Aðdáandabréf

Það styttist í að ég geti sagt að ég hafi verið í stjórnmálum í 25 ár (það eru innan við 12 ár í það). Á þessum tíma hef ég kynnst fjölmörgu frábæru fólki með hina ýmsu kosti sem skipta máli í stjórnmálum. En það eru ekki margir sem sameina þessa kosti með eins augljósum hætti og ákveðinn maður hér í bæ en sá heillaði mig reyndar fyrst fyrir um 40 árum.

Þá kynntist ég honum sem einni helstu íþróttahetju landsins. Ég var 9 ára gamall og nýfluttur heim frá Bandaríkjunum. Þaðan var ég fluttur gegn vilja mínum vegna þess að ég vissi að á Íslandi væri enginn NFL-„fótbolti“ bara evrópskur fótbolti.

En eftir heimkomuna fór ég fljótlega að fylgjast með hetjum Íslands í alvöru fótbolta. Fremstur í flokki var Lárus Guðmundsson sem var þekktur afreksmaður í evrópskri knattspyrnu (og á reyndar enn nokkur Íslandsmet í afrekum á því sviði). Ég man enn eftir því þegar ég eignaðist loksins fótboltaspjaldið sem ég þráði með mynd af Lárusi (það gerðist á bensínstöð Olís við Álfabakka).
En þrátt fyrir að hafa litið upp til Lárusar sem fótboltahetju átti ég eftir að komast að því að mestu afrek hans komu síðar. Hann hefur reynst samfélaginu í Garðabæ ómetanlegur. Hann hefur sýnt af sér allt það besta sem gott samfélag þarf á að halda. Rekið fyrirtæki, skapað störf, sinnt menntamálum og hinum ýmsu félagsmálum, unnið sjálfboðavinnu, leikið með og þjálfað hjá Stjörnunni og markað tímamót í æskulýðsstarfi með stofnun knattspyrnufélags til að gefa sem flestu ungu fólki í Garðabæ tækifæri til að vaxa sem einstaklingar.

Lárus gengur í öll verk eftir því sem á þarf að halda. Eftir stofnun KFG rak hann lengi félagið, var formaður þess, þjálfaði og ók liðsrútunni. En hann hjálpaði líka mörgum ungum mönnum sem voru að takast á við fíkn eða aðra erfiðleika.

Það segir sína sögu að Lárus og aðrir KFG menn skuli um leið vera með dyggustu stuðningsmönnum Stjörnunnar enda hefur öll vinna hans miðað að því að efla einstaklinga en styrkja um leið samheldið, sterkt og gott samfélag í Garðabæ.

Lárus Guðmundsson er afreksmaður í fótbolta en hann er líka afreksmaður á fjölmörgum öðrum sviðum. Nú býður hann fram krafta sína í bæjarstjórn. Ég hvet Garðbæinga til að þiggja það góða boð og nýta dugnað, þrautseigju, sýn og reynslu afreksmannsins Lárusar Guðmundssonar til að gera góðan bæ enn betri með því að setja x við M á kjördag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar