sveitarfélög til að koma á slíkum samskiptum.

Kolefnishlutlaus Kópavogur

Vinstri græn vilja að Kópavogur verði fyrsta stóra kolefnishlutlausa sveitarfélagið og stigi markviss skref til að auðvelda íbúunum að taka þátt í því verkefni.

Þannig samfélag vilja Vinstri græn taka þátt í að byggja upp, um það snúast kosningarnar. Vertu með okkur 14.maí og hjálpumst að við að gera Kópavog fyrir okkur öll. X-V 14. Maí.

Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir, oddviti Vinstri grænna í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar