Hvað með unga fólkið?

Hvers vegna ákveður 20 ára Kópavogsbúi að bjóða sig fram til bæjarstjórnar? Til þess að gera bæinn ungmennavænni. Meðalaldur núverandi bæjarfulltrúa er í kringum 54 ár, sem er 16 árum hærra en meðalaldur bæjarbúa, og því þarf ekki að furða að ákvarðanataka meirihluta bæjarstjórnar síðustu árin hafi verið eftir því. Raddir ungs fólks hafa ekki fengið mikinn hljómgrunn í bæjarstjórn síðustu árin, enda einungis einn sitjandi bæjarfulltrúi, Sigurbjörg Erla Pírati, undir meðalaldri bæjarbúa. Þessu þarf að breyta. Ungt fólk er nefnilega flest í annarri stöðu í lífinu en sitjandi bæjarfulltrúar, og þá sérstaklega núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Við eigum ekki einkabíl. Einkabílar eru dýrir í rekstri og ekki á færi alls námsfólks að reka þá. Sjálfur hjóla ég hvert sem ég fer og nýt þess. Það er þó heldur ekki á færi allra að hjóla dagsdaglega, hvort sem er vegna líkamlegra örðugleika, gatnakerfisins í nágrenni þeirra eða annars. Annar möguleiki er að reka einkabíl en slíkt krefst fjármuna sem stúdentar hafa jafnan ekki aflögu nema að vinna með skóla. Vinna með skóla er þó gjörn á að draga úr námsárangri og hefta möguleika námsfólks til framhaldsnáms. Lausnin á þessum vanda er bættar almenningssamgöngur, Strætó bs. í náinni framtíð og Borgarlína á næstu árum. Því er auk þess við að bæta að framhaldsmenntun verður sífellt nauðsynlegri á vinnumarkaðinum. Það er þannig ekki bara hagsmunamál ungs fólks heldur alls samfélagsins að bæta almenningssamgöngur.

Við eigum ekki húsnæði. Við munum heldur ekki eignast húsnæði fyrr en við erum löngu sest í helgan stein, dáin og grafin ef fer sem horfir. Sjálfur á ég ekki 10.000.000 kr. í innborgun á 65m2 íbúð og er í sömu stöðu og þúsundir annarra ungmenna sem horfa á verðin hækka, og hækka, og hækka og ekkert er gert. Þess vegna þurfum við markvisst, óhagnaðardrifið átak í húsnæðismálum sem nær til allra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaðinum. Þetta vilja Píratar gera.

Við kvíðum loftslagsbreytingum. Kópavogsbær hefur dregið lappirnar skammarlega mikið í loftslagsmálum. Núverandi meirihluti hefur ekki einu sinni samþykkt loftslagsstefnu Kópavogsbæjar, sem þó hefur ítrekað komið til umræðu, allt frá því að Sigurbjörg, eini fulltrúi yngri kynslóðarinnar, lagði fram tillögu um að vinna loftslagsstefnu í upphafi kjörtímabilsins. Sem næststærsta bæjarfélag landsins getur Kópavogur verið bæði leiðandi og fordæmisgefandi í lofstlagsmálum svo komandi kynslóðir erfi byggilega jörð. Til þess að svo megi verða þarf nýjan meirihluta í bæjarstjórn sem er ekki sama um umhverfið og framtíðina.

Við unga fólkið erum þreytt á að fá ekki að sitja við borðið. Er það svo klikkað að vilja eiga þak yfir höfuðið? Að vilja hjóla um bæinn án þess að vera í óþarfa hættu á að verða fyrir bíl? Að geta tekið strætó í skólann? Að þurfa ekki að óttast yfirvofandi hnatthlýnun? Nei, það finnst mér ekki. Núverandi meirihluta virðist þó finnast það. Þess vegna er mikilvægt að setja X við P í bæjarstjórnarkosningunum 14. maí.

Árni Pétur Árnason
Höfundur er 20 ára nemi og skipar 6. sæti á lista Pírata fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 14. maí.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar